Fara í efni

Samfélagsvegir og Skógarstönd - Íbúafundur í Ráðhúsi

29.11.2022
Fréttir

ATHUGIÐ UPPFÆRÐAN FUNDARTÍMA. FUNDURINN VERÐUR KL 18.00, 30. NÓVEMBER.

Opinn fundur verður haldinn í fundarsal á 3. hæð í Ráðhúsinu í Stykkishólmi miðvikudaginn 30. nóvember kl. 18:00. Á fundinum kynnir Haraldur Benediktsson, alþingismaður, samfélagsvegi - nýja hugsun í vegagerð með sérstöku tilliti til Skógarstrandarvegar. Ásamt Haraldi taka einnig til máls Gísli Gíslason, fyrrverandi stjórnarformaður Spalar og Ómar Örn Tryggvason, forstöðumaður sértækra fjárfestinga hjá Summu. Fundarstjóri er Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri.

Aðdragandi íbúafundar

Haraldur Benediktsson, alþingismaður Sjálfstæðisflokks í Norðvesturkjördæmi, kom til fundar við atvinnu- og nýsköpunarnefnd og kynnti þar hugmyndir sínar um fjármögnun til að flýta uppbyggingu Skógarstrandarvegar sem var eitt af áhersluverkefnum Samstarfsnefndar um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar. Nefndin hvatti bæjarstjórn til að kanna ítarlega hvort hugmyndir Haraldar séu góður kostur og kunni að hraða uppbyggingu Skógarstrandarvegar og þverun Álftafjarðar. Á sínum 5. fundi fagnaði bæjarráð framkomnum hugmyndum um samfélagsvegi og óskaði eftir því Haraldur haldi íbúafund í sveitarfélaginu og kynni þessa hugmynd fyrir íbúum sveitarfélagsins.

Hvað eru samfélagsvegir?

Hugmyndin snýr að því að sveitarfélög geti haft frumkvæði af því að stofna samgöngufélag um veg sem þegar er búið að ráðstafa peningum í á samgönguáætlun. Samgöngufélagið hannar vegin eftir vilja íbúa svæðisins og þeirra sem nota veginn og þekkja hann best. Að lokinni hönnun leitar félagið fjárfesta og býður verkið út. Samgöngufélagið fær svo ráðstafaðan pening úr Ríkissjóði á þeim tíma sem peningar eru áætlaðir í framkvæmdir við umræddan veg, skv. samgönguáætlun.

Búið er að ráðstafa 950 m.kr. í undirbúningsvinnu við Skógarstrandarveg á árunum 2025-2029 og 3,1 milljarði króna í framkvæmdir við veginn á árunum 2030-2034. Til að flýta uppbyggingu gæti samgöngufélag með aðstoð fjárfesta, lagt út fyrir veginum og fengið peninginn greiddan út frá ríkinu þegar ríkið hefur gert ráð fyrir að greiða þann pening í framkvæmdir og undirbúning fyrir veginn. Samgöngufélagið innheimtir veggjöld á veginum þannig að þeir sem um hann fara greiða fyrir, en sérkjör yrðu fyrir heimafólk. Þegar vegurinn er fullgreiddur afhendir samgöngufélagið ríkinu veginn, veggjöld falla niður og ríkið tekur við veginum sem verður þá hluti af hinu almenna vegakerfi.

Hugmyndin kynnt dalamönnum

Þessi hugmynd var kynnt dalamönnum á opnum fundi mánudaginn 21. nóvember. Á vef Skessuhorns má finna umfjöllun um fundinn og umræður sem sköpuðust í kjölfar fundar.

Bæjarstjórn hefur lagt þunga áherslu á uppbyggingu Skógarstrandarvegar

Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar ályktaði um málið á fundi sínum 12 desember 2019, þegar málið var í umsagnarferli, þar sem lögð var þung áhersla á að hönnun og framkvæmdir á vegi 54 um Skógarströnd verði flýtt og var bæjarstjóra falið að koma á framfæri við umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis viðbótarumsögn um tillögur til þingsályktunar um fimm ára samgönguáætlun fyrir árin 2020-2024 og fyrir árin 2020-2034. Í ítarlegri viðbótarumsögn bæjarstjóra um fyrirliggjandi þingsályktunartillögur var málinu fylgt eftir og m.a. gerð krafa um að fyrirliggjandi samgönguáætlun yrði breytt með tilliti til mikilvægi vegarins um Skógarströnd sem hluta af grunnneti samgöngukerfisins og framkvæmdum verði flýtt þannig að vegurinn komi til framkvæmda á fyrsta tímabili samgönguáætlunar. Bæjarstjóri fylgdi svo umsögnum Stykkishólmsbæjar eftir á fundi með umhverfis- og samgöngunefnd Alþingis í febrúar 2020.

Í kjölfar þeirrar þungu og miklu áherslu sem bæjarstjórn og bæjarstjóri Stykkishólmsbæjar lagði á málið, ásamt öðrum sveitarfélögum, sér í lagi frá sveitarstjórn og fyrrv. sveitarstjóra Dalabyggðar og Samtökum sveitarfélaga á Vesturlandi, var Skógarstrandarvegur formlega færður á fyrsta tímabil samgönguáætlunar, en Alþingi samþykkti sumarið 2020 breytingartillögu umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis um að færa Skógarstrandarveg að hluta á fyrsta tímabil samgönguáætlunar. Hafði þar stuðningur allra þingmanna NV kjördæmis við málið mikið að segja, þ.m.t. stuðningur Haralds Benediktssonar sem þá var 1. þingmaður kjördæmisins. Þá hafði málið jafnframt stuðning frá núverandi formanni umhverfis- og samgöngunefndar Alþingis og framsögumanni samgönguáætlunar á þeim tíma, Vilhjálms Árnasonar, þingmanns Suðurkjördæmis. Frá þeim tíma hefur mikil uppbygging átt sér stað á Skógarstrandarvegi hefur frá árinu 2020 vel á 2 milljarður verði ráðstafað til uppbyggingar á veginum.

Skiptir samfélagið miklu máli - Nýr vegur mun efla fjölbreytta atvinnu á svæðinu

Ljóst er að uppbygging vegarins skiptir samfélagið á þessu svæði máli enda var flýting uppbyggingar Skógarstrandarvegar eitt af áherslumálum Samstarfsnefndar um sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar sem samþykkt var í íbúakosningu 26. mars 2022. Þá var ein af 20 tillögum starfshóps um eflingu atvinnulífs, dags. 17. mars 2022, tillaga um að sveitarfélagið héldi áfram að tryggja aukið fjármagn til uppbyggingar Skógarstrandarvegar, þar sem lagning bundins slitalags um veginn muni koma til með að efla fjölbreytta atvinnu á svæðinu, bæta samkeppnishæfni þar sem aðgangur að þjónustu nærliggjandi svæða verður betri og stækka fyrirliggjandi vinnusóknarsvæði. Benti starfshópurinn á það að vegurinn hefur í raun virkað sem hraðahindrun á atvinnuþróun og uppbyggingu á svæðinu og að ástand hans í dag sé óboðlegt og hafi verið lengi.

Íbúafundur í Ráðhúsi - 30. nóvember, kl. 18:00
Getum við bætt efni síðunnar?