Fara í efni

Stykkishólmsbær fær styrk til gerðar söguleiðar um Búðanes og Hjallatanga

15.03.2021
Fréttir

Styrkur til gerðar söguleiðar um Búðanes og Hjallatanga.

Á dögunum var tilkynnt um úthlutaða styrki úr Landsáætlun um uppbyggingu innviða og þar var tilkynnt að styrkur hafi verið veittur til heildarhönnunar svæðisins við Búðanes og Hjallatanga á árunum 2021-2023 með það að markmiði að útbúin verði söguleið um svæðið þar sem saga Stykkishólms hófst. Verkefnið er samstarfsverkefni Stykkishólmsbæjar og Minjastofnunar Íslands, enda er svæðið ríkt af menningarminjum auk þess sem þar er mikil náttúrufegurð. Í Búðanesi hófst verslunarsaga Stykkishólms og eru þar minjar tengdar verslun á svæðinu, þar á meðal friðlýstar búðatóftir. 
Það er stefna Stykkishólmsbæjar að vinna markvisst að því að bæta aðgengi íbúa og gesta að útivist og náttúruupplifun í sveitarfélaginu. Er það gert m.a. með því að auka aðgengi að göngustígum, merkja gönguleiðir og koma upp leiðavísum og upplýsingaskiltum þar sem við á. Svæðið er upplagt sem útivistar- og ferðamannasvæði og þarfnast góðra innviða, s.s. stíga og skilta. Aukið og betra aðgengi að Búðanesi og Hjallatanga mun styrkja þá stefnu.
Verkefnið, sem unnið er í samvinnu við Minjastofnun, skiptist í þrjá áfanga: hönnun svæðisins, skiltagerð og lagningu/framkvæmd gönguleiða/stíga. 

  • Hönnun svæðisins mun hafa að leiðarljósi þá stefnu að allir innviðir skulu falla vel að umhverfinu og virða náttúru og menningarminjar á svæðinu. Bæta á aðgengi og upplýsingamiðlun án þess að ganga á auðlindir svæðisins, þ.e. með því að hrófla eins lítið við svæðinu og hægt er. Einnig þarf að huga að öryggi gesta svæðisins þar sem fjara og klettar eru víða nálægt gönguleiðum.
  • Markmið skilta á svæðinu verður að varpa ljósi á þann fjölda menningarminja sem á svæðinu er sem og þann mikla menningararf sem svæðinu tengist og vekja áhuga á sögu þess og upphafi byggðar í Stykkishólmi.
  • Nauðsynlegt er að yfirfara stíga á svæðinu og byggja upp eða bera ofan í eftir þörfum. Vegna viðkvæmni svæðisins, sé litið til nálægðar við menningarminjar, gæti á sumum svæðum þurft að stýra umferð með afmörkunum frekar en lagningu eiginlegra stíga, þ.e. huga þarf að útfærslu stýringar og stígakerfis út frá forsendum svæðisins hverju sinni.
Verkefnið er í samræmi við Svæðisskipulag Snæfellsness, Umhverfisvottun Snæfellsness og Áfangastaðaáætlun Vesturlands. En í Áfangastaðaáætlun Vesturlands eru m.a. strandsvæðið og útivistarstígar í Stykkishólmi forgangsverkefni. Framkvæmdin fellur einnig vel að áherslum Svæðisgarðs Snæfellsness sem setur aðgengi að strandlínu/fjörum og strandleið um Snæfellsnes sem forgangsverkefni. Umræddur stígur mun bæta stýringu og landvernd og hvetja gesti Snæfellsness til að dvelja lengur og m.a. nýta sér gönguleiðir á völdum stöðum við strandlínu Snæfellsness.


Getum við bætt efni síðunnar?