Fara í efni

Dráttarskipið Grettir Sterki í Stykkishólmi

04.10.2022
Fréttir

Í gær var sagt frá því á vef Stykkishólmsbæjar að dráttarskipið Grettir Sterki væri á leið til Stykkishólms. Skipið er nú komið á leiðarenda og liggur við Stykkishólmshöfn.

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hefur ítrekað lagt þunga áherslu á að annað skip hefji siglingar yfir Breiðafjörð sem allra fyrst þar sem núverandi ferja standist ekki nútímakröfur. Að öðrum kosti hefur bæjarstjórn lagt til að dráttarbátur verði staðsettur í Stykkishólmshöfn til að tryggja betur öryggi sjófarenda á Breiðafirði.

„Við fögnum því að ákalli bæjarstjórnar um bættan viðbúnað hafi verið mætt til þess að tryggja betur öryggi sjófarenda. Þessi viðbúnaður er mikilvægur liður í því að byggja aftur upp nauðsynlegt traust á siglingum með núverandi ferju þangað til ný og betri ferja tekur við.“ - segir Jakob Björgvin, bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar.

Dráttarskipið Grettir Sterki verður til taks í Stykkishólmi ef á þarf að halda þar til ný ferja tekur við af þeirri gömlu. Í grein Sigurðar Inga Jóhannssonar, innviðarráðherra, sem birtist á vefnum Bæjarins bestu í september, segir Sigurður vonir standa til þess að Vegagerðin fái nýtt skip til landsins um áramótin í stað Breiðafjarðarferjunnar Baldurs.

Grettir Sterki við höfn í Stykkishólmi.
Getum við bætt efni síðunnar?