Nýtt deiliskipulag styrkir gamla bæjarkjarnann
Bæjarstjórn Stykkishólmsbæjar samþykkti þann 9. desember 2021, nýtt deiliskipulag fyrir miðbæ austan við Aðalgötu í Stykkishólmi. Deiliskipulagið var staðfest af Skipulagsstofnun þann 11. mars síðastliðinn og tók gildi 27. apríl með auglýsingu í B-deild Stjórnartíðinda. Deiliskipulagið er unnið af Glámu-Kím arkitektum, sem einnig unnu miðbæjardeiliskipulagið sem Stykkishólmsbær hreppti Skipulagsverðlaunin fyrir árið 2008. Deiliskipulagsreiturinn afmarkast af Aðalgötu og Víkurgötu til vesturs, Austurgötu til norðurs og lóðarmörk húsa við Skúlagötu til austurs. Svæðið er um 1,7 ha að stærð og að mestu fullbyggt. Markmið deiliskipulagsins er að skilgreina nýjar lóðir og byggingarreiti sem styrkja gömlu byggðina sem fyrir er og einstaka bæjarmynd Stykkishólms. Bæring Bjarnar Jónsson, arkitekt og skipulagshöfundur, kynnti deiliskipulagstillöguna á opnum íbúafundi á Amtsbókasafninu í Stykkishólmi 17. mars 2021. Tillagan var auglýst og íbúum gefinn 6 vikna frestur til að koma athugasemdum á framfæri. Í kjölfar auglýsingarinnar voru gerðar breytingar til þess að koma til móts við athugasemdir og ábendingar sem bárust á kynningartímanum. Einnig voru haldnir sérstakir kynningarfundir með lóðarhöfum. NÝJAR LÓÐIR TIL ÚTHLUTUNAR Með tilkomu deiliskipulagsins bætast við lóðir sem verða auglýstar lausar til úthlutunar í Stykkishólmi í samræmi við stefnu bæjarins um þéttingu byggðar. Á skipulagssvæðinu eru fjórir byggingarreitir ætlaðir íbúðahúsnæði og einn byggingarreitur fyrir verslun og þjónustu en auk þess heimilar deiliskipulagið bílskúra og viðbyggingar við einstök hús á svæðinu. Nú þegar komið er nýtt deiliskipulag verða unnin ný lóðarblöð, lóðarleigusamningar endurnýjaðir og lóðir auglýstar til úthlutunar á svæðinu. Gulu rammarnir á myndinni marka nýja byggingarreiti. Sjá nánar hér:
Deiliskipulag austan Aðalgötu