Fréttir
Uppbygging fullvinnslu sjávarþörunga á hafnarsvæði Skipavíkur
Í febrúar á þessu ári sendi fyrirtækið Asco Harvester ehf. bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar lóðarumsókn vegna lóðarinnar við Nesveg 22a ásamt ítarlegri greinargerð um áform fyrirtækisins og ósk um samstarf um græna atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi byggða á sjálfbærri öflun og vinnslu sjávarþörunga úr Breiðafirði og fullvinnslu afurða. Með erindinu fylgdu teikningar af fyrirhuguðu húsnæði á lóðinni. Fyrirtækið áætlar að þegar starfsemin verði komin á fullt skapist 20 störf við öflun- og fullvinnslu sjávarþörunga. Var umsókn Asco Harvester ehf. samþykkt samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn í febrúar og hefur verið unnið að málinu í samræmi við þá stefnumörkun. Vegna umræðu um formlega úthlutun lóðarinnar staðfesti bæjarstjórn á fundi sínum í september, til að taka af allan vafa, að úthlutun lóðar hafi farið fram í febrúar 2022 og bæjarstjóra hafi verið falið að semja við félagið um sérstæka málsmeðferð, skilyrði eða annað í tengslum við lóðarúthlutunina og þar sem slíkt samkomulag liggur ekki fyrir gilda um lóðarúthlutunina almennar reglur sveitarfélagsins um lóðarúthlutanir. Sökum þess að ekki lá fyrir deiliskipulag fyrir hafnarsvæðið, líkt og önnur atvinnu- og hafnarsvæði í Stykkishólmi að Reitarvegi undanskyldum, var frá fyrstu stigum málsins horft til þess að ganga lengra en venjubundið er í kynningarferli þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir og kynna íbúum málið sérstaklega.
17.10.2022