Fara í efni

Skrifað undir samninga um skólaþjónustu í Stykkishólmi

10.05.2023
Fréttir

Í febrúarmánuði óskaði sveitarstjórn Eyja- og Miklaholtshrepps eftir formlegum viðræðum við Sveitarfélagið Stykkishólm um að veita börnum með lögheimili í Eyja- og Miklaholtshreppi skólaþjónustu, þ.e. leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla, í ljósi þess að til stæði að loka Laugagerðisskóla sökum þess hve þungur rekstrarkostaður væri.

Jákvæð viðbrögð

Erindið var tekið fyrir á 9. fundi bæjarráðs Stykkishólms þar sem bæjarráð tók ákvætt í erindið og fól bæjarstjóra, ásamt oddvitum beggja lista, að semja við fulltrúa Eyja-og Miklaholtshrepps um leik-, tónlista- og grunnskólaþjónustu fyrir Eyja- og Miklaholtshrepp.

Samningar samþykktir

Í kjölfar þeirrar vinnu sem þá hófst samþykkti bæjarstjórn Stykkishólms, á 13. fundi sínum, samninga við Eyja- og Miklaholtshrepp. Um er að ræða fjóra samninga en sérstakur samningur er gerður fyrir hverja skólastofnun, þ.e.a.s. einn fyrir grunnskóla, einn fyrir leikskóla og einn fyrir tónlistarskóla. Þar að auki er einn yfirsamningur sem rammar hina þrjá inn og er m.a. sérstaklega ætlaður til að jafna stöðu barna í Eyja- og Miklaholtshreppi við börn sem búa í Sveitarfélaginu Stykkishólmi með tilliti til íþrótta- og tómstundastarfs.

Samkvæmt yfirsamningnum tekur Stykkishólmur að sér að þjónusta íbúa með lögheimili í Eyja- og Miklaholtshreppi um leikskóla, grunnskóla og tónlistarskóla. Þá tekur samningurinn jafnframt til íþrótta- og tómstundarstarfs barna og unglinga að því marki sem það snýr að þjónustu Stykkishólms. Samningurinn tryggir þannig börnum og unglingum í Eyja- og Miklaholtshrepp m.a. aðgang að félagsstarfi unglinga, íþróttaskóla og frístund.

Hagsmunir nemenda að leiðarljósi

Í samningnum sem snýr að grunnskólamálum kemur fram að Eyja- og Miklaholtshreppur kosti stuðningsfulltrúa til tímabundinnar aðlögunar nemenda úr Eyja- og Miklaholtshreppi við Grunnskólann í Stykkishólmi. Er þetta gert til að auðvelda nýjum nemendum að aðlagast nýjum aðstæðum og breyttu umhverfi.

Þá er nemendum úr Eyja-og Miklaholtshreppi einnig tryggt aðgengi að rými frá loknu skólahaldi hvers nemenda fram að heimkeyrslu eða fram að tómstund.

Samningar undirritaðir

Í dag, miðvikudaginn 10. maí, rituðu Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri Stykkishólms, og Sigurbjörg Ottesen, oddviti Eyja- og Miklaholtshrepps, undir samningana fjóra.

Að sögn Jakobs Björgvins tekur sveitarfélagið fagnandi á móti nýjum nemendum. „Lagt var upp með að finna lendingu í þessu máli með hagsmuni nemenda að leiðarljósi og hafa nú náðst samningar sem eru sanngjarnir fyrir báða aðila að mínu mati. Við erum ákaflega stolt af okkar skólastarfi og öflugu starfsfólki skólanna hér í Stykkishólmi. Hér er rík hefð fyrir góðu skólastarfi. Innviðir eru góðir og hér þrífst einnig öflugt íþrótta- og félagslíf eins og þekkt er og jákvætt að geta boðið fleirum að njóta góðs af því“- segir Jakob Björgvin.

Sigurbjörg tekur í sama streng og segir afar ánægjulegt að hafa fundið farsælan farveg fyrir skólaþjónustu barna í sveitarfélagi sem hefur metnað til þess að taka vel á móti nýjum nemendum. „Það voru þung skref að taka fyrir sveitarstjórn að þurfa að loka Laugagerðisskóla, en sú ákvörðun var hins vegar mjög vel ígrunduð. Sveitarstjórn sá það sem ljóst var að rekstur skólans hafi verið mjög þungur síðustu ár og sveitarstjórn ekki séð leið til að skera meira niður í skólastarfinu án þess að það komi verulega niður á þjónustu við nemendur. Þá hafi skólinn verið á undanþágu frá Vinnueftirlitinu vegna húsnæðismála. Sveitarfélagið þurfti því að fara aðrar leiðir. Við erum því mjög ánægð með að hafa náð afar hagfelldum samningum um skólaþjónustu við Stykkishólm sem reka góða og framsýna skólastofnanir með starfsliði sem hefur metnað fyrir góðu skólastarfi og árangri nemenda. Einnig höfum við með samningunum tryggt aðgengi barna í okkar sveitarfélagi til jafns við börn í Stykkishólmi, sem það kjósa, að því öfluga íþrótta- og tómstundastarfi sem þar er starfrækt. Það teljum við einnig afar mikilvægt þegar til framtíðar er litið.“ – Segir Sigurbjörg Ottesen.

Sigurbjörg Ottesen og Jakob Björgvon S. Jakobsson rita undir samninga.
Getum við bætt efni síðunnar?