Þrettándinn í Hólminum
Kveikt var upp í brennu við Vatnsás á þrettándanum þegar jólahátíðin var kvödd. Fjöldi fólks sótti brennuna í ár en áður hafði farið fram friðargangan sem frestaðist frá Þorláksmessu vegna veðurs. Friðargangan var vel sótt, ein sú fjölmennasta til þessa, og endaði gangan við Vatnsás þegar kveikt var í brennunni.
Undanfarin ár hefur ekki verið haldin áramótabrenna í Hólminum en þess í stað þeim mun veglegri þrettándabrenna. Sú hefð hefur mælst vel fyrir sem endurspeglaðist í góðri mætingu og rífandi stemmingu á þrettándabrennunni. Nemendur 9. bekkjar seldu rafkerti í fjáröflunarskyni áður en friðargangan hófst og nemendur 7. bekkjar seldu heitt súkkulaði á brennunni.
Veitt var viðurkenning fyrir best skreytta húsið jólin 2024 en það voru þau Dagbjört Bæringsdóttir og Guðmundur Gunnlaugsson sem hrepptu titilinn fyrir skreytingar að Hjallatanga 4. Venju samkvæmt setti björgunarsveitin Berserkir svo punktinn yfir i-ið með litríkri og glæsilegri flugeldasýningu.