Fara í efni

Uppbygging fullvinnslu sjávarþörunga á hafnarsvæði Skipavíkur

17.10.2022
Fréttir

Ferli og staða málsins

Í febrúar á þessu ári sendi fyrirtækið Asco Harvester ehf. bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar lóðarumsókn vegna lóðarinnar við Nesveg 22a ásamt ítarlegri greinargerð um áform fyrirtækisins og ósk um samstarf um græna atvinnuuppbyggingu í Stykkishólmi byggða á sjálfbærri öflun og vinnslu sjávarþörunga úr Breiðafirði og fullvinnslu afurða. Með erindinu fylgdu teikningar af fyrirhuguðu húsnæði á lóðinni.

Fyrirtækið áætlar að þegar starfsemin verði komin á fullt skapist 20 störf við öflun- og fullvinnslu sjávarþörunga. Var umsókn Asco Harvester ehf. samþykkt samhljóða í bæjarráði og bæjarstjórn í febrúar og hefur verið unnið að málinu í samræmi við þá stefnumörkun. Vegna umræðu um formlega úthlutun lóðarinnar staðfesti bæjarstjórn á fundi sínum í september, til að taka af allan vafa, að úthlutun lóðar hafi farið fram í febrúar 2022 og bæjarstjóra hafi verið falið að semja við félagið um sérstæka málsmeðferð, skilyrði eða annað í tengslum við lóðarúthlutunina og þar sem slíkt samkomulag liggur ekki fyrir gilda um lóðarúthlutunina almennar reglur sveitarfélagsins um lóðarúthlutanir.

Sökum þess að ekki lá fyrir deiliskipulag fyrir hafnarsvæðið, líkt og önnur atvinnu- og hafnarsvæði í Stykkishólmi að Reitarvegi undanskyldum, var frá fyrstu stigum málsins horft til þess að ganga lengra en venjubundið er í kynningarferli þar sem deiliskipulag liggur ekki fyrir og kynna íbúum málið sérstaklega.


Íbúafundur Asco harvester ehf. í apríl

Í samræmi við afgreiðslu málsins af hálfu sveitarfélagsins kynntu forsvarsmenn Asco Harvester ehf. áform fyrirtækisins á opnum kynningarfundi 28. apríl sl. Var auglýsingu um fundinn dreift í öll hús í Stykkishólmi ásamt því að hengdar voru upp auglýsingar um fundinn á fjölmennari stöðum í Stykkishólmi. Á fundinn mættu á annað hundrað manns og sköpuðust jákvæðar umræður um verkefnið á fundinum.

Hér má nálgast kynningu fyrirtækisins frá apríl 2022.

Sjá jafnframt umfjöllun Fréttablaðsins, 4. maí 2022, í kjölfar fundarins („Óplægður akur skapar störf í Stykkishólmi).


Málsmeðferð, skipulagsferlið og íbúafundur í ágúst

Svæðið þar sem fyrirhuguð bygging á að rísa er í aðalskipulagi skilgreint sem hafnarsvæði þar sem gert er ráð fyrir hafnsækinni starfsemi. Þar sem ekki er til deiliskipulag fyrir svæðið vísaði byggingarfulltrúi umsókn um byggingarleyfi til meðferðar hjá skipulagsnefnd í júní skv. 1. mgr. 44 gr. skipulagslaga, en 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga orðast með eftirfarandi hætti:

Þegar sótt er um byggingar- eða framkvæmdaleyfi fyrir framkvæmd sem er í samræmi við aðalskipulag en deiliskipulag liggur ekki fyrir getur sveitarstjórn eða sá aðili sem heimild hefur til fullnaðarafgreiðslu mála, sbr. 6. gr., ákveðið að veita megi leyfi án deiliskipulagsgerðar ef framkvæmdin er í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Skal skipulagsnefnd þá láta fara fram grenndarkynningu. Þegar um er að ræða óverulega breytingu á deiliskipulagi skal skipulagsnefnd láta fara fram grenndarkynningu, sbr. 2. og 3. mgr. 43. gr.

