Fara í efni

Rekstur sveitarfélagsins styrkist milli ára samkvæmt ársreikningi 2023

26.04.2024
Fréttir

Rekstur Sveitarfélagsins Stykkishólms styrkist milli ára samkvæmt ársreikningi fyrir árið 2023 sem tekin var til fyrri umræðu á bæjarstjórnarfundi þann 24. apríl sl., en um var að ræða fyrsta ársreikning sveitarfélagsins frá stofnun þess á árinu 2022 sem nær yfir heilt ár eftir sameiningu Helgafellssveitar og Stykkishólmsbæjar.

Endurspeglar ársreikningurinn að reksturinn sé að ná jafnvægi og er að styrkjast til muna frá fyrra ári. Rekstrarniðurstaða fyrir fyrir afskriftir og fjármagnsliði var jákvæð um 283 millj. kr. og rekstrarniðurstaða án fjármunatekna og fjármagnsgjalda var jákvæð um 179 millj. kr. Fjárfestingahreyfingar A og B hluta á árinu 2023 námu 293 millj. kr. Lántökur á árinu námu 160 millj. kr. og afborganir langtímalána voru 219 millj. kr. Skuldaviðmið A og B hluta Sveitarfélagsins Stykkishólmur í árslok 2023 var 104% og er langt undir lögbundnu hámarki sem er 150% samkvæmt sveitarstjórnarlögum. Veltufé frá rekstri nam á árinu 2023 307 millj. kr. samanborið við 244 millj. kr. árið áður og ljóst að reksturinn stendur vel undir afborgunum skulda og skuldbindinga líkt og endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi. Handbært fé í árslok nam 98 millj. kr. og lækkaði um 37 millj. kr. á árinu.

Rekstrartekjur samkvæmt ársreikningi fyrir A og B hluta námu 2.429 millj. kr. á árinu en þar af námu rekstrartekjur A hluta 2.196 millj. kr. Rekstrartekjur A og B hluta jukust um 7% milli ára. Rekstrargjöld jukust um 6% milli ára og eru 8% hærri en áætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir. Rekstrarniðurstaða A og B hluta var neikvæð um 40 millj. kr. en fjárhagsáætlun með viðaukum hafði gert ráð fyrir jákvæðri rekstrarniðurstöðu að fjárhæð 63 millj. kr. Skýrist það það frávík einna helst af tveimur frávíkum frá áætlun, annars vegar í fráviki í kostnaði í fræðslumálum og hins vegar vegna viðbótarframlags í Brúar lífeyrissjóðs og endurreikningi á lífeyrisskuldbindingum, samtals um 100 millj. kr., en í október 2023 ákvarðaði stjórn Brúar lífeyrissjóðs að viðbótarframlag yrði innheimt hjá launagreiðendum frá og með janúar 2024 vegna tiltekins hóps lífeyrisþega sem væri með tryggð réttindi hjá sjóðnum. Við þessa ákvörðun myndaðist skuldbinding sveitarfélagsins gagnvart þessum hópi lífeyrisþega hjá A deild Brúar lífeyrissjóðs. Nam skuldbindingin 46,9 millj. kr. og er hún gjaldfærð í rekstrarreikningi. Rekstrarjöfnuður A og B hluta síðastliðinna þriggja ára er neikvæður um 184 millj. kr. og gera fjárhagsáætlanir sveitarfélagsins ráð fyrir því að rekstrarjöfnuður nái jafnvægi í árslok 2025.

Það er ánægjulegt að rekstur sveitarfélagsins er að styrkjast verulega milli ára og ná aftur ásættanlegu jafnvægi þrátt fyrir krefjandi rekstrarumhverfi og mikla verðbólgu sem litar niðurstöðu ársins. Ef ekki hefði verið fyrir óvænt frávik í rekstri tengt fræðslumálum og lífeyrisskuldbindingum væri sveitarfélagið að skila 60 millj. kr. hagnaði, sem er mjög ásættanleg niðurstaða í núverandi rekstrarumhverfi. Það er ekki tilefni til annars en bjartsýni á framtíðina enda byggjum við á traustum stoðum með okkar öflugu innviði og mikinn mannauð sem er, ásamt öflugu atvinnulífi, undirstaða sterks samfélags

