Tiltekt á hafnarsvæði Skipavíkur - Eigendur báta og lausafjármuna athugið
Hafnarstjórn Stykkishólms hefur undanfarin ár lagt áherslu á að fara þurfi í átak til að fegra og snyrta hafnarsvæðið við Skipavíkurhöfn, sér í lagi hvað varðar óhreyfða báta og vagna sem liggja jafnvel undir skemmdum. Umhverfis- og náttúruverndarnefnd Stykkishólms fjallaði jafnframt um málið á sömu nótum og benti á heimildir heilbrigðisnefndar Vesturlands til að hlutast til um að lausafjármunir séu fjarlægðir. Á þeim grunni samþykkti hafnarstjórn að leita eftir formlegu samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands um hreinsun á hafnarsvæði Skipavíkur.
Í samræmi við framangreint fer sveitarfélagið þess á leit við eigendur báta og lausafjármuna á svæðinu, í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands, að þeir fjarlægi eigur sínar sem eru utan lóða á svæðinu.
Þess er óskað að búið verði að rýma svæði utan lóða fyrir 1. október nk.
Atvinnutæki undanskilin
Ekki er gerð krafa um að bátar og nauðsynlegur búnaður með þeim verði fjarlægður af svæðinu hafi þeir verið í notkun á þessu (2024) eða á síðasta ári (2023).
Þau atvinnutæki sem hafa verið í notkun 2023 og 2024 munu fá svæði úthlutað á hafnarsvæði Skipavíkur, en unnið er að endanlegri úrlausn og staðsetningu bátastæða á Skipavíkursvæðinu.
Gáma- og geymslusvæði við Snoppu
Eigendum báta og lausafjármuna, sem ber að fjarlægja af svæðinu í samræmi við ofangreind tilmæli, er bent á að skipulagt gáma- og geymslusvæði við Snoppu. Þar er hægt að fá pláss bæði utan og innan girðingar.
Áhugasamir geta sett sig í samband við Sigurð Grétar Jónasson, umsjónarmann framkvæmda og eigna, í síma 433-8100 varðandi laust leigupláss á gáma- og geymslusvæði.
Geymslusvæði til bráðabirgða
Sveitarfélagið býður fram svæði við Heljarmýri sem tímabundna lausn á meðan eigendur finna búnaði sínum nýjan stað. Sjá mynd hér að neðan.
Einnig býður sveitarfélagið fram lóð við Nesveg 22a sem tímabundið geymslusvæði á meðan eigendur finna eigum sínum annan stað, en það svæði er einungis ætlað bátum og búnaði sem er heillegur.
Athygli er vakin á því að óheimilt er að flytja muni á ofangreind svæði án samráðs við sveitarfélagið. Þeir sem hyggjast nýta sér þessar ofangreindar bráðabirgðalausnir er bent á að hafa samband við Jón Beck, bæjarverkstjóra, en allur frágangur og staðsetningar á bátum og öðrum lausafjáramunum á ofangreindum svæðunum skal í samráði við hann.
Kostnaður eigenda
Sveitarfélagið vill vekja sérstaka athygli eigenda báta og lausafjármuna á hafnarsvæði við Skipavík að fjarlægi þeir ekki báta og aðra lausamuni í samræmi við framangreint mega þeir eiga von á því að kostnaður af flutningi þeirri ásamt öðrum gjöldum (t.a.m. geymslugjöld) komi til með að falla á þá, séu munirnir ekki fjarlægðir af svæðinu, en um umtalsverðan kostnað getur verið að ræða fyrir hvern og einn eiganda.
Frekari upplýsingar
Frekari upplýsingar um málið veitir Jón Jakob Jakobsson, hafnarvörður, (s. 861-1487).
Eftir 1. október 2024 mun sveitarfélagið Stykkishólmur vera í samstarfi við Heilbrigðiseftirlit Vesturlands komi til stjórnvaldsákvarðana vegna hreinsun lóða og lenda, í samræmi við 20. og 21. grein reglugerðar 941/2002 um hollustuhætti, 14. greinar reglugerðar nr. 803/2023 um meðhöndlun úrgangs og lög nr. 7/1998 um hollustuhætti og mengunarvarnir.
Til upplýsinga varðandi heimildir Heilbrigðiseftirlits Vesturlands.
Reglugerð um hollustuhætti 941/2002;
20. gr.Hreinlæti á lóðum og opnum svæðum.
Bannað er að skilja eftir, flytja, dreifa eða geyma hluti, búnað eða tæki á þann hátt að valdið geti skaða, mengun eða lýti á umhverfinu. Þetta gildir jafnt um smærri sem stærri hluti.
Þeir sem annast flutninga á almannafæri, skulu haga þeim þannig að ekki valdi óþrifnaði.
21. gr.
Heilbrigðisnefnd er heimilt að láta fjarlægja lausamuni, númerslausar bifreiðar, bílflök og sambærilega hluti á almannafæri að undangenginni viðvörun, svo sem með álímingarmiða með aðvörunarorðum.
Reglugerð 803/2023 um meðhöndlun úrgangs;
14. gr.Um almennan þrifnað utanhúss.
Umráðamönnum lóða er skylt að halda þeim hreinum og snyrtilegum.
Heilbrigðisnefnd hefur eftirlit með almennum þrifnaði og hreinlæti utanhúss og hlutast til um að fram fari eftir þörfum almenn hreinsun lóða og lendna í þrifnaðarskyni. Í því skyni er heilbrigðisnefnd heimilt að:
- krefjast lagfæringa og viðgerða á lóðum, girðingum og mannvirkjum, ef nauðsynlegt þykir til þrifnaðar eða ef ástand þeirra er til lýta fyrir umhverfið,
- fyrirskipa hreinsun lóða og lendna og ef sérstök ástæða er til niðurrif húsa og girðinga í niðurníðslu,
- láta fjarlægja númerslausar bifreiðar og bílflök og sambærilega hluti að undangenginni viðvörun, t.d. með álímingarmiða með aðvörunarorðum, og
- hreinsa einkalóðir á kostnað eigenda telji nefndin þess þörf vegna mengunar og óhollustu.
Sveitarstjórn skal sjá um að hreinsun fari fram á opinberum stöðum, t.d. görðum og torgum.