Á fyrsta fundi nýrrar skipulagsnefndar í júní var samþykkt að grenndarkynna hönnunargögn og annað sem fyrirhuguð byggingarleyfisumsókn byggir á fyrir lóðarhöfum við Nesveg 20 (Skipavík) og Nesveg 24 (Ískalk) enda voru fyrirhuguð áform í samræmi við landnotkun, byggðamynstur og þéttleika byggðar. Var það mat nefndarinnar að fyrirhuguð framkvæmd væri innan ramma aðalskipulags og því ekki þörf á aðalskipulagsbreytingu. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í júní afgreiðslu skipulagsnefndar. Grenndarkynning stóð frá 24.júní til 22. júlí.

Málsmeðferð var í samræmi við 44. gr. skipulagslaga eins og venjubundið er þegar um er að ræða byggingu á svæði sem er ekki deiliskipulagt. Á atvinnusvæðum í Stykkishólmi liggja almennt ekki fyrir deiliskipulög. Þetta er því málsmeðferð sem hefur verið viðhöfð í Stykkishólmi um langt árabil. Við heildarmat á málsmeðferð var jafnframt horft til þess að ekki var um að ræða stofnun nýrrar lóðar heldur áform um byggingu á lóð fyrir hafsækna starfsemi á hafnarsvæði þar sem áður var starfrækt steypustöð með tilheyrandi mannvirkjum og starfsemi. Steypustöðin var rifinn árið 2014. Rétt neðan við lóðina voru tveir olíutankar sem fjarlægðir voru árið 1992 (sjá mynd).

Mynd af svæðinu frá 1992.

Á fundi skipulagsnefndar í júní var, til viðbótar við formlega grenndarkynningu, samþykkt að halda opinn kynningarfund fyrir íbúa vegna málsins. Sent var út dreifibréf til íbúa í næsta nágrenni. Var afgreiðslan staðfest á bæjarstjórnarfundi í júní.

Kynningarfundurinn var haldinn í Amtsbókasafni þann 10. ágúst sl. í samræmi við bókun skipulagsnefndar og afgreiðslu bæjarstjórnar. Fundurinn var ætlaður íbúum í nærumhverfi fyrirhugaðrar verksmiðju og var dreifibréf borið út í öll hús í Nestúni. Aðrir íbúar sem telja að umrædd byggingaráform geti haft áhrif á þeirra hagsmuni voru að sjálfsögðu velkomnir á fundinn. Samdægurs var vakin athygli á fundinum á vefsíðu sveitarfélagsins.

Hér má nálgast frétt um kynningarfundinn.

Fundurinn var vel sóttur og sköpuðust þar líflegar umræður. Ljóst var að íbúar í nágrenni höfðu töluverðar áhyggjur af hljóð-, og lyktarmengun. Viðbótarupplýsingar í tengslum við fundinn:

Kynning forsvarsmanna Asco Harvester ehf. frá fundinum.

Í viðtali Skessuhorns við bæjarstjóra, 17. ágúst sl., gerð var grein fyrir íbúafundinum og farið yfir málið í heild sinni („Vaxandi áhugi í Stykkishólmi á nýtingu þangs og þörunga úr Breiðafirði.“

Að lokinni grenndarkynningu og íbúafundi í ágúst sl. tók skipulagsnefnd fyrir athugasemdir sem bárust úr grenndarkynningu ásamt þeim athugasemdum og ábendingum sem íbúar sendu í kjölfar íbúafundar og þeim athugasemdum sem fram komu á íbúafundinum. Samþykkti nefndin tillögu skipulagsfulltrúa að svörum við athugasemdum, bæði við formlega grenndarkynningu og svör við ábendingum og/eða athugasemdum íbúa. Samþykkti skipulagsnefnd að lokum fyrir sitt leyti umsókn Asco Harvester ehf. og vísaði endanlegri afgreiðslu um útgáfu byggingarleyfis til byggingafulltrúa. Var afgreiðsla skipulagsnefndar staðfest á fundi bæjarráðs í ágúst og í bæjarstjórn í september.

