Fara í efni

Sátan hefst á fimmtudag

05.06.2024
Fréttir Lífið í bænum

Sátan er þriggja daga þungarokkshátíð sem haldin er í íþróttamiðstöðinni í Stykkishólmi dagana 6.-8. júní. Hátíðin leggur áherslu á að bjóða upp á fjölbreytt úrval af fremstu þungarokkshljómsveitum Íslands. Tónleikar hefjast í íþróttamiðstöðinni kl. 15:50 dagana þrjá og standa fram yfir miðnætti. Óhætt er því að gera ráð fyrir blómlegu mannlífi í Stykkishólmi þessa helgi.

Meðal hljómsveita sem koma fram á hátíðinni eru I Adapt, Sólstafir, Endless Dark og HAM með Sigurjón Kjartansson og Óttarr Proppé í broddi fylkingar. Hægt er að kynna sér dagkrá hátíðarinnar hér. Enn er hægt að tryggja sér miða á vef hátíðarinnar.

Sátan er ný hátíð sem er nú haldin í fyrsta sinn en ef vel tekst til hafa skipuleggjendur áhuga á að halda hátíðina árlega hér í Hólminum. Nafn hátíðarinnar kemur úr nærumhverfinu og ættu Hólmarar, Helgfellingar og aðrir kunnugir staðháttum að þekkja vel söguna af því hvernig Sátan varð til.  En Sátan er heysáta sem losnaði af klyfjum Kerlingarinnar í Kerlingarskarði.

Kerlingin í Kerlingarskarði og tilurð Sátunnar

Kerling lagði af stað heiman frá sér og hélt vestur Snæfellsnes. Hún hafði með sér hest og á honum klyfjar með skyrtunnu og heysátu, einnig hafði hún með sér hafur. Kerlingin var sein fyrir og þurfti að flýta sér nokkuð. Þegar hún var komin áleiðis vestur fjallgarðinn á móts við Ljósufjöll losnaði sátan af klyfjunum og varð eftir þar sem nú heitir Sátan. Kerlingin brá á það ráð að hanga sjálf í klyfjunum á móti tunnunni. Hesturinn þreyttist fljótt og gafst að lokum upp þar sem fjallið Hesturinn er nú. Kerlingin ætlaði þá að bera tunnuna sjálf en gafst upp og skildi hana eftir þar sem fjallið Skyrtunna er nú. Hafurinn gekk með Kerlingu en hún var á mikilli hraðferð þar sem brátt myndi dagur rísa og skildi hafurinn eftir í fjallinu sem nú er þekkt sem Hafursfell. Í þann mund sem hún kemur upp á brún fjallsins sem nú heitir Kerlingarfjall kom sólin upp og varð hún þá samstundis að steini og er þar enn þann dag í dag.

Hér að ofan má sjá mynd af Kerlingunni í Kerlingaskarði fyrir grjóthrun. Kerlingin tapaði þó nokkru af hæð sinni veturinn 2021 þegar veðrið lék hana grátt eins og greint var frá á vef sveitarfélagsins.

Undirbúningur er hafinn í Íþróttamiðstöðinni.
Getum við bætt efni síðunnar?