Fara í efni

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd (SH)

4. fundur 19. nóvember 2024 kl. 20:00 - 22:14 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Ásmundur Sigurjón Guðmundsson formaður
  • Lárus Ástmar Hannesson (LÁH) aðalmaður
  • Viktoría Líf Ingibergsdóttir aðalmaður
  • Arnar Geir Diego Ævarsson aðalmaður
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Ásmundur S. Guðmundsson formaður
Dagskrá

1.Sóknaráætlun 2025-2029

Málsnúmer 2410014Vakta málsnúmer

Lögð fram að sóknaráætlun Vesturlands 2025-2029.
Lagt fram til kynningar.

2.Vigraholt - Deiliskipulag og breyting á aðalskipulagi

Málsnúmer 2404030Vakta málsnúmer

Lagðar fram vinnslutillögur að deiliskipulagi og breytingu á aðalskipulagi við Vigraholt þar sem fyrirhuguð er uppbygging á verslun og þjónustu.
Lagt fram til kynningar.

3.Agustsonreitur - skipulagsbreyting

Málsnúmer 2302009Vakta málsnúmer

Lögð fram vinnslutillaga deiliskipulags fyrir Agustsonreit þar sem fyrirhuguð er uppbygging hótels og íbúða.
Lagt fram til kynningar.

4.Kallhamar og Hamraendar - Skipulagsáætlanir (ASK br. og DSK)

Málsnúmer 2206035Vakta málsnúmer

Lagðar fram vinnslutillögur deiliskipulags fyrir atvinnusvæði við Hamraenda og Kallhamra, þar sem fyrirhugaður er grænn iðngarður.
Lagt fram til kynningar.

5.Sjálfbær atvinnusvæði á Vesturlandi

Málsnúmer 2411029Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla KPMG um sjálfbær atvinnusvæði á Vesturlandi.
Lagt fram til kynningar.

6.Minnisblaðið til fjárlaganefndar um endurreisn kræklingaræktar

Málsnúmer 2411030Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað um endurreisn kræklingaræktar, sem sveitarfélagið sendi ásamt öðrum til fjárlaganefndar.
Lagt fram til kynningar.

7.Þjóðlendumál - eyjar og sker

Málsnúmer 2402013Vakta málsnúmer

Fjármála- og efnahagsráðherra hefur fyrir hönd íslenska ríkisins afhent óbyggðanefnd endurskoðaðar þjóðlendukröfur vegna eyja og skerja umhverfis landið. Óbyggðanefnd kallar nú eftir kröfum þeirra sem kunna að eiga öndverðra hagsmuna að gæta og hefur nú framlengt kröfulýsingarfrest þeirra til 13. janúar 2025.



Bæjarráð fól bæjarstjóra, á 26. fundi sínum, að vinna málið áfram í samræmi við fyrri ályktanir og fela lögmanni að gæta hagsmuna sveitarfélagsins.
Lagt fram til kynningar.

8.Erindi frá SSV til sveitarfélaga á Vesturlandi

Málsnúmer 2410011Vakta málsnúmer

Lagt fram minnisblað um mönnun HVE ásamt bréfi frá framkvæmdastjóra SSV. Bæjarráð tók, á 26. fundi sínum, undir þau sjónarmið sem fram koma varðandi mögulega aðkomu sveitarfélaganna og lýsti yfir vilja til þátttöku í þeim verkefnum sem fram koma í fyrirliggjandi erindi.



Bæjarstjórn staðfesti afgreiðslu bæjarráðs á 29. fundi sínum.
Lagt fram til kynningar.

9.Sjávarútvegsstefna og skelbætur

Málsnúmer 2312008Vakta málsnúmer

Lögð fram gögn vegna skel- og rækjubóta og stöðu þeirra mála sem tengjast tillögum sem settar eru fram í skýrslunni Auðlindin okkar-Sjálfbær sjávarútvegur og eru til meðferðar hjá matvælaráðuneytinu, ásamt ályktunum 23. fundar bæjarráðs þann 20. júní 2024 og 26. fundar bæjarstjórnar þann 27. júní 2024 þar sem minnt var á að bæjarstjórn Stykkishólms hafur ávallt lagt þunga áherslu á mikilvægi skelbóta fyrir atvinnulífið í Stykkishólmi og þar með samfélagið í heild. Í því sambandi var vísað til fyrri ályktana bæjarstjórnar.