Til viðbótar við framangreinda málsmeðferð þá óskaði sveitarfélagið jafnframt eftir umsögnum Heilbrigðiseftirlits Vesturlands, Umhverfisstofnunar, Breiðafjarðarnefndar, Minjastofnunar og Skipulagsstofnunar vegna byggingarleyfis, en þessar stofnanir sinna lögbundnum verkefnum á sviði skipulagsmála og/eða leyfisveitingum þeim tengdum. Liggja þær umsagnir fyrir.

Hér má nálgast umsagnir frá ofangreindum stofnunum og nefndum:

Hér má nálgast yfirlit yfir feril málsins og afgreiðslur fastanefnda og bæjarstjórnar:


Óháð úttekt VERKÍS verkfræðistofu á starfseminni – Ekki hætta á lykt og hljóðmengun

Samkvæmt upplýsingum frá lóðarhöfum fyrirhugaðrar þangvinnslu, verður sem næst engin hljóð- eða loft/lyktarmengun frá starfseminni þar sem að vinnslan verður í lokuðu ferli innanhúss þ.m.t. ofninn sem þurrkar þangið. Ferskt þang verður geymt utanhúss en ætlunin er að það verði aldrei lengur en einn sólarhring utanhúss og því engin lykt umfram það sem ætla má af starfsemi á hafnarsvæði.

Á fundi með íbúum í ágúst, vegna áforma um fyrirhugaða öflun og vinnslu sjávarþörunga, kom m.a. fram að íbúar í grennd við hafnarsvæðið höfðu áhyggjur vegna hugsanlegra grenndaráhrifa af starfseminni, t.d. sérstaklega hvað varðar lykt og hávaða. Var m.a. bent á að óháður aðili hefði ekki verið fengið að borðinu til þess að leggja mat á hugsanleg grenndaráhrif og fullyrðingar fyrirtækisins.

Við vinnslu málsins leitaði sveitarfélagið til VERKÍS verkfræðistofu og óskaði eftir óháðri úttekt á fyrirhuguðu verkefni Asco Harvester ehf. á lóðinni Nesvegur 22A þar sem áhersla yrði lögð á að skoða hvort hávaði eða lykt geti borist frá starfseminni að íbúðarbyggð. Úttektinni var ætlað að gera grein fyrir hugsanlegum áhrifum starfseminnar á nærumhverfið og leggja óháð mat á möguleg grenndaráhrif af starfseminni fyrir nágranna hennar. Minnisblað VERKÍS liggur nú fyrir og er hægt að lesa það í heild sinni hér fyrir neðan:

Niðurstöður úttektar Verkís:

  • Í niðurstöðu Verkís kemur fram að auðvelt sé að uppfylla kröfur um hljóðstig frá starfseminni og ýtrustu kröfu um hljóðstig fyrir utan húsvegg á íbúðarhúsnæði í 140 m. fjarlægð. Til viðbótar bendir Verkís á að ríkjandi vindátt er úr suð-austri yfir íbúðabyggð og að Búðanesi eða 96,3% tíma ársins. Varðandi hljóðburð er hagstætt að vindur blási frá bænum enda berst hljóð síður á móti ríkjandi vindátt.
  • Varðandi lykt telur Verkís litlar líkur á því að lykt valdi óþægindum í íbúðarsvæðum. Annars vegar eru fyrirhugaðar ráðstafanir í útblæstri sem snúa að þéttingu raka sem gæti borið með sér lykt frá þurrkaranum. Hins vegar blæs vindur að jafnaði frá bænum að þörungavinnslunni eins og rakið er að framan.

Hér fyrir neðan má lesa úttekt og mat Verkís í heild sinni.

