Félagsstarf & hreyfing 60+
Höfðaborg - Miðstöð þjónustu fyrir eldra fólk
Skólastíg 14
340 Stykkishólmur
Sími: 433-8165
Sveitarfélagið Stykkishólmur hefur ríkan metnað fyrir því að gera vel í þjónustu við eldra fólk. Heilsuefling 60+ í Stykkishólmi er öflugt og vel sótt verkefni sem eftir er tekið um land allt. Félagsstarf eldra fólks í Hólminum er einnig mjög öflugt en Aftanskin félag eldri borgara í Stykkishólm bíður félagsmönnum sínum bæði uppá stóra viðburði, ferðalög og annað sem og fasta samverutíma í hverri viku. Hér að neðan má finna upplýsingar um Aftanskin, heilsueflinguna og fjölda gönguleiða í landi sveitarfélagsins.
Aftanskin
Aftanskin er félag fólks í Stykkishólmi og nágrenni sem er 60 ára og eldra. Markmið félagsins er að efla réttindi eldri borgara sem gert er m.a. með aðild að Landsamtökum eldri borgara, fræðslu og með því að gera lífið skemmtilegra.
Það hefur verið gert til dæmis með kaffispjalli á mánudögum yfir vetrartímann, þar sem slegið er á létta strengi í bland við margskonar fræðslu og spjall, félagsvist á sunnudögum, lestur og boccia einu sinni í viku og keppnisferðum í kringum það. Svokölluð kirkjusúpa hefur verið í safnaðarheimilinu einu sinni í mánuði í samstarfi við Stykkishólmskirkju. Farið hefur verið í skemmtileg ferðalög á liðnum árum t.d. í leikhúsferðir. Nesballið er sameiginleg skemmtun eldri borgara á norðanverðu Snæfellsnesi sem er haldin á haustin. Ýmislegt fleira hefur verið í boði í samvinnu við sveitarfélagið, svo sem smíðar, myndlist, saumaklúbbur, karlakaffi og fleira. Aftanskin var, frá árinu 2009 til 2024, með aðstöðu í Setrinu að Skólastíg 11 en hefur nú flutt starf sitt í myndarlegan sal á jarðhæð á Höfðaborg, Skólastíg 14.
Félagar í Aftanskin verða sjálfkrafa félagar í LEB (Landsamband eldri borgara) og tryggja sér þar afslætti. Einnig eru ýmsir afslættir fyrir félaga Aftanskins og eldri borgara í boði hjá þjónustuaðilum í Stykkishólmi.
Til að efla félagsskapinn eru sem flestir hvattir til að taka þátt í starfinu og ganga í félagið. Félagið er með fésbókarsíðu fyrir þá sem vilja fylgjast þar með starfinu og þar er hægt að senda beiðnir um inngöngu, annað hvort á síðuna eða í skilaboðum. Einnig eru félögum sendar tilkynningar í tölvupósti. Fyrir frekari upplýsingar og skráningu í félagið er bent á að hafa samband við stjórn félagsins.
Stjórn:
Halldóra F. Sverrisdóttir, formaður: dorafr54@hotmail.com
Valgeir Hauksson
Bergur Hjaltalín
Varastjórn:
Hrafnhildur Jónsdóttir
Hanna Jónsdóttir
Sigrún Ársælsdóttir
Heilsuefling 60+
Markmið með Heilsueflingu 60+ í Stykkishólmi er að bjóða einstaklingum 60 ára og eldri, með lögheimili í Stykkishólmi, upp á reglulega hreyfingu en rannsóknir hafa sýnt að hreyfing hefur jákvæð áhrif á einstaklinginn andlega, líkamlega og félagslega. Með hreyfingu er dregið úr líkum á heilsufarslegum kvillum, sjálfstæði eykst sem verður til þess að einstaklingurinn er betur í stakk búinn að takast á við mismunandi kröfur daglegra athafna.
Íbúar Sveitarfélagsins Stykkishólms, 60 ára og eldri, eru hvattir til þess að kynna sér verkefnið og taka skrefið að auknum lífsgæðum á þriðja æviskeiðinu. Til boða stendur að mæta fyrstu vikuna (fjórir tímar) til kynningar án þess að greiða þurfi þátttökugjald.
Þjálfarar Heilsueflingar 60+ eru Gunnhildur Gunnarsdóttir og Sigríður Bjarney Guðnadóttir, íþróttafræðingar og kennarar. Hér að neðan má sjá dagskrá Heilsueflingar en tímarnir fara fram í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi.
Mánudagur |
Þriðjudagur |
Fimmtudagur |
Föstudagur |
08:50 – 09: 40 Tækjasalur |
12:30 – 13:30 Hópatími í sal |
12:30 – 13:30 Hópatími í sal |
08:50 – 09:40 Tækjasalur |
Gunnhildur Gunnarsdóttir veitir nánari upplýsingar um Heilsueflingu 60+ og sér jafnframt um skráningu - gunnhgunnars@gmail.com
Gönguleiðir
Hægt er að finna gönguleiðir við allra hæfi í og við Stykkishólm, hvort sem þú vilt ganga á fjöll eða á láglendi. Það þarf ekki að fara langt til að komast í fallega náttúru og auðvelt er að finna skemmtilegar leiðir. Smelltu á hnappinn hér að neðna til að sjá skemmtilegar gönguleiðir í Stykkishólmi.