Reykjavíkurmaraþon í Stykkishólmi
Fjöldi Hólmara skráðu sig til leiks í Reykjavíkurmaraþoni Íslandsbanka sem fram átti að fara nk. laugardag. Hlaupið hefur verið stór viðburður í Reykjavík undanfarin ár en í samræmi við tilmæli Almannavarna var ákveðið að aflýsa viðburðinum í ár, þrátt fyrir það voru hlauparar hvattir til að halda áfram að safna fyrir góðum málefnum og hlaupa sína vegalengd á laugardaginn kemur. Þá hyggst hópur fólks hlaupa fyrir Berglindi Gunnarsdóttur í Stykkishólmi.
Hlaupum fyrir Berglindi
Eins og Hólmarar þekkja er Berglind Gunnarsdóttir 27 ára læknanemi og landsliðskona sem slasaðist alvarlega á hálsi og mænu í rútuslysi þann 10. janúar síðastliðinn. Með seiglu og keppnisskapi hefur Berglind náð góðum árangri í endurhæfingu en á þó enn langt í land til að ná fullum bata. Styrkurinn sem safnast í hlaupinu er hugsaður til að létta undir með Berglindi í kostnaðarsömu endurhæfingarferli en einnig til að hjálpa henni að komast aftur út í lífið samhliða áframhaldandi endurhæfingu.
Hlaupið frá Súgandisey
Á laugardaginn kemur verður hlaupið frá Súgandisey, fyrstu hlauparar verða ræstir út kl 10:00 og gert ráð fyrir að hlaupið standi yfir til kl. 13. Hópur af nánum vinum og fjölskyldu Berglindar standa fyrir viðburðinum og hafa hvatt fólk til að flykkjast út á götur á laugardagsmorgun, slá potta og pönnur, kveikja á tónlist og mynda þannig stemningu fyrir hlaupara. Á sama tíma er þó minnt á að huga að sóttvörnum og passa tveggja metra regluna.
Hér má sjá hlaupaleið laugardagsins.
Enn er hægt að styrkja
Enn er hægt að heita á þá sem hlaupa fyrir Berglindi og leggja henni þannig lið. Á hlaupastyrkur.is má finna þá hlaupara sem hlaupa fyrir Berglindi og þar má einnig sjá hve mikið hefur safnast, þegar þessi frétt er skrifuð hafa safnast rúmar 5,8 milljónir fyrir Berglindi.
Að loknu hlaupi býður Stykkishólmsbær þeim sem hlaupa fyrir Berglindi frítt í sund.