Úttekt Verkís á grenndaráhrifum vegna þörungavinnslu
Asco Harvester ehf. á hafnarsvæðinu við Skipavík:

Samkvæmt framangreindu er það mat Verkís er því að litlar líkur séu á að lykt og hljóð valdi óþægindum á íbúðarsvæðum í grennd við vinnsluna.


Könnun á jarðvegi í september

Í september gaf byggingarfulltrúi Asco harvester ehf. leyfi til að kanna jarðveg á framkvæmdasvæðinu án þess að byggingarleyfi hafi verið gefið út á grundvelli mannvirkjalaga nr. 160/2010 og byggingareglugerðar nr. 112/2012. Að beiðni sveitarfélagsins stöðvaði fyrirtækið könnun sína á jarðveg nokkrum dögum síðar. Engar framkvæmdir hafa átt sér stað frá þeim tíma.

Mynd af svæðinu frá september 2022.


Byggingarleyfi veitt 14. október 2022

Á afgreiðslufundi byggingarfulltrúa 5. september 2022 samþykkti byggingarfulltrúi byggingaráform og kvaðst gefa út byggingarleyfi að uppfylltum skilyrðum 2.4.4 grein í byggingarreglugerð. Að fengnu mati Verkís, sem telur litlar líkur á að lykt og hljóð valdi óþægindum á íbúðarsvæðum, var byggingarleyfi gefið út sl. föstudag þann 14. október 20022.

Í ljósi þess að byggingarleyfi hefur verið gefið út er ekkert því til fyrirstöðu að fyrirtækið hefji framkvæmdir á lóðinni. Eins og eflaust margir hafa tekið eftir er grafa nú þegar komin á lóðina þar sem fyrirtækið fékk áður heimild til að kanna jarðveg á lóðinni.


Kærur fyrir úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála

Fyrir liggja fjórar kærur til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála vegna málsins. Byggja þær að meginstefnu til á sambærilegum málsástæðum. Annars vegar að ekki liggi fyrir deiliskipulag fyrir svæðið og að ekki hafi farið fram formlega grenndarkynning fyrir íbúum við Nestún (einungis íbúafundur og stuttur frestur til að koma fram athugasemdum) og hins vegar er lýst áhyggjum yfir hugsanlegum grenndaráhrifum starfseminnar varðandi hljóð og lykt. Þá liggur fyrir viðbótarrökstuðningur þar sem bent er á að hafnarsvæðið nái ekki yfir alla lóðina og að lóðin sé að hluta til á opnu svæði. Málið er meðferðar hjá úrskurðarnefndinni og hefur nefndin verið upplýst um að sveitarfélagið hafi gefið út byggingarleyfi vegna málsins.

Kærendur hafa jafnframt krafist úrskurðar um stöðvun framkvæmda til bráðabirgða. Í 1. mgr. 5. gr. laga nr. 130/2011 um úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála er tekið fram að kæra til úrskurðarnefndarinnar fresti ekki réttaráhrifum kærðrar ákvörðunar en jafnframt er kæranda þar heimilað að krefjast stöðvunar framkvæmda til bráðabirgða séu þær hafnar eða yfirvofandi. Hefur úrskurðarnefndin á grundvelli þessa ákvæðis sjálfstæða heimild til stöðvunar framkvæmda í tengslum við meðferð kærumáls. Er það undir úrskurðarnefndinni á endanum að meta hvort slík tilvik séu fyrir hendi. Má vænta þess að nefndin úrskurði um stöðvun framkvæmda á tiltölulega skömmum tíma. Í framhaldi af því eða samhliða má vænta efnisúrskurðar hjá nefndinni.


