Fara í efni

Nýir göngustígar við Grensás

11.09.2024
Fréttir

Mikill kraftur hefur verið í Skógræktarfélagi Stykkishólms undanfarið en nú í sumar hefur göngustígakerfi í Nýræktinni vaxið mikið. Sveitarfélagið hefur síðastliðin ár unnið með félaginu að uppbyggingu á skógræktarsvæðinu við Grensás með það að markmiði að auka útivistarmöguleika í og við Stykkishólm. Í sumar tók til hendinni sjálfboðaliðahópur frá Skógræktarfélagi Íslands auk þess sem samfélagsflokkurinn lét til sín taka á svæðinu. Samfélagsflokkurinn samanstóð af nokkrum kraftmiklum og hraustum ungmennum úr eldri bekkjum grunnskólans og flokkstjóra þeirra, Páli Margeiri Sveinssyni. Að sögn drengjanna var vinnan við göngustígagerðina erfið en gefandi. Þá höfðu þeir orð á því að í skóginum væri alltaf skjól og gott veður og útiveran afar skemmtileg.

Vefsjá hlaðin upplýsingum

Á vefsjá Stykkishólms má finna yfirlit yfir gönguleiðir í sveitarfélaginu auk fjölda annarra upplýsinga svo sem eins og örnefni, gamlar myndir, húsateikningar, lóðamörk og fleira. Þá var einnig nýlega bætt við fallegum útsýnismyndum sem teknar voru á nokkrum stöðum yfir bænum og sveitinni með dróna nú í sumar.

Ríflega hálfur kílómetri

Stærsta viðbót sumarsins við göngustígakerfið er án efa nýr og skjólgóður stígur í suðausturjaðri skógarins sem liggur frá bílaplani að stíg um Þröskulda. Stígurinn er ríflega hálfur kílómetri að lengd og liggur um gróið og skjólgott svæði þar sem fjölbreytt flóra landsins og fuglalíf fá sín notið.

Bekkjum og borðum fjölgað

Við göngustígana í Nýrækt hefur nýjum bekkjum víða verið komið fyrir sem margir hverjir eru útbúnir litlu borði sem hentar vel undir kaffi og nesti. Myndirnar hér að neðan voru teknar þegar Björn Ásgeir, formaður Skógræktarfélagsins, gekk með bæjarráð og bæjarstjóra um svæðið nú á dögunum og ræddi framtíðaráform félagsins. Á fyrstu myndunum er einnig hluti samfélagsflokksins sem vann þrekvirki í skóginum í sumar.

Nýjir stígar við Grensás teknir út.
Getum við bætt efni síðunnar?