Vel sóttur íbúafundur um verkefnið Gott að eldast
Samtök sveitarfélaga á Vesturlandi buðu til íbúafundar um verkefnið Gott að eldast mánudaginn 4. nóvember á Höfðaborg. Fundurinn var öllum opinn en um 60 manns mættu og létu vel um sig fara í nýja salnum á Höfðaborg.
Sveitarfélagið Stykkishólmur er meðal 22 sveitarfélaga og sex heilbrigðisstofnanna sem taka þátt í þróunarverkefninu Gott að eldast. Verkefnið gengur út á að samþætta félags- og heilbrigðisþjónustu fyrir eldra fólk í heimahúsum og flétta vandlega saman þá þætti sem ríkið sér annars vegar um og hins vegar sveitarfélögin. Jakob Björgvin, bæjarstjóri, bauð fólk velkomið áður en Líf Lárusdóttir, verkefnastjóri Gott að eldast hjá SSV, kynnti verkefnið, helstu áskoranir þess og tækifæri. Að lokum fluttu hjónin, Líney Úlfarsdóttir, sálfræðingur, og Svavar Knútur, söngskáld, erindi undir yfirskriftinni ,,Það er pláss fyrir alla”. Boðið var upp á kaffi og léttar veitingar í lok fundarins.