Fara í efni

Þóra Margrét Birgisdóttir ráðin skólastjóri

15.05.2024
Fréttir

Starf skólastjóra grunnskóla og tónlistarskóla var auglýst laust til umsóknar þann 15. mars sl. og var umsóknarfrestur til og með 3. apríl sl. Tvær umsóknir bárust um starfið.

Á 25. fundi bæjarstjórnar Stykkishólms, þann 15. maí, samþykkti bæjarstjórn að ráða Þóru Margréti Birgisdóttur í stöðu skólastjóra Grunnskólans í Stykkishólmi og Tónlistarskóla Stykkishólms. Ákvörðun bæjarstjórnar er byggð á niðurstöðu ráðgjafa Attentus sem taldi Þóru Margréti mæta best þeim kröfum sem gerðar voru í auglýsingu um starfið eftir heildarmat á hæfni umsækjenda.

Undanfarin ár hefur Þóra Margrét starfað sem aðstoðarskólastjóri Grunnskólans í Stykkishólmi, eða frá árinu 2021, og þekkir því starfið vel. Þar áður starfaði hún sem umsjónarkennari við skólann í rúm 11 ár, bæði á mið- og unglingastigi, og sinnti m.a. hlutverki árgangastjóra.

Þóra Margrét er með B.Ed gráðu í tónmenntarkennslu frá Kennaraháskóla Íslands en hún er einnig með diplóma í tómstunda- og félagsmálafræði frá sama skóla. Jafnframt lauk hún við diplóma frá Háskólanum á Akureyri árið 2023 í upplýsingatækni í námi og kennslu. Þóra Margrét hefur jafnframt starfað sem deildarstjóri í leikskóla, verslunarstjóri og deildarstjóri félagsmiðstöðva. Þóra Margrét hefur sinnt ýmsum félagsstörfum, m.a. starfi verkefnastjóri Danskra daga í Stykkishólmi.

Þóra Margrét tekur við starfinu 1. ágúst næstkomandi.

Sveitarfélagið óskar Þóru Margréti til hamingju með nýtt starf og þakkar jafnframt Heimi Eyvindarsyni, fráfarandi skólastjóra, fyrir vel unnin störf í þágu skólasamfélagsins.

Þóra Margrét Birgisdóttir, nýráðin skólastjóri.
Getum við bætt efni síðunnar?