Fara í efni

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd

1. fundur 28. maí 2019 kl. 14:00 - 15:20 í fundarsal á 3. hæð
Nefndarmenn
  • Agnes Helga Sigurðardóttir formaður
  • Sara Hjörleifsdóttir aðalmaður
  • Halldór Árnason aðalmaður
  • Guðrún Svana Pétursdóttir varamaður
Starfsmenn
  • Jakob Björgvin Jakobsson bæjarstjóri
Fundargerð ritaði: Agnes Helga Sigurðardóttir formaður
Dagskrá

1.Skýrsla ráðgjafarnefndar um þörungavinnslu

Málsnúmer 1904019Vakta málsnúmer

Ráðgjafarnefnd vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi var skipuð af bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar 13. desember 2018 og var hlutverk hennar m.a. að:

- Að fara yfir og meta fyrirliggjandi gögn varðandi fyrirhugaða rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi og leggja mat á kosti og galla sem snúa að starfseminni.
- Að meta hvort auka má framtíðarverðmæti svæðisins og breytileika afurða með svæðaskiptingu þar sem leyfðar eru mismunandi aðferðir til sláttar; s.s. að rækta þörunga á línum, handtína, handslá, eða slá með vélarafli.
- Að útfæra og koma með tillögur að viðmiðum Stykkishólmsbæjar í áframhaldandi viðræðum.

Nú hefur nefndin lokið störfum sínum og liggur nú fyrir endanleg skýrsla hennar um málefnið auk skilabréfs.

Skýrslan er lögð fram til umsagnar í atvinnumálanefnd í samræmi við afgreiðslu bæjarráðs og bæjarstjórnar þar um.
Halldór Árnason, formaður ráðgjafanefndar og fulltrúi atvinnu- og nýsköpunarnefndar í nefndinni, gerði grein fyrir skýrslu og niðurstöðum ráðgjafanefndar.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar skýrslunni. Skýrslan er ítarleg og faglega unnin með skýrum og vel rökstuddum niðurstöðum. Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tekur undir tillögur og niðurstöður ráðgjafanefndar.

2.Þjónustunámskeið fyrir ferðaþjónustuaðila

Málsnúmer 1905040Vakta málsnúmer

Lagt fram erindi frá Margréti Polly Hansen Hauksdóttur f.h. Hótelráðgjafar sem bjóða upp á þjónustunámskeið sem stefnt er á að fara eigi fram á Fosshóteli Stykkishólmi 29. maí 2019, en markmið námskeiðsins er að kynna nýju starfsfólki fyrir íslenskri gestrisni sem og þeim alþjóðlegu stöðlum sem mikilvægt er að fara eftir. Námskeiðið er hannað til að aðstoða nýtt starfsfólk við að öðlast aukið sjálfstraust í starfi og fá skýrari sýn á hvernig hægt er að veita framúrskarandi þjónustu. Að auki er lögð áhersla á mikilvægi þess að þekkja fyrirtækið og nærumhverfi hótelsins.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd telur þetta vera gott framtak og vonar að það verði vel nýtt. Mikilvægt að fá slík námskeið á landsbyggðina.

Lagt fram til kynningar.

