Fara í efni

Úrskurðarnefnd ógildir byggingarleyfi við Nesveg 22a (þangvinnslu) – Óvissa með uppbyggingu á Hamraendum

28.10.2022
Fréttir

Úrskurðarnefnd umhverfis- og auðlindamála felldi í dag úr gildi byggingarleyfi fyrir Nesveg 22a, sem veitt var 14. október síðastliðinn. Nefndin telur að umrædd bygging sé ekki í samræmi við gildandi aðalskipulag og að deiliskipuleggja hefði þurft svæðið áður en byggingarleyfið var gefið út. Byggir niðurstaðan á því að í aðalskipulaginu sé gert ráð fyrir deiliskipulagningu núverandi hafnar- og athafnasvæða og á því að á engan hátt sé fjallað um hinu umdeildu byggingaráform í aðalskipulaginu.

Lóðin við Nesveg 22a var stofnuð árið 1979 og stóð þar steypustöð sem rifin var árið 2014 og gekk sveitarfélagið út frá því sem vísu að þinglýstur lóðarleigusamningur og lóðarblað, sem unnið var fyrir gerð aðalskipulagsins, væri rétthærra en skipulagsskilmálar í aðalskipulaginu enda hafi steypustöðin verið í fullri starfsemi þegar aðalskipulagið tók gildi. Ennfremur taldi sveitarfélagið að þar sem um hafnsækna starfsemi sé að ræða samræmdist það skilmálum aðalskipulagsins fyrir hafnarsvæði jafnvel þó lóðin falli að hluta til á svæði sem skilgreint er sem opið svæði í aðalskipulaginu. Niðurstaða úrskurðarnefndarinnar kom því sveitarfélaginu á óvart þar sem þarna hafi verið atvinnulóð frá 1979.

Sveitarfélagið mun bregðast við þessum úrskurði með viðeigandi hætti. Sé enn fyrir hendi vilji og áhugi til uppbyggingar á svæðinu af hálfu lóðarhafa, Asco Harvester ehf., í samræmi við kynnt áform (sjá umfjöllun á heimasíðu sveitarfélagsins), mun það samkvæmt þessu byggja á skilmálum sem settir verða fram í deiliskipulagi fyrir svæðið.

Felur niðurstaða úrskurðarnefndar jafnframt í sér ákveðna óvissu með fyrirhugaða uppbyggingu á nýúthlutuðum atvinnulóðum á Hamraendum þar sem orðalag aðalskipulagsins á jafnframt við um það svæði og málsmeðferð sveitarfélagsins vegna þeirra áforma byggði einnig á 1. mgr. 44. gr. skipulagslaga líkt og gert var í máli Asco Harvester ehf. Deiliskipulag á Hamraendasvæði er hins vegar í vinnslu og skipulagslýsing verður auglýst á næstu dögum. Sveitarfélagið mun funda með lóðarhöfum á Hamraendum á næstu dögum vegna málsins.

Í ljósi sameiningar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar og gildissviðs aðalskipulagsáætlana (2002-2022 í Stykkishólmsbæ og 2012-2024 í Helgafellssveit) mun innan tíðar hefjast vinna við endurskoðun aðalskipulags hins sameinaða sveitarfélags þar sem settir verða nánari skilmálar um framtíðarsvæði iðnaðar-, hafnar- og athafnarsvæða. 

Úrskurðinn má lesa í heild sinni á vef úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.

Getum við bætt efni síðunnar?