Í fyrrnefndum ályktunum var tekið fram að talsmenn útgerða við Breiðafjörð, sem hafa nýtt skelbætur, hafi sent forsætisráðherra og matvælaráðherra erindi um að fyrirtækin fái fulla heimild til þess að nýta skelbæturnar áfram svo sem verið hefur. Jafnframt hafi talsmenn fyrirtækjanna sent inn lögfræðiálit sem sýnir með skýrum hætti að verði skelbætur felldar niður bótalaust er um eignaupptöku að ræða. Í því sambandi var ítrekuð afstaða sveitarfélagsins að verði skelbæturnar felldar niður muni það skaða mjög starfsemi fyrirtækja í Stykkishólmi sem fara með 82.85% skelbótanna og valda miklum samdrætti í atvinnulífinu í Stykkishólmi sem er með öllu óásættanlegt. Matvælaráðherra og þingmenn kjördæmisins voru að lokum hvattir til þess að leita allra leiða til þess að tryggja að skelbæturnar verði veittar áfram eða gerðar upp með því að fyrirtækin fái sinn hlut í skelbótunum og geti nýtt hann við veiðar á bolfiski svo sem verið hefur.



Á 28. fundi sínum ítrekaði bæjarstjórn Stykkishólms fyrri ályktanir og lagði þunga áherslu á mikilvægi þess að sanngjörn og farsæl niðurstaða fáist í þetta mikilvæga mál sem fyrst.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tekur undir ályktun bæjarstjórnar Stykkishólms um að skelbætur verði veittar áfram.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd ítrekar jafnframt áherslu sína með að handhafar skelbóta fái í stað bótanna varanlegan nýtingarrétt í aflahlutdeild sem verði án framsalsréttar og krafa um veiðar og vinnslu bundin við þá staði við Breiðafjörð þar sem veiðarnar fóru fram á sínum tíma, í samræmi við tillögu 3.1.6. í niðurstöðu starfshóps um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi, dags. 17. mars 2022.

10.Frumvarp til laga um breytingu á ýmsum lögum um skatta og gjöld o.fl.

Málsnúmer 2411027Vakta málsnúmer

Lagt fram frumvarp til laga sem gerir m.a. ráð fyrir að leggja 2.500 króna innviðagjald á hvern farþega skemmtiferðaskipa fyrir hvern sólarhring sem siglt er við Íslands strendur.



Lagabreytingar gætu leitt af sér færri komur skemmtiferðaskipa til landsins og þá sérstaklega minni skipanna, sem hafa sótt heim minni byggðir á borð við Stykkishólm.



Einnig er lögð greinargóð yfirferð Bjargar Ágústsdóttur, bæjarstjóra Grundarfjarðarbæjar og fréttir af málinu.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd leggst gegn þeim álögum sem taka eigi gildi um næstkomandi áramót, enda fyrirvarinn of skammur fyrir slíka gjaldtöku. Ef umrædd gjöld verða að veruleika eru verulegar líkur á stoðunum verði kippt undan lífæð Stykkishólmshafnar með tilheyrandi þjónustuskerðingu. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd telur nauðsynlegt að slík gjöld eigi að skila sér til nærsamfélaganna, þ.e. sveitarfélaganna.

Samþykkt með þremur atkvæðum H-listans, gegn einu atkvæði Í-lista.


Bókun fulltrúa Í-lista:
Undirritaður telur eðlilegt að þessi gjöld verði innheimt en telur hinsvegar að þeir fjármunir sem innheimtast vegna gjaldtökunnar eigi að renna, að stæðstum hluta til sveitarfélaganna. Gildistöku breytinganna verði þó að miða við að þau félög sem eru að selja ferðir til Íslands hafi fyrirvara á að setja þessi gjöld inní verð ferðanna.

Lárus Ástmar Hannesson

11.Sýslumaðurinn á Vesturlandi

Málsnúmer 2411028Vakta málsnúmer

Dómsmálaráðherra setti Birnu Ágústsdóttur, sýslumanninn á Norðurlandi vestra, tímabundið sem sýslumann á Vesturlandi, frá 1. júní sl. til og með 31. maí 2025. Tilefni setningarinnar var beiðni Ólafs Kristófers Ólafssonar, sýslumanns, um lausn frá embætti.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd skorar á dómsmálaráðherra að auglýsa nú þegar starf Sýslumannsins á Vesturlandi, sem er með aðsetur í Stykkishólmi, laust til umsóknar.

12.Samgönguáætlun fyrir árin 2024-2038

Málsnúmer 2306027Vakta málsnúmer

Samgöngumál innan sveitarfélagsins tekin til umræðu í atvinnu- og nýsköpunarnefnd.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd skorar á innviðaráðherra, Vegagerðina, þingmenn Norðvesturkjördæmis og umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis að leggjast á eitt um að færa framkvæmdir á um Snæfellsnesveg 54 um Skógarströnd framar á samgönguáætlun. Það er í raun ótækt þessi STOFNVEGUR á láglendi, sem enn er að langt stærstum hluta MALAVEGUR, sá eini á Íslandi, sé ekki í sérstökum forgangi í samgönguáætlun.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd minnir í því sambandi á að Skógarstrandarvegur er hluti grunnnetsins samkvæmt samgönguáætlun ætti því að vera forgangsatriði við ráðstöfun fjármuna á samgönguáætlun, líkt og markmið hennar kveða á um, en það endurspeglast hins vegar ekki í fyrirliggjandi drögum/tillögum að samgönguáætlun. Í raun er ótækt að þessi eini stofnvegur á láglendi á Íslandi, sem enn er malavegur, sé ítrekað látinn sæta afgangi við forgangsröðun fjármuna. Þess er í raun krafist að forgangsröðun fjármuna verði í samræmi við markmið samgönguáætlunar. Það er hreinlega skömm að því að á Íslandi sé til staðar stofnvegur á láglendi sem enn sé malavegur.

Það er því óhjákvæmilegt að gera kröfu um að fyrirliggjandi samgönguáætlun verði breytt með tilliti til mikilvægis vegarins sem hluta af grunnneti samgöngukerfisins og framkvæmdum verði flýtt inn á fyrsta tímabil áætlunarinnar. Nefndin skorar einnig á Vegagerðina að setja upp teljara á svæðinu svo hægt sé að auka þjónustu í samræmi við umferðarþunga. Einnig er lögð áhersla á endurbætur á Snæfellsnesvegi frá Borgarnesi inn á Snæfellsnes, sér í lagi að endurbætur á Snæfellsnesvegi 54 frá Brúarhrauni að Dalsmynni verði færðar framan í samgönguáætlun.

Einnig leggur atvinnu- og nýsköpunarnefnd þunga áherslu á að Stykkishólmsvegur 58 er ónýtur og óviðunandi, sér í lagi frá Stykkishólmi og að Vogsbotni, og er þess krafist að enduruppbygging vegarins verði sett í algjöran forgang.

Að öðru leyti er vísað í fyrri ályktanir sveitarfélagsins og umsagnir varðandi Snæfellsnesveg 54.

