Fara í efni

Síðasta tréð frá Drammen

05.12.2019
Fréttir

Jólaljósin voru tendruð í gær við hátíðlega athöfn í Hólmgarði. Veðrið var með besta móti og margt um manninn að vanda. Tónmenntarnemar Grunnskólans sungu jólalög, kvenfélagskonur seldu heitt súkkulaði og smákökur, jólasveinar kíktu við og gáfu börnum mandarínur og dansað var í kringum jólatréð.

Í ávarpi bæjarstjóra kom meðal annars fram að jólatréð í ár væri það síðasta sem Stykkishólmsbær þiggur að gjöf frá Drammen, vinabæ Stykkishólms. Á vinabæjarmótinu, sem haldið var hér í september, kom fram að Drammen muni líklega sameinast öðru bæjarfélagi á komandi misserum og því óljóst hvað verður um formlegan vinskap Stykkishólmsbæjar og Drammen. Í ljósi þessa var lögð fyrir bæjarráð tillaga um að þetta yrði síðasta jólatréð sem Stykkishólmsbær þiggur að gjöf frá Norðmönnum og var sú tillaga samþykkt á bæjarstjórnarfundi í kjölfarið.

Þótti bæjarstjóra rétt að taka fram að hefðir okkar Hólmara lifi áfram og tendruð verði áfram ljós á jólatrjám á komandi árum þó svo þau verði ekki fengin frá Noregi.

Getum við bætt efni síðunnar?