3.Fundur um samstarfsverkefni á sviði ferðaþjónustu í Stykkishólmi

Málsnúmer 1905004Vakta málsnúmer

Stykkishólmsbær og Efling Stykkishólms boðuðu til fundar um samstarfsverkefni á sviði ferðaþjónustu í Stykkishólmi í Amtsbókasafninu þriðjudaginn 23. apríl s.l. Markmið fundarins er að fá þá aðila sem sinna ferðaþjónustu í Stykkishólmi saman að samstarfsborði, varpa ljósi á það sem verið er að gera og horfa til framtíðar. Jafnframt að ræða um framtíðarhorfur og hvað við getum gert til að efla ferðaþjónustu í Stykkishólmi enn frekar. Frummælendur voru Ragnhildur Sigurðardóttir hjá Svæðisgarðinum Snæfellsnes sem fór yfir áhersluverkefni hjá Svæðisgarðinum, Heimir Berg Vilhjálmsson, markaðs- og upplýsingafulltrúi í Snæfellsbæ, sem kynnti hugmyndir um sameiginlega markaðssetningu á samfélagsmiðlum fyrir allt Snæfellsnes, Hjördís Pálsdóttir, formaður Eflingar og forstöðumaður safnanna í Stykkishólmi, sem fjallaði um helstu verkefni á dagskrá Eflingar, og Jakob Björgvin Jakobsson, bæjarstjóri, sem fór yfir aðkomu og stefnumótun Stykkishólmbæjar í ferðaþjónustu og fyrirliggjandi verkefni. Mikil gróska og kraftur er í ferðaþjónustuaðilum í Stykkishólmi og var fundurinn vel sóttur, málefnalegur og jákvæður.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd fagnar því að Stykkishólmsbær og Efling séu að vinna saman að verkefnum á sviði ferðaþjónustu í Stykkishólmi.

Nefndin fagnar því hversu öflugt starf Eflingar er að verða og hvetjur Eflingu til dáða.

Lagt fram til kynningar.

4.Skýrsla Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu

Málsnúmer 1905003Vakta málsnúmer

Verðmætaaukning ferðaþjónustunnar hefur verið drifin áfram af fjölgun ferðmanna. Nú þegar útlit er fyrir fækkun þeirra blasir við verðug áskorun við að auka verðmæti á hvern ferðamann til að viðhalda verðmætaaukningu greinarinnar. Lögð fram skýrsla Íslandsbanka um íslenska ferðaþjónustu árið 2019.
Lagt fram til kynningar.

5.Samkomulag við Íslenska Gámafélagið ehf.

Málsnúmer 1903031Vakta málsnúmer

Bæjarstjórn fól í lok mars bæjarstjóra að gera viðauka við samning um sorphirðu við Íslenska Gámafélagið í samræmi við fyrirliggjandi upplýsingar, en um er að ræða samkomulag við Íslenska Gámafélagið um uppsetningu á snjalla innheimtuúrræðinu, Snjall og Snjöll, á gámasvæðinu Snoppu. Einnig að Íslenska Gámafélagið taki að sér vörslu og rekstur á svæðinu við Ögursafleggjara. Mun þessi breyting fela í sér að endurskoða þarf gjaldskrá sorphirðu, en ekki er gert ráð fyrir að hækka þurfi gjaldskrá heldur að umbreyta þurfi mælieiningum í samræmi við innleiðinguna.

Lagt er fyrir atvinnu- og nýsköpunarnefnd minnisblað frá Íslensku Gámaþjónustunni ehf. sem að beiðni Stykkishólmbæjar leggja til breytingu á fyrirkomulagi við innheimtu og greiðslu fyrir þjónustu á gámasvæði Snoppu og umsjón og eftirlit með gömlu öskuhaugunum við Ögursafleggjara.

Sjá nánar um sorphirðu á heimasíðu Stykkishólmsbæjar:
https://www.stykkisholmur.is/thjonustan/sorphirda/
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd telur samkomulagið vera jákvætt þar sem breytingarnar leiði til meira samræmis og sanngirni er gætt þegar kemur að fyrirtækjum stórum sem smáum.

Lagt fram til kynningar.

6.Upplýsingamiðstöð í Eldfjallasafni

Málsnúmer 1905058Vakta málsnúmer

Hugmynd eru uppi um að í Eldfjallasafninu verði sett upp upplýsingaskilti og þar verði formleg upplýsingamiðstöð fyrir ferðamenn í sumar. Óskar bæjarstjóri eftir áliti atvinnu- og nýsköpunarnefndar í þessu sambandi.
Atvinnu- og nýsköpunarnefnd gerir ekki athugasemdir fyrir sitt leyti að komið verði á fót upplýsingamiðstöð í Elfjallasafni í sumar enda sé ekki um að ræða viðbótarkostnað fyrir Stykkishólmsbæ.

