Fara í efni

Sveitarfélagið Stykkishólmur er nú formlega heilsueflandi samfélag

21.03.2023
Fréttir

Í gær, mánudaginn 20. mars, kom Alma Möller landlæknir í Stykkishólm og ritaði fyrir hönd Embættis landlæknis undir samning við sveitarfélagið um þátttöku þess í verkefninu Heilsueflandi samfélag.

Heilsueflandi samfélag er samfélag þar sem heilsa og vellíðan allra íbúa er höfð í fyrirrúmi í stefnumótun og aðgerðum á öllum sviðum. Meginmarkmið verkefnisins er að skapa umhverfi og aðstæður sem stuðla að heilbrigðum lifnaðarháttum, heilsu og vellíðan allra íbúa.

Góð mæting var í íþróttahúsið þegar undirskriftin fór fram. Bæjarstjóri flutti ávarp og landlæknir kynnti verkefnið. Í ávarpi bæjarstjóra kom fram að með undirritun samningsins væri í raun verið að formfesta eitthvað sem okkar samfélag hefur verið um árabil, þ.e. heilsueflandi samfélag. Bæjarstjóri fór stuttlega yfir íþróttasögu sveitarfélagsins og uppbyggingu þeirra góðu innviða sem Hólmarar og Helgfellingar búa við.

Jafnframt kom fram að sveitarfélagið hafi á síðustu árum verið að gera stórátak í gerð göngustíga með sérstakri áherslu á uppbyggingu á skógræktarsvæðinu við Grensás með það að markmiði að auka útivistarmöguleika í nálægð við Stykkishólm. Þá standi einnig til að setja upp heilsustíg með æfingabúnaði við göngustíg um Grensás og þröskulda, vonir standa til að hann verði tekin í notkun í sumar.

Að sögn bæjarstjóra stendur nú til að gera enn betur og opna íþróttasalinn fyrir foreldra og börn á grunnskólaaldri þegar engir skipulagir tímar eru í salnum. Þá geta foreldrar, ömmur og afar og börn kíkt við í íþróttahúsinu og sparkað saman í bolta, farið í körfubolta, badminton, eða annað sambærilegt.

Að lokum minnti bæjarstjóri á landsmót UMFÍ 50+ sem fer fram í Stykkishólmi á Jónsmessuhelginni dagana 23. – 25. júní og hvatti til þátttöku í því. Mótið er haldið í samstarfi við Héraðssamband Snæfellsness og Hnappadalssýslu (HSH) og Sveitarfélagið Stykkishólm. Mótið er öllum opið sem verða 50 ára á árinu og eldri. Þátttakendur þurfa ekki að vera skráðir í íþróttafélag, allir geta tekið þátt á sínum forsendum. Einnig verða í boði kynningar á jaðaríþróttum og opnar greinar þar sem fólk á öllum aldri geta tekið þátt.

Að undirskrift lokinni var viðstöddum boðið í stuttan Zúmbatíma undir stjórn Agnesar Helgu Sigurðardóttur.

Alma Möller og Jakob Björgvin takast í hendur.
Getum við bætt efni síðunnar?