Ritað undir verksamning vegna Víkurhverfis
Miðvikudaginn 27. september síðastliðinn var verksamningur vegna Víkurhverfis undirritaður. Samningsaðilar eru Sveitarfélagið Stykkishólmur, Veitur ofh., Míla hf., Rarik ohf. sem saman eru verkkaupar og kaupa vinnu af BB og Synir ehf. en BB var eina fyrirtækið sem bauð í verkið. Fyrsta tilboði var þó hafnað þar sem tilboðið var 30,5% yfir kostnaðaráætlun. Á grundvelli viðræðna lagði BB fram endurskoðað tilboð, sem var 15,7% yfir kostnaðaráætlun en því var jafnframt hafnað. Frekari viðræður aðila leiddu til þess að BB lagði fram nýtt tilboð sem var 5,4% yfir kostnaðaráætlun og var gengist við því. Verkið felur í sér jarðvinnu við götur í hinu fyrirhugaða Víkurhverfi, ásamt lagningu frárennslis-, vatns-, hitaveitu-, og fjarskiptalagna og jarðvinnu fyrir rafmagnslagnir. Verklok eru samkvæmt samningi 15. apríl 2024.