Fara í efni

Umsögn Stykkishólmsbæjar um drög að Velferðarstefnu Vesturlands

16.05.2019
Fréttir

Í janúar s.l. var óskað eftir umsögn Stykkishólmsbæjar um drög að Velferðarstefenu Vesturlands (sjá frétt um stefnuna og stefnuna sjálfa hér: https://www.stykkisholmur.is/frettir/stok-frett/2019/02/08/Velferdarstefnu-Vesturlands-/).
Drög að Velferðarstefnu Vesturlands voru tekin til umfjöllunar og afgreiðslu í fastanefndum Stykkishólmsbæjar, m.a. skóla- og fræðslunefnd, íþrótta- og æskulýðsnefnd, ungmennaráði, nefnd um málefni fatlaðra (nú Velferðar- og jafnréttismálanefnd) og bæjarráði, ásamt því að bæjarstjórn tók drögin til umfjöllunar. Bæjarstjóra var falið að ganga frá og senda umsögn Stykkishólmsbæjar og er umsögn Stykkishólmsbæjar eftirfarandi: 

Efni: Umsögn Stykkishólmsbæjar um drög að Velferðarstefnu Vesturlands

Stykkishólmsbær hefur þann 4. janúar 2019 móttekið tölvupóst þar sem óskað er eftir umsögn bæjarins um drög að Velferðarstefnu Vesturlands. Stykkishólmsbær þakkar fyrir tækifærið til að skila umsögn um drögin og telur af því tilefni ástæðu til að vekja athygli á eftirfarandi atriðum en neðangreind umsögn bæjarins er samandregin eftir umfjallanir fastanefnda Stykkishólmsbæjar[1] um fyrirliggjandi drög að Velferðarstefnu Vesturlands.

  • Öldrunarmál

    Eitt af markmiðum velferðarstefnunnar er að gera fólki kleift að vera eins lengi heima og það hefur hug á og getu og krafta til, en núverandi fyrirkomulag kemur í veg fyrir það, m.a. vegna þess að engin heimahjúkrun er í boði frá Heilbrigðisstofnun Vesturlands (?HVE?) nema fyrir hádegi. Þá er félagsleg heimaþjónusta á vegum Félags- og skólaþjónustu Snæfellinga t.d. yfirleitt ekki oftar en einu sinni í viku. Það skortir því á að mynduð sé stefna um það hvernig skal brúa bilið á milli heimilis og dvalarrýmis eða hjúkrunarrýmis, þ.e. fyrir þá einstaklinga sem geta verið heima með stuðningi, t.d. við að klæða sig og hátta eða við lyfjatöku. Um er að ræða einstaklinga sem eru að miklu leyti sjálfbjarga  en neyðast til að fara á dvalarheimli því það fær ekki aðstoð heim nema einu sinni í viku og þá fyrir hádegi. 

    Stykkishólmsbær bendir á mikilvægi þess að samþætta þjónustu á milli sveitarfélaganna á Vesturlandi og HVE í öldrunarmálum og þörf á skýrari afstöðu til þessara þátta í stefnunni. Mikilvægt er að HVE og félagsþjónusta sveitarfélaganna bjóði upp á heildstæða þjónustu svo að íbúar geti fengið viðeigandi þjónustu heim eins lengi og þeir hafa tök á og vilja.

  • Akstursþjónusta íbúa sem búa við skerta hreyfigetu (fatlaðs fólks og eldri borgara)

    Líkt og reifað er í drögum að Velferðarstefnu Vesturlands hefur tómstundaakstur mikil áhrif á aðgengi ungmenna að íþróttum og tómstundum og er í stefnunni lagt til að tómstundaakstur verði efldur.[2] Stykkishólmbær hefur ekki athugasemdir við að áhersla verði lögð á eflingu tómstundaakstur ungmenna og tekur undir þann þátt í fyrirliggjandi drögum. Að mati Stykkishólmbæjar þyrfti hins vegar að að horfa á þetta viðfangsefni, þ.e. akstursþjónustu eða tómstundaakstur, út frá mun víðara sjónarhorni.

    Stykkishólmbær minnir á að það er skylda sveitarfélaganna að hafa tiltæka akstursþjónustu handa íbúum í sveitarfélögunum sem búa við skerta hreyfigetu þar sem almenningsþjónustu nýtur ekki við. Á þetta jafnt við um fatlað fólk, öryrkja og eldri borgara, í daglegu lífi og í tómstundum. Sveitarfélög bera ábyrgð á skipulagi aksturs hvað þetta varðar og að standa straum af kostnaðinum.