Skýrsla ráðgjafanefndar – Áform ekki sambærileg öðrum áformum um þangvinnslu

Hugmyndir og áform um þangvinnslu í Stykkishólmi hafa verið til umræðu og meðferðar í Stykkishólmi um nokkurra ára skeið. Tvö fyrirtæki fór þess á leit við bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar árið 2018 að bærinn hefji formlegar viðræður um skipulagningu atvinnusvæðis fyrir þörungavinnslu í Stykkishólmi, annars vegar hið kanadíska Acadian Seaplants Ltd. og hins vegar Íslenska kalkþörungafélagið ehf., sem er í írskri eigu. Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar 13. desember 2018 var skipuð ráðgjafarnefnd vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi. Var niðurstaða hennar að mæla með að Stykkishólmsbær ræði fyrst við Acadian Seaplants Ltd. og að heppileg staðsetning þeirrar vinnslu yrði suðvestan flugvallar (Kallhamar). Þessi kostur er sá sem forsvarsmönnum Acadian Seaplant hugnast best og er háður því að fyrirtækið kosti gerð bryggju og aðkeyrslu frá bryggju að verksmiðjuhúsi. Á bæjarstjórnarfundi 29. ágúst 2019 samþykkti bæjarstjórn að fela bæjarstjóra að hefja viðræður við Acardian Seaplants Ltd., en var sú niðurstaða í samræmi við skýrslu ráðgjafarnefndar vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi.

Fyrirliggjandi áform Asco harvester ehf. kemur ekki til með að hafa áhrif á önnur áform um uppbyggingu þangvinnslu í sveitarfélaginu sem fjallað var um í skýrslu ráðgjafanefndar. Sveitarfélagið á enn í viðræðum við Acadian Seaplants um staðsetningu umfangsmeiri þangvinnslu við Kallhamar. Ljóst er hins vegar að fyrirliggjandi áform Asco harvester ehf. eru ekki sambærileg þeim áformum sem fjallað var um í skýrslu ráðgjafanefndar m.t.t. umfangs og eðlis, enda mun minni starfsemi og að mörgu leyti fjölbreyttari, t.d. er stefnt að fullvinnslu strax. Afgreiðsla sveitarfélagsins í febrúar staðfesti það. Til samanburðar þá eru húsnæði Asco harvester ehf. 958,9m2 en áætlanir Acadian Seaplants eru um uppbyggingu í heild sinni um 15,500 m2, þ.m.t. er fyrsti áfangi þeirra vinnslu 4,500 fm2 (fullvinnsla þegar náð er 15,500 m2). Þar sem ekki liggja fyrir samningar við Acadian Seaplants og þannig fjármögnun á innviðum á því svæði er ljóst að ef starfsemi Asco harvester ehf. myndi vera staðsett á Kallhömrum myndi sá kostnaður (um 100-200 millj. kr. samkvæmt Vegagerðinni) falla á sveitarfélagið enda myndu gatnagerðargjöld af húsnæði Asco harvester ehf. ekki duga nema að litlum hluta til að fjármagna umrædda innviði.

Þar sem starfsemi Asco harvester ehf. er hafsækin starfsemi á hún vel heima á hafnarsvæði, enda er nálægð við löndunaraðstöðu mikilvæg fyrir þangvinnslu. Þá eru til staðar innviðir á svæðinu, þrátt fyrir að ljúka þurfi við gatnagerð að lóðinni, og um er að ræða atvinnulóð þar sem áður var rekin Steypustöð með tilheyrandi umfangi og jarðraski. Vegna hæðar byggingar Asco harvester ehf. við Nesveg 22a mun hún ekki hafa eins mikil sjónræn áhrif og ef hún yrði staðsett á öðrum atvinnusvæðum í Stykkishólmi, þ.m.t. annars staðar í Skipavík (sjá myndir hér fyrir neðan).

3D tölvuteikning þar sem sýnir húsnæði Asco havester ehf. við hlið Skipavíkur:


