Fara í efni

Stofnfundur Matarklasa Snæfellsness

20.01.2020
Fréttir

Þann 23. janúar nk. verður haldin stofnfundur Matarklasa Snæfellsness í Bæringsstofu, Grundarfirði, frá kl. 15 til 17.

Eins og íbúar Snæfellsness vita þá er svæðið ríkt frá náttúrunnar hendi þegar kemur að mat og endurspeglast það í starfsemi á svæðinu. Hér eru stöndug sjávarútvegsfyrirtæki, blómlegur landbúnaður og hágæða veitingastaðir sem bjóða upp á mat úr héraði. Þessi áhersla á mat kom einnig sterklega í ljós við gerð svæðisskipulags Snæfellsness og í vinnu við Svæðisgarðinn Snæfellsnes. Það er skýr vilji til að matvælaframleiðsla fari fram í beinum og nánum tengslum við náttúruna og með sjálfbæra nýtingu auðlinda að leiðarljósi. Lögð er áhersla á nýsköpun, auknu aðgengi að hráefni og matvælum af Snæfellsnesi og að efla þekkingu á matvælaframleiðslu, menningu og hefðum.

Á sama tíma og markmiðið er að gera Snæfellsnes  að áfangastað fyrir sælkera þá er stefnan að auka aðgengi íbúana að snæfellsku hráefni.

Matarklasinn verður vettvangur fyrir samstarf í kringum þessi markmið og einnig tækifæri fyrir hagsmunaaðila að hittast, deila þekkingu og koma fram með hugmyndir um hvernig hægt er að efla og styrkja matartengda starfsemi á svæðinu.

Ef þú vinnur við frumframleiðslu á mat ? hvort sem það er sjávarútvegur eða landbúnaður, rekur veitingastað, mötuneyti eða kaffihús, vinnur við matvælaframleiðslu á einn eða annan hátt, kennslu eða menningatengda starfsemi og/eða hefur mikinn áhuga á þessum málefnum þá endilega komdu á stofnfund matarklasans.

Ef þig vantar frekari upplýsingar ekki hika við að hafa samband: elin@snaefellsnes.is

Dagskrá

15:00-15:15 Kynning á matarverkefnum Svæðisgarðsins og framtíðarsýn

15:15-16:00 Umræður. Fundargestir fá tækifæri til að hafa áhrif á vinnuna framundan og stefnuna.

16:00-16:20 Kynning á Sælkeraferðum um Snæfellsnes, verkefni styrkt af Matarauði Íslands. Útskýrt verður fyrir hverja þetta verkefnið er ætlað og hvaða leikreglur verða hafðar til hliðsjónar við framkvæmd þessa verkefnis.

16:20- 16:45 Umræða um Sælkeraferðir.

16:45- 17:00 Næstu skref


Getum við bætt efni síðunnar?