Fara í efni

Ný vefsíða sveitarfélagsins komin í loftið

30.08.2022
Fréttir

Ný og uppfærð vefsíða sameinaðs sveitarfélags Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar hefur nú verið tekin í gagnið. Með nýrri síðu er leitast eftir því að upplýsingar verði aðgengilegri, viðmót auðveldara og nýjar veflausnir nýttar. Fundargerðir eru nú felldar inn í síðuna og notendum gefin kostur á að vakta málsnúmer. Síðan er unnin upp úr gömlu vefsíðu Stykkishólmsbæjar og á víða eftir að uppfæra texta í kjölfar sameiningar Stykkishólmsbæjar og Helgafellssveitar en það verður gert þegar nafn nýja sveitarfélagsins liggur fyrir.

Vefsjá og ábendingakerfi

Á meðal nýjunga á síðunni má nefna glæsilega vefsjá þar sem finna má húsateikningar, skipulag, gönguleiðir, örnefni, þjónustu, afþreyingu og margt fleira. Einnig er nýtt ábendingakerfi sem gefur íbúum kost á því að senda inn ábendingar með staðsetningu, GPS hniti, og myndum. Kerfið er einfalt og notendavænt og gerir ekki kröfu um að notendur þess skrifi langa texta heldur noti staðsetningu og mynd til skýringa. Þannig má með einföldum hætti senda ábendingu með mynd í gegnum síma og má því ætla að ábendingum til sveitarfélagsins fjölgi með tilkomu þessa kerfis.

Opin gátt sveitarfélagsins

Heimasíðan í heild sinni og virkni hennar er mikilvægt samskiptatæki við íbúa, hún er opin gátt sveitarfélagsins þar sem nálgast má allar helstu upplýsingar um starfsemi sveitarfélagsins, þjónustu og helstu snertifleti. Vefurinn er þægilegur og notendavænn hvort sem notast er við tölvu, síma eða spjaldtölvu. Þá var einnig leitast eftir því að bæta sérstaklega aðgengi sjónskertra og aldraðra með því að setja upp vefþulu, þannig má einföldum hætti hlusta á þuluna lesa efni af vefnum.

Íbúar eru hvattir til að skoða nýju vefsíðuna og nýta sér hana eins og kostur er. Hægt er að senda inn athugasemdir og ábendingar í gegnum síðunna eða á netfangið stykkisholmur@stykkisholmur.is ef íbúar hafa athugasemdir varðandi efni síðunnar eða uppsetningu.

Stykkishólmsbær og Helgafellssveit
Getum við bætt efni síðunnar?