Fara í efni

Stöðugt ástand í Stykkishólmi - fækkar í sóttkví

30.09.2020
Fréttir

Í gær fóru 12 einstaklingar í sýnatöku í Stykkishólmi og reyndist enginn þeirra smitaður. Tvö sýni voru tekin í fyrr í dag en enginn skráður í sýnatöku á morgun enn sem komið er. Það gefur ákveðna vísbendingu um þróunina og umfangið og gefur til kynna að við séum á réttri leið.

Þær varúðarráðstafanir sem teknar voru upp sl. þriðjudag hafa ná tilætluðum árangri og ber að þakka íbúum fyrir þeirra framlag og skilning á stöðunni.

TILSLAKANIR Í SJÓNMÁLI

Ef fer sem horfir og fleiri smit greinast ekki utan sóttkvíar í Stykkishólmi er gert ráð fyrir tilslökunum á áður auglýstum varúðarráðstöfunum á næstu dögum. Skólahald yrði þá með hefðbundnum hætti frá og með mánudegi sem og starfsemi annarra stofnanna bæjarins, áfram verður þó lögð rík áhersla á sóttvarnir. Heimsóknir á dvalarheimili aldraðra verða þó með einhverjum takmörkunum en forstöðumaður kynnir þær fyrir íbúum og aðstandendum.

Allt miðar þetta þó við að þróun smita verði okkur í hag. Íbúar eru áfram hvattir til að fylgjast vel með tilkynningum frá skólum og öðrum stofnunum Stykkishólmsbæjar.

FÖRUM ÁFRAM VARLEGA

Vakin er athygli á því að nýtt COVID-19 smit hefur nú greinst í GrundarfirðiAllur er varinn góður og eru íbúar því hvattir til að huga áfram vel að persónubundnum smitvörnum og fylgjast grannt með þróun mála.

Þá eru þeir sem hafa einkenni COVID-19 hvattir til að hafa samband símleiðis við heilsugæslustöð sem metur þörf á sýnatöku.

Nánari upplýsingar um COVID-19 má finna á covid.is.

Getum við bætt efni síðunnar?