Fara í efni

Sannkölluð menningarhelgi framundan í Hólminum

21.09.2023
Fréttir

Óhætt er að segja að sannkölluð menningarhelgi sé framundan í Stykkishólmi en á laugardaginn kemur opna þrjár nýjar sýningar í bænum. Tvær í Norska húsinu og ein í Amtsbókasafninu.

Hjartastaður - Ný grunnsýning

Ný grunnsýning verður opnuð laugardaginn 23. september kl. 14:30 í Norska húsinu í Stykkishólmi. Sýningin leysir af hólmi fyrri grunnsýningu safnsins sem staðið hefur yfir á miðhæð hússins síðan árið 2001.

Byggðasafnið hlaut öndvegisstyrk Safnaráðs árið 2020 til að ráðast í gerð nýrrar grunnsýningar og var víðtækt samráð haft um sýninguna þar sem íbúar Snæfellsness tóku virkan þátt í samtalinu um nýja grunnsýningu. Niðurstaða stýrihóps sem hélt utan um undirbúningsferilinn var að ný sýning myndi fjalla um ungt fólk á Snæfellsnesi á tuttugustu og tuttugustu og fyrstu öldinni. Anna Melsteð þjóðfræðingur í Stykkishólmi var ráðin sem sýningarstjóri og Finnur Arnar Arnarsson er sýningarhönnuður.

Sýningin ber heitið „Hjartastaður - Sjóndeildarhringurinn með augum ungs fólks á Snæfellsnesi frá 1900“ og dregur fram sjónarhorn ungs fólks á umhverfi sitt og tengingu þess við átthagana en saga Snæfellsness blandast þar inn í enda ótalmargir utanaðkomandi þættir í sögunni sem höfðu afgerandi áhrif á líf ungmenna á tímabilinu 1900 til samtímans. Reynt er að endurspegla menningu og veruleika ungs fólks á Snæfellsnesi meðal annars með viðtölum við Snæfellinga á ýmsum aldri. Auk þess varpa heimildir og gögn annarsstaðar frá ljósi á sögusvið sýningarinnar. Dustað er rykið af hluta þeirra 6000 gripa sem Byggðasafnið varðveitir og tengjast umfjöllunarefninu. Má þar finna forvitnilega hluti sem á einhverjum tímapunkti hafa haft áhrif líf ungs fólks. Hlaðvarpsþættir, byggðir á rannsóknarviðtölum sem gerð voru fyrir sýninguna líta dagsins ljós fyrri hluta árs 2024 auk þess margskonar viðburðir tengdir efni sýningarinnar eru áætlaðir.

Solander 250:Bréf frá Íslandi

Sama dag opnar einnig í Byggðasafni Snæfellinga og Hnappdæla sýningin Solander 250:Bréf frá Íslandi.

Sýningin hefur ferðast um landið en hún mun teygja anga sína um tólf listasöfn og sýningarsali um allt land frá haustinu 2022 og enda í Svíþjóð 2024. Sýningin er samstarfsverkefni félagsins Íslensk grafík og sænska sendiráðsins á Íslandi.

Sýningin Solander 250: Bréf frá Íslandi er sett upp til að minnast þess að liðin eru 250 ár frá merkum erlendum vísindaleiðangri til Íslands árið 1772. Með í þeirri för var einn af lærisveinum hins heimsþekkta sænska náttúruvísindamanns Carls von Linné, náttúrufræðingurinn Daniel Solander frá Svíþjóð. Þá skrásetti Solander og safnaði margs konar fróðleik um náttúru Íslands, menningu, siði og klæðaburð þjóðarinnar. Á sýningunni túlka tíu íslenskir listamenn frá félaginu Íslenskri grafík þessa atburði og þær breytingar sem hafa orðið á landi og þjóð síðan.

Samhliða henni má svo sjá sýninguna Paradise Lost - Daniel Solander’s Legacy, sem ætlað er að minnast ferða Solanders til Kyrrahafsins árið 1769. Eru þar sýnd verk tíu listamanna frá Kyrrahafssvæðinu en Solander var í áhöfn HMS Endeavour í fyrstu ferð Evrópumanna til Ástralíu. Mynda sýningarnar tvær þannig einstakt samtal Norðurskautsins og Kyrrahafsins í ljósi ferða Solanders. Sýningarnar eru settar upp í samstarfi við sendiráð Svíþjóðar á Íslandi og félagið Íslenska grafík.

Paradise lost - Daniels Solander’s Legacy hefur áður verið sett upp á Nýja-Sjálandi, í Ástralíu og Svíðþjóð Umsjón með sýningunni Solander 250: Bréf frá Íslandi fyrir hönd félagsins Íslenskrar grafíkur hafa Anna Snædís Sigmarsdóttir og Elísabet Stefánsdóttir.

Allir hjartanlega velkomnir, léttar veitingar í boði.

Sýningin stendur til 7. október og er húsið opið alla daga frá kl. 12-16.

Einar Áskell á Amtsbókasafninu

Á Amtsbókasafninu opnar einnig sýning laugardaginn 23. september kl 13:00. Sýningin ber heitið Fimmtíu ár af Einari Áskeli.

Í tilefni af því að fyrsta bókin um Einar Áskel kom út árið 1972 setti bókasafn Norræna hússins saman sýningu í samvinnu við sænska sendiráðið og Sænsku stofnunina á Íslandi.

Á sýningunni er spjald með Einari og pabba hans sem hægt er að mynda sig í, veggspjöld með ýmsum fróðleik um bækurnar og Gunillu Bergström höfund þeirra. Safnið allt mun fá á sig skemmtileg yfirbragð af Einari og hans notalega heimi. Auk þess verða í tengslum við sýninguna lánaðir út sögupokar sem innihalda spil, bækur, kubba, bók og fleira sem tengist Einari. Sýningin er nú á ferð um landið og verður í Stykkishólmi frá 23. september til 7. október 2023.
 
Sýningin verður formlega opnuð með ávarpi sænska sendiherrans Pär Ahlberger. Boðið verður upp á veitingar í anda Einars Áskels og ömmu hans og börnin geta litað myndir af Einari og tekið þátt í getraun um hann.
 
Verið öll velkomin!
 
Sýningin stendur til 6. október og er bókasafnið opið þriðjudaga til föstudaga frá 14-17.
Getum við bætt efni síðunnar?