Stykkishólmsbær og Helgafellssveit þjófstarta innleiðingu hringrásarhagkerfis
Síðastliðinn mánudag, 5. desember, var haldinn íbúafundur á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi. Þrjú mál voru á dagskrá fundarins: nafn sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar, markmið fjárhagsáætlunar sveitarfélagsins og helstu lykiltölur og loks sorpmál og fyrirhugaðar breytingar í flokkun og endurvinnslu.
Nafn sveitarfélagsins
Bæjarstjóri kynnti greinargerð Örnefnanefndar og bauð til samtals um niðurstöðu Örnefnanefndar og fyrirliggjandi tillögur. Bæjarstjórn tekur endanlega ákvörðun um nafn sveitarfélagsins en málið er á dagskrá 7. fundar bæjarstjórnar sem fram fer í dag, fimmtudaginn 8. desember.
Fjárhagsáætlun
Bæjarstjóri gerði grein fyrir undirbúning og vinnu við gerð fjárhagsáætlunar og Haraldur Reynisson, endurskoðandi, fór yfir markmið fjárhagsáætlunar og helstu lykiltölur. Síðari umræða um fjárhagsáætlun er á dagskrá bæjarstjórnar í dag, fimmtudaginn 8. desember.
Sorp- og endurvinnslumál
Umfangsmiklar lagabreytingar voru samþykktar á Alþingi í júní 2021 um flokkun og endurvinnslu, hollustuhætti, mengunarvarnir, úrvinnslugjald og fleira. Þessar breytingar koma flestar til framkvæmda 1. janúar 2023 og er ætlað að skapa skilyrði fyrir myndun hringrásarhagkerfis svo stuðla megi að sjálfbærri auðlindanotkun og draga úr myndun úrgangs.
Forsvarsmenn Íslenska gámafélagsins mættu til fundar og kynntu þær breytingar sem fyrir höndum eru. Breytingarnar fela m.a. í sér að heimilum verður skylt að flokka í fjóra flokka en ekki þrjá eins og gert hefur verið í Hólminum undanfarin ár. Flokkarnir fjórir sem verða við heimilin eru pappi og pappír, plast, almenn úrgangur og svo lífrænn úrgangur. Flokkunum fylgja samræmdar merkingar FENÚR sem munu gilda fyrir alla flokkun á Íslandi, allar tunnur fá því nýjar límmiðamerkingar. Græna tunnan hefur hingað til leikið marga grátt þar sem hún vill fyllast fljótt þar sem íbúar standa sig vel í flokkun. Fjórða tunnan er því fýsilegur kostur þar sem íbúar geta þá flokkað í tvær tunnur það sem áður fór í eina græna.
Fjórða tunnan bætist við
Nýrri tunnu verður dreift 15.-20. desember 2022 en hún er ætluð undir plast. Hlutverk grænu tunnunnar breytist því og í hana fer aðeins pappír og pappi. Íbúar geta einnig átt von á dreifibréfi þar sem skýrt verður frá þessari breytingu og farið yfir flokkunarleiðbeiningar. Íbúum á litlum heimilum sem ekki hugnast að hafa fjórar tunnur geta óskað eftir tvískiptri tunnu fyrir plast og pappa með því að hafa samband við Ráðhús sveitarfélagsins.Tvískipa tunnan er þó dýrari kostur og með henni gefst minna pláss til flokkunar.
Með því að flokka pappa og plast í sitt hvora tunnuna næst betri flokkun en með tvískiptri tunnu þar sem hætt er við því að flokkarnir blandist saman. Umhverfisvænni og hagkvæmasti kosturinn er því að taka inn fjórðu tunnuna en með henni hafa íbúar einnig meira pláss til flokkunar. Innleiðing fjórðu tunnunnar er besta leiðin til að halda úrgangs- og efnisstraumum hreinum og lágmarka smit á milli flokka og skapa þannig hreinni og verðmætari efnisstrauma til endurvinnslu. Fyrirkomulagið kemur jafnframt til með að skapa sveigjanleika fyrir íbúa og hagkvæmni og með lægri álögum til skemmri og lengri tíma.
Á íbúafundinum sköpuðust jákvæðar umræður og var ekki annað að heyra en íbúar tækju breytingum á flokkun og endurvinnslu vel.
Af hverju fjórar tunnur í stuttu máli?
- Umhverfisvænt
- Hagkvæmast
- Hentar best fyrir þá sem standa sig best í flokkun
Grenndarstöðvar
Nýjar grenndarstöðvar verða einnig settar upp í sveitarfélaginu, þar geta íbúar losað sig við málma, gler og textíl. Grenndarstöðvarnar eru í smíðum og verða settar upp á næsta ári, en á meðan fara málmar og gler í Snoppu og textíl í gám Rauða krossins hjá B. Sturluson.
Áfram í fararbroddi í umhverfismálum
Stykkishólmur hefur um langa tíð verið í fararbroddi í endurvinnslu- og flokkunarmálum. Í janúar 2008 hófust íbúar handa við að flokka allt sorp fyrstir landsmanna í þriggja tunnu kerfið. Árið 2008 fékk Stykkishólmur ásamt öðrum sveitarfélögum á Snæfellsnesi umhverfisvottun Earth Check og hefur hún verið endurnýjuð árlega síðan þá. Svæðið hefur því getið af sér gott orð í umhverfismálum og er það bersýnilega vilji íbúa að haldi því flaggi hátt á lofti.
Á fundinum var greint frá því að til stæði að innleiða breytingar og hefja notkun á fjórðu tunnunni 1. janúar 2023. Að loknum umræðum við íbúa var hinsvegar ákveðið að flýta því til 21. desember nk. en þá verður græna tunnan tæmd næst. Fyrir þann tíma verða starfsmenn Íslenska gámafélagsins búnir að bæta fjórðu tunnunni við hjá íbúum. Eftir að græna tunnan verður tæmd 21. desember geta íbúar þá strax hafist handa við að flokka í fjórar tunnur. Þ.e. í stað þess að setja plast og pappa saman í tunnu fer plast í aðra og pappi í hina. Íbúar ættu því að hafa nóg pláss til að flokka plast og pappa eftir jólin.
Stykkishólmsbær og Helgafellssveit ætla því að þjófstarta innleiðingu hringrásarhagkerfis og byrja 21. desember nk. en ekki 1. janúar 2023 eins lög gera ráð fyrir.