Sinfóníuhljómsveit Íslands í Stykkishólmi
Sinfóníuhljómsveit Íslands kemur í Stykkishólm og heldur glæsilega tónleika í íþróttahúsinu fimmtudagskvöldið 7. mars kl. 19.30. Dagskrá tónleikanna skartar þremur verkum eftir höfuðtónskáld klassíska tímans en auk þess hljóma þrjú hugljúf íslensk lög í flutningi hljómsveitarinnar og sameinaðra kóra á Snæfellsnesi. Kórinn skipa um 80 söngvarar úr Kirkjukór Ólafsvíkurkirkju, Kirkjukór Grundarfjarðarkirkju, Karlakórnum Kára, Kirkjukór Ingjaldshólskirkju, Karlakórnum Heiðbjörtu, Kvennasveitinni Skaða og Kirkjukór Stykkishólmskirkju. Á tónleikunum hljómar einnig hinn ljúfi og glaðlegi C-dúr sellókonsert Josephs Haydn þar sem Steiney Sigurðardóttir fer með einleikshlutverkið og að lokum flytur hljómsveitin 7. sinfóníu Beethovens sem er full af fegurð, lífsgleði og krafti. Stjórnandi er aðalhljómsveitarstjóri Sinfóníuhljómsveitar Íslands, Eva Ollikainen. Aðgangur að tónleikunum er ókeypis og eru öll velkomin.
Auk kvöldtónleikanna heldur Sinfóníuhljómsveit Íslands skólatónleika fyrir yngri áheyrendur í íþróttahúsinu Stykkishólmi 8. mars. Þar flytur hljómsveitin tónlistarævintýrið um Maxímús Músíkús þar sem Maxi villist inn á æfingu hjá Sinfóníuhljómsveit Íslands og kynnist töfrum tónlistarinnar af eigin raun. Sögumaður er Valur Freyr Einarsson leikari og Ross Jamie Collins heldur um tónsprotann.
Við hlökkum afar mikið til þess að sækja Stykkishólm heim og halda þar tónleika. Einnig hlökkum við sérstaklega til samstarfsins við alla kórana af svæðinu. Það er okkur mikilvægt að sinna vel hlutverki okkar sem þjóðarhljómsveit, ekki bara með útsendingum í útvarpi og sjónvarpi heldur einnig með heimsóknum og samstarfi sem þessu. Fræðslustarf og barnamenning er okkur einnig hugleikin og því verður afar gaman að mæta með Maxímús Músíkús og spila fyrir nemendur, bæði á Snæfellsnesi og í Borgarnesi.
Sagði Lára Sóley Jóhannsdóttir framkvæmdastjóri hjómsveitarinnar við tilefnið en sveitin mun einnig halda skólatónleika í Borgarnesi áður en haldið er í Hólminn.