Minjum á svæðinu gert hátt undir höfði og gönguleið um Búðanes tryggð

Allar framkvæmdir á svæðinu taka full tillit til þeirra minja sem þar eru. Á Búðanesi eru friðlýstar minjar eins og þekkt er og stendur til að gera þeim hátt undir höfði á næstu misserum, ásamt þeim menningarminjum sem finna má á Hjallatanga. Að frumkvæði Stykkishólmsbæjar var verkefnið „Söguleið um Búðanes og Hjallatanga“ samþykkt á Landsáætlun um uppbyggingu innviða til verndar náttúru og menningarsögulegum minjum, í samræmi við viljayfirlýsingu Stykkishólmsbæjar og Minjastofnunar um verkefnið sem undirrituð var í desember 2019. Stendur til að útbúa söguleið um svæðið þar sem saga Stykkishólms hófst, enda er svæðið ríkt af menningarminjum auk þess sem þar er mikil náttúrufegurð eins og íbúar þekkja. Það hefur verið, og er ennþá, stefna sveitarfélagsins að bæta aðgengi íbúa og gesta að svæðinu. Til að undirstrika þessa áherslu var í afgreiðslu skipulagsnefndar í ágúst sl. vegna málsins, sem staðfest var í bæjarstjórn, lögð sérstök áhersla á að aðgengi að útivistarsvæði á Búðanesi yrði tryggt.

Hér má sjá lesa viljayfirlýsingu Stykkishólmsbæjar og Minjastofnunar.

Rétt er að taka fram að fyrirliggjandi hugmyndir að legu göngustíga, sem settar voru fram á skýringarmyndum í greinargerð með verkefninu og birst hafa í frétt á heimasíðu sveitarfélagsins, voru settar fram til upplýsinga og skýringa með umsókn um styrk til hönnunar göngustígakerfisins, m.a. til að þess að hægt væri að átta sig betur á umfangi verkefnisins. Hvorki stóð til né stendur til að hrófla við hafnarsvæði Skipavíkur eða breyta lóðinni að Nesvegi 22a. Ávallt stóð til að vinna að því að tryggja aðgengi að Búðarnesi framhjá eða meðfram Nesvegi 22a og þannig hafnarsvæðinu.


Umhverfisáhrif – Búðanes og hafnarsvæði Skipavíkur

Sveitarfélagið leitaði í ágúst til Skipulagsstofnunar um staðfestingu á að framkvæmdin sé ekki háð mati á umhverfisáhrifum. Í september barst staðfesting frá Skipulagsstofnun um að fyrirhuguð framkvæmd falli ekki undir lög um umhverfismat framkvæmda og áætlana.

Mynd af svæðinu af ja.is.

Ekki er talið að framkvæmdin muni hafa umtalsverð umhverfisáhrif vegna umfangs, eðlis eða staðsetningar. Myndir hér fyrir neðan sýna ágætlega það landrask og landfyllingu sem er á svæðinu. Þannig mun fyrirhuguð bygging rísa að mestu leyti á þegar röskuðu landi sem raskað hefur verið með landfyllingu og með fyrri starfsemi Steypustöðvar á lóðinni. Áhrif framkvæmdarinnar á óraskað land og landslag er því óverulegt. Vegna þess að svæðinu hefur verið raskað töluvert hefur framkvæmdin jafnframt óveruleg áhrif á jarðmyndanir. Bein áhrif framkvæmdarinnar á vistgerðir og flóru á þegar röskuðu landi eru einnig óveruleg ef einhver. Áhrif á lífríki að öðru leyti er óveruleg. Fyrirhugaðar framkvæmdir og starfsemi Asco Harvester ehf. á lóðinni nr. 22a við Nesveg hrófla því litið sem ekkert við óröskuðum svæðum og munu ekki hafa nema lítil neikvæð umhverfis- eða grenndaráhrif.

Á myndunum hér að neðan má sjá loftmynd til samanburðar af Búðanesi og Skipavíkursvæðinu frá árunum 1964, 1979 og 2022. Þá má hér fyrir neðan sjá mynd af tengingu við Búðarnes fyrir landfyllingu.

Tenging við Búðarnes fyrir landfyllingu.

Hafnarsvæði Skipavíkur árið 1964.

Hafnarsvæði Skipavíkur árið 1979.

Hafnarsvæði Skipavíkur árið 2022.

Áætlað er að 20 störf skapist við öflun- og fullvinnslu á sjávarþörungum.
Getum við bætt efni síðunnar?