Fara í efni

Pistill bæjarstjóra vegna COVID-19 - 23. mars 2020

23.03.2020
Fréttir
Kæru Hólmarar og nærsveitungar.
 
Hertar takmarkanir á samkomum taka gildi á miðnætti, mörkin eru nú sett við 20 manns. Þessar hertu reglur koma til með að hafa áhrif á okkur Hólmara eins og aðra Íslendinga og ber þá helst að nefna að íþróttamiðstöð, sundlaug og söfnum bæjarins lokar, þar að auki hættir heilsuefling eldri borgara tímabundið. Skólastarf er undanskilið þessum aðgerðum en þó má gera ráð fyrir frekari tíðindum hvað það varðar á næstu dögum.
 
SAMHELDIÐ SAMFÉLAG
Til að byrja með vil ég skila þakklæti til starfsmanna Stykkishólmsbæjar sem unnið hafa þrekvirki við að endurskoða og finna nýjar útfærslur á öllu okkar starfi í kjölfar neyðarástandsins sem nú ríkir, einnig vil ég þakka íbúum bæjarins og foreldrum leik- og grunnskólabarna sem tekið hafa aðstæðum af miklu æðruleysi. Okkar samheldna samfélag hefur unnið sem eitt í aðgerðum sínum við að hefta útbreiðslu veirunnar, við höfum aðlagað okkur að nýjum aðstæðum með bros á vör og sýnt hvert öðru skilning, samhug og stuðning. Við megum öll vera stolt af því að vera Hólmarar í dag.
 
SMIT Í STYKKISHÓLMI
Greint hefur verið frá því að tvö smit hafi komið upp í Stykkishólmi, bæði tilfelli eru af sama heimili. Um er að ræða einstaklinga sem komu nýverið erlendis frá og fylgdu tilmælum yfirvalda um að fara beint í sóttkví við heimkomu, en báðir greindust með veiruna á meðan á sóttkví stóð. Báðir aðilar eru nú í einangrun í samræmi við verklag þar að lútandi, en einangrun er fyrir þá sem eru með staðfest COVID-19 sýkingu en þurfa ekki á sjúkrahúsdvöl að halda.
 
Þar sem viðkomandi aðilar fylgdu fyrirmælum sóttvarnarlæknis um að fara í tveggja vikna sóttkví við heimkomu munu þeir ekki hafa átt í samskiptum við aðra í návígi frá því sóttkví hófst, þ.m.t. hér í Stykkishólmi.
 
Er þetta ágætt dæmi um að aðgerðir sóttvarnalæknis eru að skila árangri og er því áréttað mikilvægi þess að almenningur haldi áfram að fylgja fyrirmælum og leiðbeiningum sóttvarnarlæknis.
 
SKERÐING Á ÞJÓNUSTU Í STYKKISHÓLMI
Starfsemi stofnana Stykkishólmsbæjar hefur tekið nokkrum breytingum undanfarið og hafa stjórnendur stofnana unnið markvisst að því að koma upplýsingum á framfæri við þjónustuþega og aðra bæjarbúa varðandi breytingar á þeirri þjónustu sem gerðar hafa verið í ljósi tilmæla yfirvalda.
 
Í ljósi aðstæðna getur starfsemi stofnana breyst enn frekar með skömmum fyrirvara. Frá og með hertu samkomubanni sem tekur gildi á miðnætti má einnig gera ráð fyrir skertri þjónustu annarra þjónustuaðila í Stykkishólmi. Sem dæmi má nefna að eftirfarandi aðilar hafa tilkynnt lokanir;
  • Átak ? líkamsrækt/Reiturinn
  • Hárstofan í Stykkishólmi
  • Narfeyrarstofa
  • Skipperinn

 Aðrir hafa boðað breytta þjónustu;

  • Nesbrauð selur eingöngu vörur til að taka með út og bjóða heimkeyrslu til kl. 13.
  • Skúrinn hefur lokað matsalnum og bíður einungis upp á take away.
  • Arion banki skerðir opnunartíma og hefur opið frá 12 til 15.
  • Bónus í Stykkishólmi gerir nú ráð fyrir fjöldatakmörkunum á þann veg að fjöldi manns í búðinni sé að hámarki 40 í einu og þá er mælst til þess að þeir sem eru að versla hafi í huga að í hverju rými séu ekki fleiri en 10 manns.
 
Þar að auki lokar íþróttamiðstöðin, sundlaugin og söfn bæjarins, þ.m.t. Amtsbókasafnið. Tónlistarskólinn hefur lokað en nemendum er boðið upp á fjarkennslu. Regnbogaland verður lokað frá og með morgundeginum.
 
Heilsuefling eldri borgara tekur pásu á meðan þetta ástand ríkir. Eldri borgurum í heilsueflingu hefur þó verið sendur listi af æfingum sem hægt er að stunda heima. Stykkishólmsbær hefur nú í vetur lagt ríka áherslu á snjómokstur gangastétta og göngustíga svo íbúar, ungir sem aldnir, geti stundað heilsusamlega hreyfingu hér í bæ. Á tímum sem þessum er um að gera að huga að heilsunni og hreyfa sig.
 
Fyrirtæki í bænum hafa staðið sig vel við að halda viðskiptavinum sínum upplýstum um stöðu mála og breytingum á starfsemi á facebook-síðum sínum, gott er að fylgjast þar með tilkynningum frá einstaka fyrirtækjum.
 
STYKKISHÓLMSBÆR VEL Í STAKK BÚINN
Stykkishólmsbær gaf út viðbragðsáætlun vegna COVID-19 þann 11. mars sl., einnig var sett upp sérstök upplýsingasíða Stykkishólmsbæjar. Viðbragðsáætlunin þjónar þeim tilgangi að vera stjórnendum og forstöðumönnum sveitarfélagsins, sem og starfsmönnum, til stuðnings um það hvernig takast eigi á við afleiðingar neyðarástands sem kann að ógna lífi og heilsu almennings, umhverfi og/eða eignum.
 
Viðbragðsáætluninni er ætlað að segja fyrir um viðbrögð innan sveitarfélagsins í kjölfar heimsútbreiðslu af völdum COVID-19.
 
Tvö staðfest smit hafa nú greinst á Vesturlandi, við því var að búast og undirbúningur í takt við það. Við erum vel í stakk búin til að takast á við það sem okkar bíður. Stykkishólmsbær fylgir í einu og öllu fyrirmælum landlæknis og yfirvalda á þessum óvissutímum.
 
Rétt er að hvetja fólk til að gera slíkt hið sama, halda sér vel upplýstum, fylgjast með fréttum og fara eftir fyrirmælum. Á vefsíðunni covid.is er að finna allar helstu upplýsingar tengdar veirunni, hvernig best er að forðast smit, hvernig sóttkví virkar og hvert hægt er að snúa sér ef spurningar vakna.
 
BREYTTUM AÐSTÆÐUM FYLGJA NÝ TÆKIFÆRI
Fjöldi stofnana og vinnustaða bjóða nú starfsmönnum að sinna vinnu að heiman og funda í gegnum fjarfundabúnað. Því má ætla að þjóðin komi tæknivæddari en nokkru sinni fyrr út úr þeim hremmingum sem nú yfir okkur ganga. Binda má vonir við að þessi lærdómur skili okkur auknum tækifærum á sviði tækninnar og störf óháð staðsetningu eflist. Það eru sóknarfæri fyrir landsbyggðina falin í því að stærstu fyrirtæki landsins haldi flesta sína fundi í gegnum fjarskiptabúnað og bersýnilega komi í ljós að með tækni nútímans sé staðsetning starfsmanna afstæð. Sem dæmi um þetta má nefna að bæjarstjórn og allar fastanefndir Stykkishólmsbæjar funda nú í gegnum fjarfundabúnað og það gengið vonum framar.
Að lokum vil ég minna fólk á að tapa ekki jákvæðninni, finna tækifæri í breyttum aðstæðum. Það er upphefjandi að fylgjast með fréttum af samheldni og samhug á þessum fordæmalausu tímum. Fólk syngur úti á svölum sér og öðrum til yndisauka og fleira því um líkt.
 
Margir hafa bent á að fjölskyldur í sóttkví fái loks tækifæri til að verja tíma saman og styrkja fjölskylduböndin. Eldri borgarar geti t.a.m. nýtt tækifærið til að skerpa á tæknikunnáttu, e.t.v. geta starfsmenn dvalarheimila aðstoðað fólk við að hitta fjölskylduna í gegnum Skype eða Snapchat.
 
Munum að þetta gengur yfir eins og annað. Horfum því björtum augum fram á veginn, sýnum ábyrgð, töpum ekki gleðinni og höfum það hugfast að öll él styttir upp um síðir.

 

Jakob Björgvin Jakobsson
bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar

Upplýsingar um Covid-19 á Íslandi
Góð ráð, traustar upplýsingar og nýjustu fréttir af COVID-19 og aðgerðum við að hefta útbreiðslu.

Getum við bætt efni síðunnar?