Fara í efni

Stykkishólmsbær auglýsir laus sumarstörf fyrir námsmenn

14.05.2020
Fréttir

Stykkishólmsbær auglýsir laus sumarstörf fyrir námsmenn 18 ára og eldri. Um er að ræða þátttöku Stykkishólmsbæjar í átaksverkefni á vegum vinnumálastofnunar til að fjölga tímabundnum störfum fyrir námsmenn nú í sumar í ljósi aðstæðna af völdum COVID-19. Meðal starfa eru fjölbreytt umhverfisstöf, störf sem snúa að stjórnsýslu og þjónustu við bæjarbúa, störf sem tengjast atvinnumálum og ýmis skráningarvinna.

Verkefnalýsingar má sjá hér að neðan.

  • Umhverfisverkefni tengd umhverfi Íþróttamannvirkja, tjaldsvæðis, leik- og útisvæða, kirkjugarðs, hafnarinnar og annarra svæða í Stykkishólmi.
  • Umhverfisverkefni tengd gróðursetningu og göngustígagerð í landi Stykkishólms.
  • Ýmis skráningarverkefni, skjala- og textagerð í tengslum við starfsemi sveitarfélagsins. Þar má nefna markaðs og kynningarefni, þ.m.t. fyrir gesti, húsaskráning, skráningar á skipulags- og byggingarsviði, samskipti við íbúa og gagnaöflun o.fl.
  • Sértæk verkefni á sviði umhverfis- og/eða skipulagsmála, t.d. skipulagsvinna, teiknivinna, kostnaðaráætlanir o.fl.
  • Ýmis skráningarverkefni tengd bókasafni og ljósmyndasafni. Stefnur Stykkishólmsbæjar í ýmsum málaflokkum sem ekki eru til staðar í dag, t.d. fjölskyldu- og félagsmála og íþróttamálum, og endurskoðun á núverandi stefnum.
  • Útbúa efni fyrir nýbúa og heimamenn um nærumhverfi.
  • Áætlanir og greining á tækifærum til nýsköpunar í atvinnumálum og framtíðarmöguleikum svæðisins.
  • Sögutengt verkefni sem bæði snúa að því að varðveita sögu Stykkishólms og jafnframt skapa afþreyingu.
  • Setja upp listasýningar og/eða vera með viðburði á götum bæjarins, uppsetning á afþreyingu fyrir ferðafólk og heimafólk í gegnum tónlist, leiklist, myndlist o.fl. með það að markmiði að styðja við unga skapandi einstaklinga og blása lífi í bæjarmenninguna yfir sumartímann.
  • Útbúa kort og leiðsögn fyrir hópa um gönguleiðir sveitafélagsins ásamt því að efla upplýsingagjöf um gönguleiðir og áhugaverða staði í sveitafélaginu.
  • Ýmis fleiri verkefni tengd stjórnsýslu sveitarfélagsins.

Störfin eru auglýst til tveggja mánaða með möguleika á lengdum starfstíma í samráði við Stykkishólmsbæ. Umsækjendur eru beðnir að skila umsóknum í tölvupóst á netfangið rikki@stykkisholmur.is, ásamt fylgiskjölum sem krafist er hér fyrir neðan, og tilgreina hvaða verkefni viðkomandi vill helst sinna. Tekið skal fram að sveigjanleiki verður milli verkefna og því verða starfmenn ekki bundnir við einstaka verkefni sem fram koma hér að ofan. Æskilegt er að umsækjendur sé sveigjanlegir í starfi og hafi:

  • ríka þjónustulund,
  • góða skipulagshæfileika, geta unnið sjálfstætt og tekið frumkvæði,
  • góða hæfni í mannlegum samskiptum, stundvísi og jákvæðni
  • Ábyrgðartilfinningu og ánægju af því að vinna bænum sínum í hag.
  • Í störfum er tengjast stjórnsýslu, atvinnumálum og menningu og sögu er æskilegt að nemar hafi hæfni til að tjá sig í ræðu og riti á íslensku og er nám sem tengist starfinu kostur.

Umsóknarfrestur er til og með 24. maí 2020.

Laun eru greidd samkvæmt kjarasamningi Sambands íslenskra sveitarfélaga og Starfsmannafélags Dala- og Snæfellsnessýslu.

Nánari upplýsingar um störfin veita Magnús Ingi Bæringsson, Æskulýðs- og tómstundarfulltrúi, og Ríkharður Hrafnkelsson, mannauðs- og launafulltrúi, í síma 433-8100, en einnig má beina fyrirspurnum á netfangin; magnus@stykkisholmur.is og rikki@stykkisholmur.is

Verkefnin byggja á umsóknum í aðgerðarpakka tvö frá ríkisstjórninni þar sem gert er ráð fyrir framlagi til úrræða í atvinnu fyrir námsmenn 18 og eldri.

Forsendur og skilyrði:

Hér eru helstu forsendur og skilyrði fyrir þátttöku í þessu átaksverkefni sem er nauðsynlegt að hafa til hliðsjónar:

  • Umsókn þarf að fylgja staðfestingu á námi milli anna. (þ.e. séu að koma úr námi og séu skráðir í nám að hausti).
  • Ráðningartími námsmanna er a.m.k. tveir mánuðir. Miðað er við tímabilið frá 1. júní ? 31. ágúst. Í boði að skrá sig í hlutastarf á móti öðru starfi og vinnutími þá samkomulag. Í skoðun að Sveitarfélagið tryggi þriðja mánuðinn.
  • Námsmenn þurfa að vera 18 ára á árinu.
  • Laun skulu aldrei vera lægri en gildandi kjarasamningar segja til um vegna viðkomandi starfs.
  • Um ráðningar vegna þessa verkefnis gilda sömu reglur og gilda almennt um ráðningar starfsmanna sveitarélaga.
  • Svara þarf öllum umsækjendum sem sækja um starf.
  • Getum við bætt efni síðunnar?