Fara í efni

Snæhopp segir upp samstarfi um Hopp hjól

12.05.2023
Fréttir

Snæhopp ehf. hefur sagt upp þjónustusamningi sem gerður var við Sveitarfélagið Stykkishólm. Í erindi frá framkvæmdastjóra Snæhopp kemur fram að stjórn félagsins hafi talið nokkur ákvæði í þjónustusamningnum orðið pólitískari en til var ætlað. Það hafi dregið nafn og vörumerki Hopp inn í umræðu sem geti skekkt ímynd félagsins og því var ákveðið að rifta samningnum.

Þjónustumiðstöðin mun ekki þjónusta hjólin

Sem kunnugt er ritaði bæjarstjóri undir samstarfsyfirlýsingu um stöðvalausa rafskútuleigu í Stykkishólmi á sumardaginn fyrsta síðastliðinn. Sveitarfélagið gerði sérstakan þjónustusamning við Snæhopp þar sem kveðið var á um að sveitarfélagið myndi annast að hlaða og skipta um batterí á hjólunum á virkum dögum. Þess í stað fengju allir starfsmenn sveitarfélagsins, um 150 manns, gjaldfrjáls afnot af hjólunum á milli kl. 08:00 – 16:00 virka daga. Til viðbótar fengi sveitarfélagið eitt hjól til afnota fyrir Ráðhúsið og annað fyrir Þjónustumiðstöðina. Vildi sveitarfélagið með þessu hvetja starfsfólk sitt til að nýta græna og umhverfisvæna ferðamáta, takmarka notkun einkabílsins og minnka kolefnisfótsporið. Ekki verður þó af þessu þar sem Snæhopp hefur sagt samstarfinu upp.

Hopp verður áfram í Hólminum

Hjólin verða áfram í Stykkishólmi og fyrirkomulag þeirra óbreytt fyrir hinn almenna notenda. Framvegis verða hjólin þó þjónustuð af Snæhopp ehf. en ekki sveitarfélaginu. Eigendur Snæhopps eru Friðþjófur Orri Jóhannsson, Lilja Hrund Jóhannsdóttir og Benedikt Gunnar Jensson sem öll eru búsett í Snæfellsbæ. Ábendingar og athugasemdir vegna hjólanna berist framvegis til Snæhopp.

Hopp hjól í Stykkishólmi
Getum við bætt efni síðunnar?