Á fundi bæjarstjórnar Stykkishólmsbæjar 13. desember 2018 var skipuð ráðgjafarnefnd vegna áhuga á rannsóknar-, vinnslu- og afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi. Nefndin er skipuð eftirfarandi einstaklingum sem eru allir íbúar í Stykkishólmi:
- Ásgeir Gunnar Jónsson, formaður félags æðarbænda við Breiðafjörð
- Guðbjörg Egilsdóttir, atvinnurekandi
- Halldór Árnason, hagfræðingur, formaður nefndarinnar
- Jón Einar Jónsson, forstöðumaður Rannsóknaseturs Háskóla Íslands á Snæfellsnesi
- Jón Helgi Jónsson, landeigandi og þangsláttumaður
- Kári Geir Jensson, sjómaður og þangsláttumaður
- Ólafur Örn Ásmundsson, fulltrúi grásleppusjómanna
- Róbert Arnar Stefánsson, forstöðumaður Náttúrustofu Vesturlands
- Sæþór Heiðar Þorbergsson, atvinnurekandi
- Unnur María Rafnsdóttir, atvinnurekandi
Hlutverk nefndarinnar var:
- Að fara yfir og meta fyrirliggjandi gögn varðandi fyrirhugaða rannsóknar-, vinnslu- og
afurðamiðstöð þangs í Stykkishólmi og leggja mat á kosti og galla sem snúa að starfseminni.
- Að meta hvort auka má framtíðarverðmæti svæðisins og breytileika afurða með mismunandi
aðferðum til sláttar eftir svæðum, s.s. að handtína, handslá eða slá með vélarafli, og/eða að rækta
þörunga á línum.
- Að útfæra og koma með tillögur að viðmiðum Stykkishólmsbæjar í áframhaldandi viðræðum.
- Að leggja mat á fjárhagslegan ávinning bæjarins af fyrirhugaðri starfsemi ef af verður.
- Að gera tillögu að staðsetningu á starfseminni og hugsanlegum breytingum á skipulagi í því
sambandi.
- Að kalla til fundar, telji nefndin þörf á, aðila sem áhuga hafa á að hefja starfsemi í Stykkishólmi til
þess að leggja mat á fyrirhugaða starfsemi þeirra hér í Stykkishólmi og/eða að kalla til fundar þá
sem veitt geta ráðgjöf eða hafa sérstaka þekkingu á málefnum sem nefndin fjallar um.
HELSTU NIÐURSTÖÐUR SKÝRSLUNNAR VORU EFTIRFARANDI: - Ráðgjafarnefndin telur að þörungavinnsla í Stykkishólmi, sem vinnur safa og mjöl úr þörungum, muni styrkja búsetuskilyrði bæjarins, auka fjölbreytni í atvinnulífi og styrkja rekstrargrundvöll margra þjónustufyrirtækja. Ef vel er haldið á málum og ákveðnar forsendur standast, getur þörungavinnsla í Stykkishólmi orðið til þess að auka rannsóknir á lífríki Breiðafjarðar og sjálfbæra nýtingu sjávarfangs úr Breiðafirði til aukinnar verðmætasköpunar.
- Grundvallaratriði er að nýta allt hráefni vel og að öflunin sé sjálfbær, bæði gagnvart fyrirhuguðum nytjategundum og því lífríki sem á þeim byggja. Stefna þurfi að því að hámarka virði hráefnisins og vinna alltaf að þróun betri aðferða og vinnslu efna úr því. Rannsóknar- og þekkingarfyrirtækið MATÍS ohf. sem m.a. leggur áherslu á rannsóknir og ráðgjöf á íslensku sjávarfangi hefur áhuga á að koma áfram að rannsóknum á íslensku sjávarfangi á landsbyggðinni með það að markmiði að auka nýtingu og verðmæti sjávarafurða.
- Ráðgjafarnefndin telur það miklu skipta fyrir Stykkishólmsbæ að það fyrirtæki sem reisir þörungavinnslu í Stykkishólmi sé tilbúið að skuldbinda sig til að byggja upp vinnslu með vísindalegri nálgun við hlið hinnar vinnslunnar, t.d. í samstarfi við íslensk sprotafyrirtæki, auk þess að vera í virku samstarfi við vísindasamfélagið á Íslandi.
- Vinnsla úr hráefni sjávarfangs úr Breiðafirði, líkt og klóþangs, getur styrkt stoðir Stykkishólms í ferðaþjónustu með vísan til ?Matarkistu Breiðafjarðar? og sögulegs mikilvægis hráefnisöflunar við Breiðafjörð. Þangsetur og framboð á þangi og þara til manneldis getur verið aðdráttarafl fyrir ferðafólk um leið og það getur kynnt sér framleiðsluaðferðir.
- Sveitarfélagið á að óska eftir samkomulagi við viðkomandi fyrirtæki um sameiginlega sýn á öflun og vinnslu, t.d. að stuðla að þekkingarkræfri starfsemi í samvinnu við Matís ohf. eða aðra íslenska vísindamenn. Æskilegt væri að fyrirtæki sem starfaði við þörungavinnslu í Stykkishólmi setti ákveðið hlutfall af tekjum í rannsóknir og þróun og að kveðið væri á um það í viljayfirlýsingum og öðrum samningum.
Fjárhagslegur ávinningur stykkishólmsbæjar
- Fjárhagslegur ávinningur Stykkishólmsbæjar og bæjarsamfélagsins með tilkomu þörungavinnslu er ótvíræður án þess að unnt sé að meta hann af mikilli nákvæmni.
- Gert er ráð fyrir að fjöldi starfa við nýja þörungavinnslu verði um 20 talsins þegar verksmiðjan er komin í full afköst auk allt að 8 afleiddra starfa.