13.Stykkishólmur í sókn - Efling atvinnulífs í Stykkishólmi

Málsnúmer 2107012Vakta málsnúmer

Lagt fram skilabréf starfshóps um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi ásamt lokaskýrslu þar sem tíundaðar eru tillögur hópsins atvinnulífi í Stykkishólmi til framdráttar. Bæjarstjóri gerir grein fyrir stöðu máls.
Starfshópur um eflingu atvinnulífs í Stykkishólmi skilaði af sér skýrslu árið 2022. Þar er m.a. lögð áhersla á að á frekari nýtingu svæðisbundinna náttúruauðlinda á sjálfbæran hátt og það verði gert með því að efla rannsóknir á lífríki sjávar. Til þess verði stofnað Þekkingar- og rannsóknarsetur við Breiðafjörð sem hafi það að meginmarkmiði að stuðla að auknu klasasamstarfi einstaklinga, atvinnulífs, stofnana og opinberra aðila þannig að stuðla megi að jákvæðri samfélags- og byggðaþróun á svæðinu, byggða á svæðisbundnum styrkleikum. Í sama streng tekur stýrihópur um framtíð verndarsvæðis Breiðafjarðar í skýrslu frá júní 2024.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar stuðningi Háskóla-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra við verkefnið og leggur áherslu á mikilvægi þess að það verði stofnað á vormánuðum 2025 í samræmi við stuðning ráðuneytisins þar um.

14.Samantekt og niðurstöður Breiðafjarðarnefndar um framtíð Breiðafjarðar

Málsnúmer 2011049Vakta málsnúmer

Lögð fram skýrsla um greiningu á verndargildi vernarsvæðis Breiðafjarða og áhrif þess, tækifæri og ógnanir, á samfélag, byggð og atvinnulíf, ásamt tengdum gögnum.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar niðurstöðunni og bindur vonir við að með þessari niðurstöðu hafi skapast mikilvæg sátt um framtíð Breiðafjarðar. Lykilþáttur í allri umræðu og sátt um framtíð Breiðarfjarðar er að rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar verði stórauknar frá því sem nú er þannig að tryggja megi áfram sjálfbæra auðlindanýtingu fjarðarins. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd beinir því til matvælaráðherra, þingmanna Norðvesturkjördæmis og Hafrannsóknarstofnunar að stórauka rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar.

15.Ríkisstörf í Stykkishólmi

Málsnúmer 2411031Vakta málsnúmer

Störf á vegum ríkisins í Stykkishólmi tekin til umræðu í atvinnu- og nýsköpunarnefnd.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd krefst þess að ríkið standi vörð um opinber störf í Stykkishólmi en þeim hefur fækkað á síðustu 10 árum þrátt fyrir að ríkisstörfum hafi fjölgað á Vesturlandi sem og á landsvísu. Ljóst sé að ríkið hefur ekki staðið sig sem skyldi í að fjölga ríkisstörfum á landsbyggðinni, a.m.k. ekki í Stykkishólmi. Vísar nefndir að öðru leyti til fyrri ályktana og umsagna sveitarfélagsins vegna þessa.

16.Gjaldskrár 2025

Málsnúmer 2409029Vakta málsnúmer

Lagðar fram gjaldskrár sveitarfélagsins fyrir árið 2025, sem taka mið af forsendum fjárhagsáætlunar 2025-2028 sem samþykktar voru á 28. fundi bæjarstjórnar.



Á 29. fundi sínum samþykkti bæjarstjórn gjaldskrár fyrir Sveitarfélagið Stykkishólm fyrir 2025 og vísaði þeim til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi gjaldskrár sem snúa að málefnasviði nefndarinnar.

17.Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms 2025-2028

Málsnúmer 2410006Vakta málsnúmer

Lögð fram fjárhagsáætlun fyrir árin 2025-2028.



Á 29. fundi sínum samþykkti bæjarstjórn Fjárhagsáætlun Sveitarfélagsins Stykkishólms 2025-2028 og vísaði henni til frekari umfjöllunar í bæjarráði, umsagnar í fastanefndum og til síðari umræðu í bæjarstjórn, ásamt fyrirliggjandi tillögum í aðgerðaráætlun um aukið aðhald í rekstri sveitarfélagsins.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd gerir ekki athugasemd við fyrirliggjandi fjárhagsáætlun sem snýr að málefnasviði nefndarinnar.

Fundi slitið - kl. 22:14.

Getum við bætt efni síðunnar?