Ráðið í stöðu byggingarfulltrúa
Höskuldur Reynir Höskuldsson hefur verið ráðinn í stöðu byggingarfulltrúa hjá Sveitarfélaginu Stykkishólmi en hann mun einnig sinna verkefnum í Eyja- og Miklaholtshreppi í gegnum þjónustusamning við Sveitarfélagið Stykkishólm.
Reynir lauk B.Ed. prófi í byggingarfræði frá VIA University College í Danmörku 2019, hann hefur undanfarin ár verið búsettur á Egilsstöðum og starfað þar við byggingarstarfsemi frá árinu 2019. Þá býr hann einnig yfir langri reynslu sem stjórnandi í byggingar- og verkiðnaði. Reynir hefur störf hjá sveitarfélaginu mánudaginn 25. mars nk.
Ég er fullur tilhlökkunar að koma til starfa með því öfluga teymi sem starfar á sviði skipulags- og byggingarmála í Stykkishólmi.
Alls sóttu tíu um stöðuna og var það niðurstaða hæfninefndar og ráðgjafa að Höskuldur Reynir Höskuldsson mæti best umsækjenda þeim kröfum sem gerðar voru og lagði því til að honum yrði boðið starfið. Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í gær, 21. mars, tillögu hæfninefndar og ráðgjafa um að ráða Höskuld Reyni Höskuldsson í starf byggingarfulltrúa.