Fara í efni

Tæpar 14 milljónir í styrk til uppbyggingar ferðamannastaða

25.03.2020
Fréttir
Fyrr í þessum mánuði gerðu Þórdís Kolbrún R. Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, og Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, grein fyrir úthlutun fjármuna til uppbyggingu innviða, náttúruverndar og annarra verkefna á ferðamannastöðum árið 2020.
 
Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti Stykkishólmsbæ styrki til tveggja verkefna sem sótt var um. Verkefnin sem hlutu styrkveitingu höfðu fengið umfjöllun víðsvegar í stjórnkerfi bæjarins og fengið jákvæð viðbrögð. Af þeim 16 styrkjum sem veittir voru til sveitarfélaga rötuðu tveir til Stykkishólmsbæjar en það eru afar ánægjulegar niðurstöður og myndarleg uppskera þeirrar miklu vinnu sem innt var af hendi af starfsmönnum Ráðhússins við gerð umsókna til styrkjanna og rökstuðning við þessi verkefni.
 
Verkefni Stykkishólmsbæjar sem Framkvæmdasjóður ferðamannastaða veitti styrk til voru eftirfarandi:
 
  • Kirkjustígur - Styrkur að upphæð 9.800.000,-
    Styrkur til að leggja göngustíg um troðinn slóða upp að brattri klöpp í Maðkavík í samræmi við deiliskipulag. Brattasti kafli leiðarinnar er illfær og munu þar vera lögð steinþrep, en um er að ræða hlaðin steinþrep í tröppustíg.
    Þar sem leggja á þrep mun vera notast við grjót úr nágrenninu og hugað að því að framkvæmdin falli vel inn í landslagið. Þaðan verður göngustígurinn hlaðinn upp að Stykkishólmskirkju.
    Verkefnið mun bæta aðgengi og auka öryggi þeirra ferðamanna sem um stíginn ganga. Fyrirtækið Stokkar og steinar sjá um framkvæmdina en fyrirtækið hefur vítæka reynslu af alls kyns torf- og grjóthleðslum.
    Verk eftir fyrirækið sem sér um hönnun og yfirumsjón verkefnisins má m.a. finna á Djúpalónssandi, við Landmannalaugar, Guðrúnarlaug, Skógafoss og fjölda annara vinsæla ferðamannastaða.
  • Útsýnispallur á Súgandisey ? Styrkur að upphæð 3.830.250,-
    Styrkur til að setja á fót hugmyndasamkeppni um skipulag og hönnun útsýnispalls á Súgandisey til að tryggja öryggi og auka náttúruupplifun þeirra sem eyjuna sækja.
    Undanfarin ár hafa gönguleiðir og aðgengi á Súgandisey verið bætt svo um munar. Göngustígarnir sem þar eru stýra umferð á eyjunni vel að frátaldri staðsetningu þar sem fyrirhugað er að koma upp útsýnispalli. Um er að ræða tanga, utan göngustígar, sem ferðamenn ganga út á til að kíkja niður þverhnípt bjargið. Þar sem áður var gras er nú drullusvað sem auðveldlega getur skapað hættu.
    Ljóst er að útsýnispallur á þessum stað myndi tryggja öryggi ferðamanna auk þess að svala forvitni þeirra við að komast að ystu nöf og kíkja niður.
Framkvæmdir eru nú þegar hafnar við gerð göngustígs úr Maðkavík að kirkjunni eins og smá má á myndunum hér að neðan.

Hér má sjá myndir af umræddum tanga á Súgandisey þar sem fyrirhugað er að staðsetja útsýnispall.

Getum við bætt efni síðunnar?