    Að íbúar með skerta hreyfigetu geti komist ferða sinna, óháð því hvort vinur eða ættingi sé tiltækur í akstur fyrir viðkomandi, er verulegt réttinda- og velferðarmál. Er þetta verkefni sem sveitarfélögin á Vesturlandi þurfa að horfa til á næstu misserum og telur Stykkishólmsbær að umfjöllun um þetta mikilvæga velferðarmál skorti í fyrirliggjandi drögum að Velferðarstefnu Vesturlands.  

  • Notendastýrð persónuleg aðstoð (NPA þjónusta)

    Notendastýrð persónuleg aðstoð (?NPA?) er nú orðin lögbundin og þurfa sveitarfélögin að horfa til þess hvernig þau ætla að uppfylla þessa skyldu sína. Stykkishólmsbær tekur undir það sjónarmið að löggjöfin muni hafa allvíðtæk áhrif á þjónustu sem sveitarfélög sjá um að skipuleggja og veita. NPA samningar geta haft veruleg áhrif á fjárhag sveitarfélaganna en engu að síður er um lögbundna þjónustu að ræða og því geta þau ekki synjað því að veita slíka þjónustu.

    Stykkishólmbær telur að í Velferðarstefnu Vesturlands sé vert að taka þessa þætti til nánari umfjöllunar og væri það liður í því að undirbúa útfærslu þessarar þjónustu betur, á Vesturlandi í heild sinni, sem og að bæta þjónustu við fatlað fólk á Vesturlandi. 

     

  • Aðlögun innflytjenda

    Félagsþjónusta á vegum sveitarfélaganna gegnir stóru hlutverki í stuðningi við aðlögun innflytjenda að samfélaginu þannig að þeir upplifi sig sem virka þátttakendur í því.

    Á Vesturlandi hefur hlutfall innflytjenda af íbúafjölda hækkað jafnt og þétt síðustu ár og fyrir liggur að sveitarfélögin í heild sinni hafa ekki mótað sér heilstæða stefnu varðandi þjónustu við þessa einstaklinga eða mótað sér heilstæða stefnu sem miðar að því að efla fólk af erlendum uppruna til þátttöku í samfélaginu á Vesturlandi. Hægt væri að horfa til Þróunarsjóðs innflytjendamála til fjármögnunar á verkefni sem varða þessi málefni og í því sambandi mætti sjá fyrir sér að unnið verði að því að mynda heildræna þjónustu við einstaklinga og fjölskyldur og kynna þeim réttindi sín og skyldur í samfélaginu á Vesturlandi, þrátt fyrir að einstaka svæði geti svo útfært slíka þjónustu nánar á sínu svæði.

    Myndi þetta verkefni í framhaldinu kalla á samstarf sveitarfélaganna og stofnanir innan þeirra, eins og félagsþjónustu, leik- og grunnskóla, samstarf milli ríkis og sveitarfélaga, eins og framhaldsskóla, heilbrigðisþjónustu og löggæslu, sem og það væri þörf á að leita samstarfs  við atvinnurekendur og aðra hagaðila.

    Stykkishólmsbær telur að það sé mikilvægur þáttur í stefnumótun á Vesturlandi og því mætti taka þessa þætti til skoðunar í Velferðarstefnu Vesturlands, enda hlýtur það að vera hluti af velferðarstefnu svæðisins hvernig tekið er á móti innflytendum, hvernig þeim er boðið að vera þátttakendur í samfélaginu og þeim kynnt hvaða þjónustu þeir eiga rétt á.

  • Heilsugæsla á Vesturlandi (bráðaþjónusta, læknamál og sálfræðiþjónusta)

    Stöðugleiki í læknaþjónustu er stórt velferðar- og hagsmunamál á svæðinu og má þar nefna skerta bráðaþjónusta á sjúkrahúsinu í Stykkishólmi með lokun rannsóknarstofu HVE í Stykkishólmi. Dæmi eru um að flytja þurfi sjúklinga á Akranes eingöngu þar sem ekki er hægt að gera einfaldar blóðrannsóknir í Stykkishólmi.

