Svanborg og Gréta heiðraðar á opnunarhátíð Norðurljósa
Menningarhátíðin Norðurljósin er haldin í sjöunda sinn í Stykkishólmi nú um helgina. Hrafnhildur Hallvarðsdóttir, forseti bæjarstjórnar setti hátíðina á opnunartónleikum sem fram fóru í Stykkishólmskirkju í gær, fimmtudag, en þar var boðið til sannkallaðrar söngveislu að hætti Hólmfríðar Friðjónsdóttur. Fram komu þrír kórar; Karlakórinn Heiðbjört, Kvennasveitin Skaði og Söngsveitin Blær en einnig komu fram Lárus Ástmar Hannesson, Halla Dís Hallfreðsdóttir og Hólmfríður sjálf. Um undirleik sáu þeir Lázsló Petö, Hólmgeir S.Þórsteinsson, Haukur Garðarsson og Martin Markvoll.
Menningin dregur fólk saman
Tónleikarnir voru vel sóttir enda prýðis góð skemmtun í boði. Norðurljósahátíðin hefur ætíð miðað að því að heimafólk skemmti sér og öðrum en ánægjulegt var að auk þeirra Hólmara og Helgfellinga sem fram komu í gær var þónokkur fjöldi sunnan af Snæfellsnesi. En það fellur einmitt vel að orðræðu Þórhildar Eyþórsdóttur, bæjarfulltrúa, sem ávarpaði salinn og talaði meðal annars um sameiningarmátt menningar og lista.
Svanborg Siggeirsdóttir og Gréta Sigurðardóttir heiðraðar
Líkt og á fyrri Norðurljósahátíðum veitti bæjarstjórn viðurkenningu fyrir framlag til lista-, menningar- og samfélagsmála í sveitarfélaginu. Það var Þórhildur Eyþórsdóttir, bæjarfulltrúi, sem kom fram fyrir hönd bæjarstjórnar og ávarpaði salinn. Það voru þær Svanborg Siggeirsdóttir og Gréta Sigurðardóttir sem hlutu viðurkenningu fyrir sitt öfluga starf í þágu samfélagsins, bæði í starfi og leik.
Hér að neðan má lesa ávarp Þórhildar frá athöfninni.
Í dag heiðrum við í bæjarstjórninni tvo einstaklinga sem hafa ekki aðeins verið framúrskarandi í sínu starfi heldur einnig verið ómetanlegur hluti af okkar samfélagi. Þeir hafa gefið tíma, orku og ástríðu til að efla menningu og stuðla að betra samfélagi fyrir okkur öll. Með því að fagna þeim í dag, minnumst við jafnframt þess að hver einstaklingur hefur áhrif á umhverfi sitt og að kærleikur og skuldbinding til samfélagsins getur leitt af sér betra og sterkara samfélag.
Fyrri viðurkenninguna hlýtur kona sem kemur úr Flóanum, en hingað í Hólminn kom hún um tvítug og nýgift. Konan sem hér um ræðir hefur heldur betur sett mark sitt á bæjarlífið í gegnum tíðina, bæði hvað varðar atvinnu- og menningarlíf og hana mætti með sanni kalla frumkvöðul. Hún, ásamt manni sínum, átti stóran þátt í uppbyggingu og þróun ferðaþjónustu í sveitarfélaginu og hefur komið að ýmsum verkefnum sem hafa stuðlað að nýjum möguleikum í atvinnulífi. Hennar framlag nær einnig út fyrir ferðaþjónustuna. Hún hefur ávallt verið öflug í félagsstörfum, þar á meðal í störfum fyrir Emblurnar og Eflingu, og tekið virkan þátt í að vinna að framfaramálum fyrir samfélagið í heild sinni. Ég vil biðja Svanborgu Siggeirsdóttur um að koma upp og þiggja smá virðingarvott frá sveitarfélaginu sem unninn er af Láru Gunnarsdóttur.
Seinni viðurkenningin fellur í skaut konu sem hefur lagt sitt af mörkum til að standa vörð um menningararf og sögulegt umhverfi Stykkishólms eins og uppbygging á hótel Egilsen ber vott um. Af elju og framsýni hefur hún svo eflt menningarlíf í Stykkishólmi svo um munar. Hún var forsprakki þess að stofna Júlíönuhátíðina, menningarviðburð sem hefur farið fram óslitið frá árinu 2013. Hátíðin sem er orðin fastur menningarliður í Stykkishólmi sameinar listafólk, fyrirtæki, stofnanir og bæjarbúa, og skapar vettvang fyrir samvinnu, gleði og listsköpun. Þar hefur hún stuðlað að því að styrkja tengsl milli menningar og daglegs lífs bæjarbúa eins og t.d. samstarf við skóla bæjarins er gott dæmi um. Við viljum biðja Grétu Sigurðardóttur að koma hingað upp og þiggja virðingarvott frá sveitarfélaginu sem kemur einnig úr smiðju Láru Gunnarsdóttur.
Þétt skipuð dagskrá
Dagskráin Norðurljósanna í ár er afar vegleg en hún hefur verið borin út í öll hús og er fólk hvatt til að kynna sér hana vel og njóta helgarinnar. Dagskránna má eining finna hér.