- Lauslega má áætla út frá gefnum forsendum að árlegur fjárhagslegur ávinningur Stykkishólmsbæjar geti numið um 30 milljónum króna auk afleiddra tekna og aukinnar veltu hjá mörgum verslunum og þjónustufyrirtækjum sem starfrækt eru í Stykkishólmi.
Val á fyrirtæki
- Tvö fyrirtæki hafa farið þess á leit við yfirvöld í Stykkishólmsbæ að fá leyfi til að stofna þörungavinnslu í Stykkishólmi, annars vegar hið kanadíska Acadian Seaplants Ltd. og hins vegar Íslenska kalkþörungafélagið ehf., sem er í írskri eigu.
- Bæði fyrirtækin virðast hafa burði og reynslu til að koma þörungavinnslu á fót í Stykkishólmi.
- Nefndin fékk fulltrúa þeirra á fundi og þegar hún mat saman allar þær upplýsingar sem fram komu þar og í því efni sem fyrirtækin sendu nefndinni, þá er það niðurstaða hennar að mæla með að Stykkishólmsbær ræði fyrst við Acadian Seaplants Ltd., verði ákvörðun tekin um að halda áfram með málið.
- Fleiri þættir eins og ákjósanleg staðsetning vinnslunnar hafa einnig áhrif á þetta mat nefndarinnar.
- Það er mat ráðgjafarnefndarinnar að Acadian Seaplants hafi meiri burði og vísindalega þekkingu og reynslu en ÍSKALK ehf. til að koma á fót og styðja við rannsóknir á efnisinnihaldi þara og þangs með virðisaukandi framleiðslu að leiðarljósi í samstarfi við íslenska aðila eins og MATÍS ohf.
- Í slíku samstarfi, leitt af hæfum einstaklingum, gætu falist frekari tækifæri fyrir atvinnuuppbyggingu virðisaukandi framleiðslu sjávarfangs úr Breiðafirði.
Æskileg staðsetning og skilyrði fyrir rekstrarleyfi
- Við umfjöllun um heppilega staðsetningu fyrir þörungavinnslu þurfti nefndin að taka tillit til gildandi laga, m.a. um skipulag og mengunarvarnir, þarfar fyrir hafnaraðstöðu, hvernig verksmiðjan félli að annarri atvinnustarfsemi og íbúabyggð og hvernig umferð með aðföng og afurðir yrði háttað. Óháð staðsetningu þarf ný þörungavinnsla að uppfylla ákvæði ýmissa laga og reglna um hollustuhætti og mengunarvarnir til að fá starfsleyfi auk þess að vera á skipulögðu iðnaðar- eða hafnarsvæði.
- Það er mat ráðgjafarnefndarinnar að heppilegasta staðsetning þörungavinnslu sé suðvestan flugvallar.
- Þessi kostur er sá sem forsvarsmönnum Acadian Seaplant hugnast best og er háður því að fyrirtækið kosti gerð bryggju og aðkeyrslu frá bryggju að verksmiðjuhúsi.
- Staðsetningin er fjarri íbúðabyggð, lágmarkar umferð að og frá vinnsluhúsi og akstur á hráefni um götur bæjarins er óþarfur.
- Á móti kemur að staðsetningin kallar á breytingu á aðalskipulagi og gerð deiliskipulags sem kostar tíma og fjármuni.
- Semja þarf við Isavia um að minnka núverandi flugverndarsvæði þannig að flugbrautin verði skipulögð t.d. sem 800 metra braut. Stykkishólmsbær þarf að leggja í kostnað við veitukerfi að vinnsluhúsi og aðkeyrslu frá vinnsluhúsi að núverandi vegastæði.
- Önnur möguleg staðsetning er öðru hvoru megin við Skipavíkurhöfn.
- Það er vænlegasta staðsetningin að mati forsvarsmanna ISKALK ehf.
- Um er að ræða skipulagt svæði fyrir starfsemi sem þessa sem liggur við sjó.
- Fyrir hendi er viðlegukantur á svæðinu þannig að unnt er að koma aflanum beint úr skipi yfir í vinnsluhús án þess að aka hráefninu um götur bæjarins.
- Hægt er að koma vinnsluhúsinu fyrir án þess að það kalli á umtalsverðar uppfyllingar.
- Framkvæmdakostnaður við fráveitu og aðkeyrslu er minni en við aðrar staðsetningar.
- Á móti vegur að ekki er vitað með vissu hvort ný þörungavinnsla nær að uppfylla fyrrgreind ákvæði laga og reglna um hljóð-, ryk- og lyktarmengun.
- Vinnsluhúsið er nærri íbúðabyggð (um 175 m að húsum við Sundabakka og Neskinn) og skyggir á núverandi útsýni nokkurra íbúðahúsa í nágrenninu.
Önnur atriði
- Fram kom á fundum nefndarinnar að í ljósi þess að einungis er verið að nýta tæplega helmings þess klóþangs sem heimilt er að afla í fjörum Breiðafjarðar er líklegt að verði þörungavinnsla ekki sett upp í Stykkishólmi mun hún verða sett upp annars staðar við Breiðafjörð.
- Í samræmi við stefnu Stykkishólmsbæjar um innleiðingu sjálfbærni verði stuðlað að því að tryggja fjárhagslega, samfélagslega og umhverfislega sjálfbærni verkefnisins, með langtímamarkmið og hagsmuni íbúa Stykkishólmsbæjar að leiðarljósi. Í því felst m.a. að starfsemin, þar á meðal öflun hráefnis, verði ekki á kostnað þeirrar nýtingar sem þegar er á Breiðafirði, svo sem æðarræktar eða veiða og ræktunar sjávarfangs.
Skýrsluna í heild sinni má sjá með því að smella hér eða á skýrsluna hér fyrir neðan: