Fara í efni

Viðspyrna og varnir Stykkishólmsbæjar vegna COVID-19

30.04.2020
Fréttir

Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum þann 30. apríl sl. aðgerðir til viðspyrnu vegna þeirra efnahagslegu afleiðinga sem COVID-19 heimsfaraldurinn hefur og gæti haft með sér í för. Aðgerðirnar koma til viðbótar fyrri aðgerðum sem þegar hefur verið gripið til, en sumar aðgerðanna höfðu þegar komið til framkvæmda við upphaf faraldursins. 

Aðgerðaáætlunin ber yfirskriftina "Fjárhagslegar og samfélagslegar aðgerðir Stykkishólmsbæjar til viðspyrnu og varna vegna Covid-19" og er skipt upp í þrjá kafla:

  • Varnir í þágu heimila og fyrirtækja
  • Efling samfélagsins
  • Sterkari innviðir undirstaða öflugs samfélags
  • Meðal aðgerða er aukið svigrúm til fyrirtækja hvað fasteignagjöld varðar og leiðrétting á þjónustugjöldum vegna skertar þjónustu, sbr. tímabundnar reglur Stykkishólmsbæjar um sveiganleika í innheimtu og gjaldfrestum.

    Þá hyggst Stykkishólmsbær taka þátt í markaðsátaki með Markaðsstofu Vesturlands, Ferðamálastofu, Íslandsstofu, sveitarfélögum á Snæfellsnesi og Svæðisgarðinum til að efla ferðaþjónustu og ferðaþjónustutengdar greinar á svæðinu.

    ATVINNUÁTAKSVERKEFNI

    Þá horfir Stykkishólmsbær til þess skapa aukna möguleika á sumarstörfum fyrir námsfólk sumarið 2020 til að sporna við atvinnuleysi og hyggst Stykkishólmsbær taka þátt í sérstöku átaki ríkisstjórnarinnar um sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri.
    Stefnt er að því að unnið verði í samvinnu við Vinnumálastofnun, Starfsendurhæfingu Vesturlands og atvinnurekendur í Stykkishólmi að skapa störf fyrir þá sem verða illa úti í ástandinu. Áhersla verði lögð á að bjóða starfstækifæri, starfsnám og íslenskukennslu og aðra menntun til einstaklinga á atvinnuleysisbótum.
    Einnig stendur til að auka möguleika til uppbyggingar íbúðahúsnæðis, flýta þéttingu byggðar og undirbúa skipulag fyrir stækkun atvinnusvæðis og fjölga möguleikum til atvinnuuppbygginar.

    FLÝTING FJÁRFESTINGA

    Bæjarstjóra, bæjarritara og forstöðumanni Þjónustumiðstöðvar er falið að koma með tillögur að flýtingu fjárfestinga og viðhald á vegum Stykkishólmsbæjar, til viðbótar því sem bæjarstjórn hefur þegar ákveðið. Þá er bæjarstjóra einnig falið að ýta ennfrekar á flýtingu á færslu hjúkrunarrýma yfir á Heilbrigðisstofnun Vesturlands í Stykkishólmi.
    Um er að ræða fyrstu almennu aðgerðir bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar og verða þær endurskoðaðar reglulega eftir því sem áhrifin skýrast. Í því sambandi kallar 
    Stykkishólmsbær jafnframt eftir hugmyndum íbúa að verkefnum, áherslum og/eða aðgerðum til að taka með í þá vinnu, en þær má senda á netfangið stykkisholmur@stykkisholmur.is

    Hægt er að kynna sér fjárhagslegar og samfélagslegar aðgerðir Stykkishólmsbæjar til viðspyrnu og varna vegna Covid-19 nánar hér.

     

    Getum við bætt efni síðunnar?