Fara í efni

Sumardagurinn fyrsti í Stykkishólmi

18.04.2023
Fréttir

Sumardagurinn fyrsti verður haldinn hátíðlegur um land allt fimmtudaginn 20. apríl 2023. Byggðasafn Snæfellinga og Hnappdæla mun standa fyrir fuglabingói fyrir börn í tilefni þess að nú stendur yfir ljósmyndasýningin Fuglar á Snæfellsnesi eftir Daníel Bergmann. Einnig verður boðið upp á ratleik sem hefst við Norska húsið. Ratleikur og bingó hefjast kl. 13:00.  Að loknum ratleik verður boðið upp á grillaðar pylsur við Norska húsið.

Áður en ratleikurinn hefst mun bæjarstjóri rita undir þjónustusamning um stöðvalausa rafskútuleigu í Stykkishólmi. Samningurinn verður undirritaður kl. 12:45 fyrir utan Ráðhúsið. Íbúar og gestir sveitarfélagsins eru hvattir til að mæta og taka þátt í gleðinni á sumardaginn fyrsta.

Hoppað í Hólminum - Umhverfisvænn samgöngumáti

Rafskútuleigan Hopp opnar þjónustu sína í Stykkishólmi á sumardaginn fyrsta, en Hopp býður upp á skammtímaleigu á rafskútum/rafdrifnum hlaupahjólum. Fyrirkomulag rafskútuleigunnar í Stykkishólmi verður sambærilegt og þekkist annars staðar. Fólk notar smáforrit (app) til að finna næsta lausa hjól, aflæsir því og leggur af stað. Fyrir þjónustuna greiðir notandi upphafsgjald og mínútugjald samkvæmt verðskrá fyrirtækisins. 10 mínútna ferð á Hopp hjóli kostar notanda 430 kr. Þegar ferðinni er lokið er hægt að leggja rafskútunni hvar sem er innan þjónustusvæðisins. Hámarkshraði hjólanna er 25km/klst og komast þær hátt í 40km á einni hleðslu. 

Hægt er að kynna sér málið nánar á hopp.is

Sumar í Stykkishólmi
Getum við bætt efni síðunnar?