Fara í efni

Umsögn Stykkishólmsbæjar um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024

14.05.2019
Fréttir

Umsögn um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024, þingmál nr. 750
Lögð er fram tillaga til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024, 750. mál, ásamt umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. maí 2019.
Bæjarráð Stykkishólmsbæjar tekur undir umsögn Sambands íslenskra sveitarfélaga, dags. 3. maí 2019, um tillögu til þingsályktunar um fjármálaáætlun 2020-2024, þingmál nr. 750. Þá vísar bæjarráð Stykkishólmsbæjar til bókunar bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar á 374. fundi bæjarstjórnar 28. mars 2019 um áform ríkisins um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs í þessu sambandi sem jafnframt verður send fjárlaganefnd. Þá tekur bæjarráð undir samþykkt landsþings Sambandsins gegn áformum um skerðingu á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga þar sem m.a. kemur fram að vinnubrögð fjármála- og efnahagsráðuneytisins í málinu séu með öllu óásættanleg enda sé með þessu verið að skapa hættulegt fordæmi um að ríkisvaldið grípi einhliða inn í lögbundna tekjustofna sveitarfélaga. Bæjarráð Stykkishólmsbæjar gerir þá skýlausu kröfu að Alþingi dragi til baka áform ríkisstjórnarinnar um frystingu framlaga til Jöfnunarsjóðs.
Í samræmi við framangreinda bókun bæjarráðs Stykkishólmsbæjar er því jafnframt komið á framfæri við fjárlaganefnd að á 374. fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar 28. mars 2019 var fjallað um áform ríkisins um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs. Eftirfarandi er bókun bæjarstjórnar um málið:
Áform ríkisins um að skerða framlög til Jöfnunarsjóðs
Lögð var fram bókun stjórnar sambandsins frá 15. mars 2019 vegna áforma fjármálaráðherra og ríkisstjórnarinnar að skerða tekjur jöfnunarsjóðs, auk minnisblaðs, dags. 14. mars 2019, sem Sigurður Á. Snævarr, sviðsstjóri hag- og upplýsingasviðs sambandsins, tók saman með skýringum á fyrirhugaðri skerðingu og mati á hrifum hennar á einnstök sveitarfélög. Samkvæmt minnisblaðinu mun tekjutap Stykkishólmbæjar vegna framkominna áætlana verða samtals rúmar 30 m.kr. Í bókun sambandsins kemur fram að umrædd aðgerð feli í sér árás á sjálfsákvörðunarrétt og fjárhagslegt sjálfstæði sveitarfélaga. Hún veikir rekstrargrundvöll margra þeirra verulega og á sér ekki fordæmi í samskiptum þessara tveggja stjórnsýslustiga. Á sama tíma er fjárhagslegur grundvöllur sveitarfélaga víða í uppnámi vegna utanaðkomandi aðstæðna. Í bókun sinni mótmælir stjórn sambandsins harðlega umræddum áformum og krefst þess að boðuð áform um tekjuskerðingu gagnvart sveitarfélögum verði dregin til baka svo skapaður verði á ný jarðvegur fyrir eðlileg samskipti ríkis og sveitarfélaga.
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar tekur undir bókun stjórnar Sambands íslenskra sveitarfélaga vegna áforma um skerðingar sem fjármála- og efnahagsráðherra hefur lagt til á framlögum til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Bæjarstjórnin mótmælir harðlega fyrirhuguðum áformum og bendir á að skerðingin muni koma harðast niður á sveitarfélögum á landsbyggðinni, þ.m.t. Stykkishólmsbæ, sem reiða sig m.a. á framlög Jöfnunarsjóðs. Þeim tilmælum er beint til ríkisins að leita annarra leiða til að ná jafnvægi í ríkisfjármálum. Ályktunin verður send til Sigurðar Inga Jóhannssonar, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra, Bjarna Benediktssonar, efnahags- og fjármálaráðherra, fjárlaganefndar Alþingis og þingmanna Norðvesturkjördæmis.

 

Getum við bætt efni síðunnar?