Fara í efni

Ný Þjónustumiðstöð Stykkishólmsbæjar sett á fót í kjölfar endurskipulagningar

29.03.2019
Fréttir

Undanfarnar vikur hefur verið unnið að innri endurskipulagningu og samþættingu rekstrareininga áhaldahúss og fasteignasviðs Stykkishólmsbæjar með það að leiðarljósi að hagræða í rekstri og tryggja að því fjármagni sem varið er til rekstrarins nýtist sem best, en stöðugildum hefur nú þegar fækkað umtalsvert á þessum sviðum undanfarna sex mánuði.

Í þessari vinnu voru mótaðar fjölmargar sviðsmyndir og þær teknar til skoðunar en sú sviðsmynd sem talin var samrýmast best þeim markmiðum sem að var stefnt, var að mynda nýja sameiginlega deild áhaldahúss og eignasviðs þar sem ný þjónustudeild eigna-, framkvæmda-, og þjónustusviðs Stykkishólmsbæjar var sett á fót, sem nefnd hefur verið einu nafni Þjónustumiðstöð Stykkishólmsbæjar og var Bergi Hjaltalín falið að leiða þá starfsemi.

Þjónustumiðstöð Stykkishólmsbæjar mun vera staðsett í fyrrum húsnæði Áhaldahúss að Nesvegi 7. Þá, til þess að fylgja eftir umræddum skipulagsbreytingum, munu eiga sér stað endurbætur á húsnæðinu í samræmi við ákvörðun bæjarstjórnar um fjárfestingu í endurbótum á því.

Ný Þjónustumiðstöð Stykkishólmsbæjar mun, sem ein þjónustudeild, viðhalda og þróa innviði Stykkishólmsbæjar og umhverfi til að styðja við og auka velferð íbúa og atvinnulífs bæjarfélagsins og þeirra sem sækja Hólminn heim.

Í endurskipulagningunni var jafnframt lögð áhersla á að áframhald verði á og fest betur í sessi það góða samstarf sem verið hefur á milli umræddra deilda og hafnarinnar og hefur það samstarf verið þróað enn frekar og betur skilgreint samhliða umræddri skipulagsbreytingu.

Samkvæmt Jakobi Björgvin Jakobssyni bæjarstjóra Stykkishólmsbæjar, mun fyrrnefnd samþætting deilda, undir forystu Bergs Hjaltalín, einna helst hafa í för með sér að aukið samstarf verður um mönnun og samnýtingu aðstöðu og búnaðar Stykkishólmsbæjar ásamt því að mannauður og fagþekking bæjarins nýtist enn betur. Mun það leiða af sér aukna skilvirkni og bætta þjónustu við stofnanir bæjarins og íbúa Stykkishólmsbæjar.

Getum við bætt efni síðunnar?