Fara í efni

Undirbúningur fyrir landsmót 50+

20.01.2023
Fréttir Lífið í bænum

Í vikunni fékk hópur í Heilsueflingu 60+ kynningu á ringó sem verður keppnisgrein á Landsmóti UMFÍ 50+ í Hólminum, dagana 23.-25. júní 2023.

Ringó svipar nokkuð til blaks en í stað bolta eru notaðir tveir gúmmíhringir, sem liðin kasta yfir net og reyna að koma í gólf hjá andstæðingnum. Aðeins má grípa hringina með annarri hendi og þar sem tveir hringir eru á lofti í einu verður oft æði mikið líf og fjör á vellinum. Spilað er á blakvelli í fjögurra manna liðum og þátttakendur þurfa ekki að búa yfir neinni sérstakri kunnáttu eða getu annarri en að geta gripið með annarri hendi og kastað yfir netið. Ringó er því frábær íþrótt fyrir fólk á öllum aldri og skemmtilegt hópefli fyrir fjölskyldur, vinahópa og vinnustaði. Þeir sem hafa áhuga á að kynna sér íþróttina og láta á fimi sína í ringó reyna, eru hvattir til að hafa samband við Tómstunda- og æskulýðsfulltrúa Magnús Inga Bæringsson í síma 8648862 eða magnus@stykkisholmur.is.

Hér má kynna sér reglur í ringó nánar.

Keppt verður í ringó á landsmóti 50+ í Stykkishólmi í sumar.
Getum við bætt efni síðunnar?