Fara í efni

Gönguleiðir

Hægt er að finna gönguleiðir við allra hæfi í og við Stykkishólm, hvort sem þú vilt ganga á fjöll eða á láglendi. Það þarf ekki að fara langt til að komast í fallega náttúru og auðvelt er að finna skemmtilegar leiðir.

Gamli bærinn - "Plássið"

egilshúsGömlu húsin í miðbænum eru eitt af sérkennum Stykkishólms, þau gera bæjarstæðið einstaklega fallegt og gaman er að ganga um og kynna sér sögu þeirra.

  • Byrjað er hjá Gömlu kirkjunni. Um miðja 19. öldina hófst umræða um þörf fyrir kirkju í Stykkishólmi. Árið 1875 hófst svo fjársöfnun fyrir byggingu kirkjunnar sem konur bæjarins voru í forsvari fyrir. Helgi Helgason húsasmíðameistari teiknaði kirkjuna en Jóhannes Jónsson snikkari reisti bygginguna haustið 1878 og var kirkjan vígð árið 1880. Í kirkjunni er mjög falleg altaristafla máluð af Arngrími Gíslasyni. Kirkjan er enn notuð við ýmis tækifæri, hún er ekki opin en hægt er að hafa samband við starfsmenn Norska hússins til að skoða hana.
  • Við hliðina á kirkjunni er Narfeyrarhús. Húsið var byggt árið 1906 af Guðmundi Jónssyni. Amtshúsið stóð þar fyrir en það var flutt til Reykjavíkur. Húsið var áður íbúðarhús en nú er þar starfrækt veitingahúsið Narfeyrarstofa.
  • Gegnt Narfeyrarhúsi stendur Egilshús einnig nefnt Egilsenshús. Húsið var byggt 1867 sem verslunar- og íbúðarhús fyrir Egil Egilsen sem var tengdasonur Árna Thorlaciusar og mágur séra Eiríks Kúlds. Brotaþak hússins er það fyrsta sinnar tegundar á Íslandi. Egilshús hefur frá upphafi verið notað jöfnum höndum sem íbúðarhús og verslunarhús. Í dag er þar rekið Hótel Egilsen.
  • Gengið er yfir götuna að Tang & Riis. Niels Cristian Gram kaupmaður byggði húsið sem vörugeymsluhús fyrir Gramsverslun árið 1890. Verslunarfélagið Tang & Riis var svo rekið í húsinu en í dag eru þar höfuðstöðvar Agustson ehf.
  • Frá Tang & Riis er haldið upp Hafnargötuna að Apótekinu. Húsið var upphaflega byggt sem sölubúð fyrir Clausenverslun árið 1876. Árið 1912 keypti Aage Hjálmar Andersen, lyfsali, húsið og hóf þar rekstur lyfjabúðar. Þar var rekstur apóteks til ársins 2007.
  • Þar við hliðina er hús það sem nú hýsir Ráðhúsið í Stykkishólmi og var upphaflega byggt árið 1930 sem verslunar- og skrifstofuhúsnæði fyrir Kaupfélag Stykkishólms. Húsið stóð autt í áratug eftir að kaupfélagið hætti störfum, eða þar til Stykkishólmsbær festi kaup á því.
  • Frá Ráðhúsi er haldið áfram upp Hafnargötuna og gengið að Kúldshúsi sem var upphaflega byggt á fimmta áratug 19. aldar í Flatey á Breiðafirði fyrir séra Eirík Kúld. Síðan var húsið flutt til Þingvalla í Helgafellssveit og þar næst til Stykkishólms árið 1868. Þar á Mylluhöfðanum reis Kúldshús eins og það er í dag, en viður úr gamla húsinu var nýttur í nýsmíðina. Séra Eiríkur var giftur Þuríði, dóttur Sveinbjarnar Egilssonar rektors á Bessastöðum, bræður hennar voru Benedikt Gröndal skáld og Egill Egilsen. Gestagangur var ávallt mikill hjá þeim hjónum og veislugleði þeirra rómuð, þá einkum frúarinnar. Húsið hefur verið íbúðarhús alla tíð eftir að séra Eiríkur lést.
  • Þaðan er haldið til baka að Ráðhúsinu þar sem Clausenshús og Norska húsið standa einnig. Clausenshús var byggt árið 1874 sem verslunarstjórabústaður fyrir Clausenverslun. Var það nefnt Clausenshús eftir að Holger Clausen settist þar að 1878. Síðar settist Sigurður Ágústsson að í Clausenshúsi og er húsið enn í eigu fjölskyldu hans og notað sem íbúðarhús.
  • Norska húsið var byggt árið 1832 fyrir Árna Thorlacius. Húsið sem er tvílyft bjálkahús, var flutt tilsniðið frá Noregi og var það fyrsta tvílyfta íbúðarhús hér á Íslandi. Árni var menntamaður og fékkst við ýmislegt svo sem kaupskap, siglingar og stórbúskap. Þá var hann í opinberri þjónustu, hreppstjóri, umboðsmaður konungsjarða og margsinnis settur sýslumaður. Þá hóf hann ennfremur fyrstur manna á Íslandi skipulagðar og samfelldar veðurathuganir árið 1845. Húsið er nú hluti af Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla.
  • Hringnum er lokað við Frúarhús sem var byggt á árunum 1870-1873 fyrir Jósefínu Thorarensen, dóttur Árna Thorlaciusar og Magdalenu, sem þá hafði flutt frá Staðarfelli ásamt börnum aftur í föðurhús eftir að eiginmaður hennar Bogi Thorarensen sýslumaður lést 1867. Húsið var lengstum íbúðarhús en hefur þó hýst ýmsa starfsemi.

Hér má lesa um sögu gamla miðbæjarins

Gömlu húsin - kort

Nærumhverfi Stykkishólms

  • Berserkjagatan í Berserkjahrauni er auðfarin og eins er skemmtileg sagan henni tengd sem bæði börn og fullorðnir hafa gaman af.
  • Skonsudalurinn við Vatnaleiðina er líka mjög vinsæll til göngu og landslagið þar er einstakt.
  • Góð ganga er upp að Kerlingunni í Kerlingarskarði og ýmsar sögur sem henni fylgja, gangan er á flestra færi en þó getur verið laust undir fæti og því nauðsynlegt að fara varlega.
  • Annað fjall sem vinsælt er til uppgöngu er Drápuhlíðarfjall og er útsýnið stórkostlegt af toppnum. Kjörið er að fara með börn í Vatnsdalinn við rætur fjallsins og jafnvel ganga áleiðis upp í skálina.
  • Sauraskógur er einnig skemmtilegt útivistarsvæði þar sem búið er að gera göngustíga og staði til áningar.

 

Getum við bætt efni síðunnar?