Tímabundin lokun í Sundlaug Stykkishólms
Kominn er tími á viðhald á sundlauginni í Stykkishólmi og þarf því að loka lauginni tímabundið. Áætlaður framkvæmdatími er þrjár vikur og verður sundlauginni lokað fyrir almenning frá mánudeginum 13. maí.
Viðhald á lauginni hefur staðið til í nokkurn tíma. Viðhaldslokun á 25 metra útilauginni er orðin tímabær þar sem dúkurinn, sem er að mestu upprunalegur er farin að segja til sín. Verkið er ekki hægt að vinna nema í hlýju og þurru og því þótti heppilegast að ráðast í verkið snemma að sumri til. Til að forðast vætu þarf að reisa einfalda yfirbyggingu yfir laugina á meðan unnið er að viðhaldi á dúk laugarinnar. Þá verður einnig farið í smávægilegar lagfæringar á innilaug, flísalögn í kringum laugar löguð, sturtuklefar lagfærðir og ýmis önnur viðhaldsverkefni. Jafnframt verður tíminn nýttur og unnið að ýmsum þrifum sem ekki er hægt að komast í þegar gestir eru í lauginni.
Upplýsingar um framvindu verkefnisins
Stefnt er að því að opna innilaug og heita potta eins fljótt og aðstæður leyfa. Samkvæmt verkáætlun taka endurbættur á útilaug um þrjár vikur en endurbætur á innilaug og klefum á að taka styttri tíma og vonandi ekki lengri tíma en tvær vikur, en óvissuþættir í verkinu geta haft áhrif á framkvæmdatíma og þann tíma sem laugin þarf að vera lokuð. Upplýsingar verða birtar reglulega á Facebooksíðu sundlaugar, um verkið og hvernig því miðar áfram en einnig verður greint frá því á vef sveitarfélagsins.
Aðrar sundlaugar í nágrenninu eru opnar
Nágrannasveitarfélögin Grundarfjörður og Snæfellsbær reka sundlaugar og tilvalið fyrir íbúa Stykkishólms að kíkja í heimsókn út á Nes. Tilvalið er fyrir fastagesti sundlaugar Stykkishólms að nota tækifærið og prófa nágrannalaugarnar, þær hafa sinn sjarma og séreinkenni. Sjáumst í sundi.