Þegar við horfum á stöðu sveitarfélagsins í dag verður óneitanlega að taka tillit til sögulegrar þróunar hjá sveitarfélaginu sem litast af þremur stórum samfélagsáhrifum, í fyrsta lagi skelhrunið fyrir 20 árum, í öðru lagi efnahagshrunið nokkrum árum síðar, sem kemur nánast í beinu framhaldi af skelhruninu hjá okkur í Stykkishólmi, og svo í þriðja lagi COVID-19, sem kom á tíma sem sveitarfélagið var loks að rétta úr kútnum aftur fjárhagslega, en áhrif þess faraldurs lagðist óneitanlega þyngra í okkar ferðaþjónustusveitarfélag en mörg önnur. Þetta endurspeglast glögglega í rekstrarniðurstöðum sveitarfélagsins síðustu 20 ára, en þar hefur sveitarfélagið einungis sex sinnum skilað hagnaði og voru fjögur af þeim skiptum á síðustu 10 árum. Við komum svo til með að bæta við nokkrum jákvæðum rekstrarniðurstöðum til viðbótar á næstu árum, þannig að þetta er allt á rétti leið.

Mér finnst það einnig skipta máli að í stefnumörkun bæjarstjórnar á hverjum tíma í gegnum þessi áföll hefur almennt verið borin virðing fyrir stofnunum sveitarfélagsins og þeirri mikilvægu þjónustu sem þar er sinnt og reynt að komast hjá kollsteypum í rekstri með ófyrirséðum afleiðingum þegar áföll hafa dunið yfir og þannig fremur reynt á markvissan hátt að vinna sig út úr úr verkefninu með ábyrgum hætti og af yfirvegun með stjórnendum sveitarfélagsins. Þannig hefur verið stjórnað af skynsemi og af ábyrgð,“ segir Jakob Björgvin Sigríðarson Jakobsson, bæjarstjóri í Stykkishólmi.

Hér má sjá yfirlit yfir rekstrarniðurstöður sveitarfélagsins frá fjárhagsáætlunarvinnu 2023

Samkvæmt yfirliti sem var kynnt á bæjarstjórnarfundi má sjá að lántökur  síðustu fimm ára uppreiknaðar miðað við tekjur 2023 hafa verið í sögulegu lágmarki, ef COVID-19 árið 2020 er undanskilið, séu þær bornar saman við síðustu fjögur kjörtímabil (2006-2022). Þannig hafa skuldahlutföll og skuldaviðmið verið að lækka markvisst á tímabilinu.

Í máli bæjarstjórans við yfirferð ársreiknings á fundi bæjarstjórnar kom jafnframt fram að áherslur bæjarstjórnar á árinu 2023 og á yfirstandandi ári er að skapa áfram eftirsóknarvert umhverfi fyrir fólk og fyrirtæki, standa vörð um grunnþjónustu sveitarfélagsins, sérstaklega um hag barna og fjölskyldna þeirra og eldra fólks, og sækja af ábyrgð fram með samfélagslega mikilvægum fjárfestingum innviða sem komi til með að skapa svigrúm til eflingar samfélagsins á svæðinu á sama tíma og stefnt er að því að tryggja að skuldaviðmið og skuldahlutföll séu að lækka markvisst á tímabilinu. „Þessar áherslur og markmið bæjarstjórnar endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi og samþykktum áætlunum, en það er alltaf áskorun frá degi til dags að tryggja að þessi markmið nái fram að ganga, en áfram þarf að leggja áherslu á ábyrga fjármálastjórnun þar sem gætt er aðhalds og ábyrgðar í rekstri sveitarfélagsins á sama tíma og þjónusta við íbúa verði eins og best verður á kosið. Bæjarstjórn og stjórnendur sveitarfélagsins þurfa að vera og eru vakandi fyrir ákveðnum þáttum í rekstri sem endurspeglast í þessum ársreikningi.

Það þarf áfram að huga að því og vinna markvisst að því að ná enn meira upp veltufé frá rekstri, sem þarf að standa undir afborgunum skulda og skuldbindinga líkt og endurspeglast í fyrirliggjandi ársreikningi, þannig að rekstur geti áfram staðið undir greiðslu skulda og nauðsynlegum fjárfestingum.

Ársreikning sveitarfélagsins ásamt samtæðuyfirliti má sjá hér fyrir neðan ásamt kynningu bæjarstjóra.

Kynning bæjarstjóra:


Ársreikningur 2023:

Hér má horfa á upptöku frá ávarpi bæjarstjóra og yfirferð endurskoðanda frá KPMG á fundi bæjarstjórnar vegna ársreiknings 2023: 

Getum við bætt efni síðunnar?