Fara í efni

Siglingadeildin naut vinsælda í sumar

29.08.2023
Fréttir

Í júnímánuði hélt Siglingadeild Snæfells fjögur námskeið fyrir börn á aldrinum 10 – 15 ára þar sem farið var í grunnþætti siglinga á Topaz skútum, kynnst kajak siglingum og sullað í sjónum. Námskeiðin voru öll vel sótt og tókst vel til. Leiðbeinendur á námskeiðununum voru ungmenni á vegum vinnuskóla sveitarfélagsins. Ungmennin, þau Ágústa, Íris Ísafold og Guðmundur Gísli fóru á fjögurra daga þjálfaranámskeið á vegum Siglingasambands Íslands í apríl ásamt Sigrúnu Erlu Eyjólfsdóttur og Ásdísi Árnadóttur. Kennarinn á námskeiðinu var Rob Holden fyrrum fræðslu og þróunarstjóri Alþjóða Siglingasambandsins. Í framhaldi af námskeiðinu heimsótti hann Stykkishólm í þrjá daga í júní og fylgdi leiðbeinendunum eftir í sinni vinnu. Það var mikil lyftistöng fyrir siglingadeildina að fá Rob í heimsókn. Siglingadeildin skilar sérstöku þakklæti til eftirfarandi aðila: Nesbrauð, Skúrinn, Sjávarpakkhúsið, Sjávarborg og Kristján the captain. Jafnframt er Skipavík, Björgunarsveitinni Berserkjum, Guðbrandi, Símoni og Gesti Hólm þakkað fyrir að útvega búnað og Magnúsi Bæringssyni þakkað fyrir sinn stuðning.

Siglingadeildin á nú fjórar Topaz skútur sem komnar eru til ára sinna. Jafnframt á deildin fjóra kajaka og nokkur gömul seglbretti. Næstu skref siglingadeildarinnar eru að koma upp varanlegu aðstöðuhúsi á bryggjunni svo hægt sé að geyma búnaðinn þar og stunda siglingar þegar vel viðrar. Að lokum skilar siglingadeildin þakklæti fyrir frábærar viðtökur á námskeiðunum í sumar.

Getum við bætt efni síðunnar?