Sagan
Verslunarstaðurinn Stykkishólmur
Stykkishólms er fyrst getið í ritum árið 1274 í máldaga Jónskirkju að Helgafelli. Bæjarins er oft getið vegna góðrar hafnaraðstöðu þar sem Súgandisey skapar skjól við Stykkið sem bærinn ber nafn sitt af. Árið 1596 deildu Jóhann greifi af Aldinborg og Carsten Bache Brimarkaupmaður um verslunarréttindi í Nesvogi. Af því tilefni fær sá síðarnefndi Friðrik II Danakonung til þess að selja sér leyfi fyrir höfn er hann nefndi Stykkishólm. Þar með hófst verslunarstarfsemi í Stykkishólmi í umboði konungs á tíma einokunar. Síðan verður mikil breyting árið 1768 þegar Magnús sýslumaður Ketilsson lét hella niður möðkuðu mjöli sem konungsverslun seldi í Stykkishólmi. Sá atburður markaði endalok verslunareinokunar á Íslandi. Konungsverslunin var aflögð og seld 1786.
Í byrjun 19. aldar hófst þéttbýlismyndun í Stykkishólmi þegar fyrstu íslensku kaupmennirnir settust þar að eftir að innanríkisverslun í Danaveldi var gefin frjáls. Í Stykkishólmi og nágrenni hafði þó verið verslað frá örófi alda, fyrst í svokölluðum Nesvogi, sem nú þekkist sem Búðanes. Skömmu fyrir 1600 fluttist Stykkishólmsverslunarstaður á kambinn milli „Bókhlöðuhöfða“ og „Sýslumannshóls“, þar sem þyrping reisulegra, gamalla íbúða- og verslunarhúsa stendur. Ekki er vitað með vissu hvenær fyrsta verslunarhúsið reis í Hólminum, þó var það talið eigi síðar en um 1630. Fyrsta íbúðarhúsið í Stykkishólmi mun hafa verið svonefnd Stekkjartangahjáleiga, torfhús sem stóð á lóðinni sem nú er Austurgata 9 en það kemur fyrst fyrir í jarðatalinu 1703. Húsum fjölgaði hægt í Stykkishólmi á 18. öldinni og stóðu þar aðeins fjögur timburhús þegar konungsverslunin var aflögð. Árið 1807 hófu tveir íslenskir kaupmenn verslunarrekstur í Stykkishólmi, hvor í sínu lagi. Ólafur Thorlacius keypti Stykkishólmsverslun og jörðina Grunnasundsnes og Jón Kolbeinsen sem áður hafði verið verslunarstjóri í Hólminum reisti sér hús og hóf verslun fyrir eigin reikning. Á þessum tíma var kominn vísir að þeirri þjónustu og landshlutamiðstöð sem síðar varð. Árni Thorlacius, sonur Ólafs, tók við staðarforráðum 1827. Hann rak stórbú í Grunnasundsnesi auk verslunar og útgerðar. Hann lét reisa yfir sig fyrsta tvílyfta íbúðarhúsið á Íslandi, Norska húsið árið 1832 sem stendur enn og er bæjarprýði. Árni hafði hlotið góða menntun erlendis og stundaði alla tíð fræðistörf. Hann hóf reglubundnar veðurathuganir árið 1845 og eru það elstu samfelldu veðurathuganir á Íslandi. Einnig ritaði Árni kennslubækur í skipstjórnarfræðum fyrir Bréflegafélagið. Árni Thorlacius var einn helsti styrktaraðili Sigurðar Breiðfjörð og kostaði útgáfu á ljóðabókum hans. Árni seldi Hans Clausen kaupmanni verslun sína og skip árið 1842.
Að tillögu Bjarna Thorsteinssonar amtmanns og síðar fyrsta forseta hins endurreista Alþingis tók danska stjórnin þá ákvörðun 1850 að staðsetja alla embættismenn í syðri hluta Vesturamtsins í Stykkishólmi. Fljótlega mátti því finna í Hólminum amtmann, sýslumann, prest, lækni og apótekara auk þeirra kaupmanna sem fyrir voru. Þá var Amtsbókasafnið stofnað 1847 í þeim tilgangi að efla menntun og bókmenningu. Bjarni hefur verið nefndur faðir Stykkishólms enda hafði hann mikil áhrif á að Stykkishólmur varð stjórnsýslumiðstöð Vesturamtsins. Þetta samfélag danskmenntaðra manna og fjölskyldna þeirra mótaði bæjarbraginn. Frá teboðum þessa tíma er líklega sprottin sú lífseiga saga um að Hólmarar tali dönsku á sunnudögum. Bæði embættismenn og kaupmenn tóku til við að reisa yfir sig veglegan húsakost sem að mestu leyti var allur í einum hnapp á gömlu verslunarlóðinni frammi á sjávarkambinum, þar sem landeigandinn í Grunnasundsnesi var framan af fastheldinn á tún sín og beitilönd. Mun það einnig vera skýringin á því hvernig byggðin þróaðist upp höfðana lengi framan af. Stykkishólmur varð sérstök sókn 1878. Kirkja var reist 1878, barnaskóli 1896 og samkomuhús 1901. Gamli bærinn í Stykkishólmi eins og hann kemur fyrir sjónir í dag er talsvert mótaður af þeirri atvinnuuppbyggingu er hófst um 1930 en þá reisti Kaupfélag Stykkishólms hús það sem nú er Ráðhús Stykkishólms, auk frystihúss sunnan Austurgötu. Norðan Austurgötunnar að Plássinu reis frystihús Sigurðar Ágústssonar og þar var einnig verslun hans í Taang og Ris húsinu er hann hóf að reka 1933. Upp af Austurgötunni á Stekkjartanganum trónir svo kirkja kaþólskra, klaustrið og spítali St. Franciskussystra.