    Stykkishólmsbær leggur þunga áherslu á að efla þarf heilbrigðisþjónustu á Snæfellsnesi, þ.m.t. í Stykkishólmi, enda eiga allir landsmenn rétt á að fá notið góðrar þjónustu óháð efnahag og búsetu. Almenn óánægja hefur verið meðal íbúa Stykkishólmsbæjar vegna þess að almenn læknisþjónusta í bænum hefur lengi verið drifin áfram af læknum sem ráða sig í verktöku til skamms tíma til afleysinga. Heilsugæsla og sjúkraþjónusta er íbúunum mjög mikilvæg og  landbyggðin virðist stöðugt liggja undir höggi hvað varðar umrædda þjónustu. Þá hafa rannsóknir er varða byggðamál sýnt fram á að örugg heilbrigðisþjónusta er einn meginþátturinn í mati fólks á fýsileika búsetu um landið og þar skiptir samfella í heilbrigðisþjónustu mjög miklu máli, þ.e. að stöðugleiki sé í mönnun lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna. Sú staða er ekki fyrir hendi á öllu Vesturlandi, þ.m.t. í Stykkishólmi, og er sú staða ekki ásættanleg.

    Ennfremur þarf að kalla eftir því að HVE uppfylli þá skyldu sína að bjóða upp á sálfræðiþjónustu, sér í lagi fyrir börn eins og er fyrirskipað af Landlæknisembættinu en einnig fyrir fullorðna.  Íbúar Stykkishólmsbæjar hafa aðgang að sálfræðiþjónustu fyrir börn á vegum HVE en sækja þarf þjónustuna á Akranes sem verður að teljast ófullnægjandi.  

    Stykkishólmsbær telur umfjöllun um og áherslu á að auka þurfi heilbrigðisþjónustu ábótavant í stefnunni, sbr. framangreint.

  • Fjárhagsaðstoð
  • Ein af skyldum sveitarfélaga á grundvelli laga um félagsþjónustu sveitarfélaga nr. 40/1991 er að tryggja þeim íbúum, sem þess þurfa, framfærslu með fjárhagsaðstoð. Þeir sem þurfa á fjárhagsaðstoð að halda eru gjarnan jaðarsettir í samfélaginu og að ákveðnu marki félagslega útilokaðir. Felur það í sér að einstaklingur er utanveltu við félagslegar bjargir, gildi og viðmið samfélagsins. Slík félagsleg útilokun frá gæðum samfélagsins getur haft í för með sér vanda af ýmsu tagi, svo sem takmarkað aðgengi að upplýsingum, menntun og tómstundum, fyrir utan alvarlegri afleiðingar á borð við heimilisleysi eða næringarskort.

    Reglur um fjárhagsaðstoð eru mismunandi eftir sveitarfélögum en velferðarráðuneytið hefur gefið út leiðbeiningar um inntak slíkra reglna. Það ber að athuga að aðeins er um leiðbeiningar að ræða og er því ákvörðun um fjárhæðir og fyrirkomulag fjárhagsaðstoðar ávallt í höndum hvers og eins sveitarfélags. Sú skylda hvílir á sveitarfélögum að setja slíkar reglur en þau hafa sjálfsákvörðunarrétt um fjárhæðir og fyrirkomulag aðstoðarinnar. Á Íslandi er inntak slíkra reglna mjög mismunandi og upphæðir fjárhagsaðstoðar ólíkar. Á undanförnum árum hefur verið lögð aukin áhersla á virkni þeirra einstaklinga sem sækja um fjárhagsaðstoð og hafa öll sveitarfélög í landinu sett einhver skilyrði fyrir veitingu aðstoðar en lang flest þeirra lúta að virkni umsækjenda. Auk þess má finna önnur skilyrði, til að mynda um einstaklingsáætlun eða félagslega ráðgjöf.

    Til að tryggja jafnræði meðal íbúa er æskilegt að sveitarfélög á Vesturlandi móti stefnu í þessum efnum og samræmi reglur um fjárhagsaðstoð á svæðinu. Stykkishólmsbær telur að þeirri stefnumótun eigi að finna stað í Velferðarstefnu Vesturlands.

     

    [1] Drög að Velferðarstefnu Vesturlands voru tekin til umfjöllunar og afgreiðslu í fastanefndum Stykkishólmsbæjar, m.a. Skólanefnd, Íþrótta- og æskulýðsnefnd, Ungmennaráði, Nefnd um málefni fatlaðra (nú Velferðar- og jafnréttismálanefnd) og Bæjarráði, ásamt því að bæjarstjórn tók drögin til umfjöllunar.

    [2] Sjá umfjöllun á blaðsíðu 15 og 18 í drögum að Velferðarstefnu Vestulands.

    Getum við bætt efni síðunnar?