7.Gestakort Stykkishólmsbæjar

Málsnúmer 1905006Vakta málsnúmer

Bæjarstjóri hefur óskað eftir því að koma til fundar við atvinnumálanefnd til þess að ræða hugmyndir að Gestakorti Stykkishólmsbæjar.
Bæjarstjóri kemur á fund nefndirinnar og ræðir hugmyndir að Gestakorti Stykkishólmsbæjar. Um er að ræða hugmyndir að útvíkkun á safnakorti þannig að það nái einnig til annarrar þjónustu á vegum Stykkishólmsbæjar, t.d. sundlaugar og jafnvel tjaldsvæði í samvinnu við Mostra. Gestakort gæti jafnframt boðið upp á samstarf við Eflingu Stykkishólms eða atvinnurekendur í Stykkishólmi um afslátt á kjörum.

Atvinnu- og nýsköpunarnefnd tekur vel í hugmyndir að gestakorti Stykkishólmsbæjar og hvetjur til þess að hugmyndin verði full unnin og fari í reynslu sem fyrst.

8.Sögu og menningararfur í Stykkishólmsbæ/Menningartengd ferðaþjónusta

Málsnúmer 1905057Vakta málsnúmer

Lagður fram hugmyndalisti að menningartengum viðburðum þar sem meðal annars eru hugmyndir sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu, ásamt hugmyndum að lagningu göngustíga og skilta við Búðarnes og Hjallatanga, og frekari hugmyndum að skiltum sem eru í vinnslu.
Bæjarstjóri gerir grein fyrir hugmyndum að menningartengdum viðburðum sem sumir hverjir tengjast menningartengdri ferðaþjónustu. Þá gerir bæjarstjóri jafnframt grein fyrir hugmyndum sem uppi eru um stíga og skiltagerð við Búðarnes og Hjallatanga, þar sem unnið verði með þjóðminjaverndarsvæði og sögu Stykkishólms í samráði við Minjastofnun Íslands, hugmyndum að upplýsingaskilti um kvikmyndina um The Secret Life of Walter Mitty við hafnarsvæðið, upplýsinga- og fræðsluskilti um veðurathuganir í Stykkishólmi, útsýnispall við Súandisey og fleiri hugmyndum sem hafa verið til umræðu.

Nefndin fagnar framkomnum hugmyndum og bendir á að hugmyndir sem tengjast menningartengdri ferðaþjónustu og öðru atvinnulíf verði unnið áfram í samvinnu við Eflingu Stykkishólms.

9.Everything about Iceland - Upplýsingaskjár fyrir ferðamenn

Málsnúmer 1905012Vakta málsnúmer

Framlagt erindi frá Everything about Iceland um samstarf við Stykkishólmsbær, en félagið hefur það að markmiði að setja ferðamannabæklinga í rafrænt form með nýrri og betri lausn sem auðveldar erlendum ferðamönnum að finna afþreyingu við sitt hæfi. Everything About Iceland gerir þetta með því að notast við snertiskjái sem settir eru upp á ferðamannastöðum víðsvegar um landið í þeim tilgangi að ná til ferðamanna. Ferðamenn geta því tekið allar upplýsingar úr snertiskjáum Everything About Iceland með sér í símann með vefappi Everything About Iceland.

Bæjarráð samþykkti að taka þátt í verkefninu með þeim fyrirvara að jákvæðar umsagnir komi frá atvinnumálanefnd.
Atvinnu og nýsköpunarnefnd telur verkefnið áhugavert en óvíst er hvort og í hversu miklum mæli ferðaþjónustuaðilar í Stykkishólmi hafi áhuga á að kaupa auglýsiningar af þessu tagi. Nefndin leggur því áherslu á að kannað verði hvort fyrirtæki á svæðinu og víðar á landinu hyggist nýta sér þessa þjónustu.

Erindinu var jafnframt vísað til Eflingu Stykkishólms til umsagnar og því gerir nefndin ráð fyrir því að upplýsingar frá atvinnurekendum komi fram í umsögn Eflingar Stykkishólms.

Fundi slitið - kl. 15:20.

Getum við bætt efni síðunnar?