Fara í efni

Minningarathöfn um Vigni Jónasson

30.05.2024
Fréttir

Minningarathöfn um Vigni Jónasson verður haldin laugardaginn 1. júní við reiðhöllina í Stykkishólmi. Athöfnin verður haldin í tengslum við gæðingamót Hestamannafélagsins Snæfellings og hefst kl. 13:15.

Með athöfninni vilja vinir og aðstandendur heiðra minningu Vignis og verður meðal annars afhjúpaður minnisplatti til minningar um Vigni.

Vignir Jónasson lést af slysförum við heimili sitt í Svíþjóð í byrjun árs. Hann fæddist í Stykkishólmi 31. maí 1971 og ólst þar upp. Foreldrar Vignis eru þau Jónas Sigurðsson og Árný Ingibjörg Ólafsdóttir.

Vignir fékk snemma áhuga á hrossum og fluttist ungur til Reykjavíkur þar sem hann vann við áhugamál sitt sem knapi, reiðkennari og tamningamaður.  Hann keppti á sínu fyrsta Landsmóti hestamanna árið 1986. Um langt skeið var hann hluti af íslenska landsliðinu í hestaíþróttum og tók þátt í sínu fyrsta stórmóti árið 1995 í Sviss og fylgdi liðinu til 2003.

Árið 2001 varð hann heimsmeistari í fimmgangi og samanlögðum fimmgangsgreinum á Klakki frá Búlandi. Það ár varð hann jafnframt Íslandsmeistari í fimmgangi og var valinn bæði íþróttaknapi ársins og knapi ársins.

Frá árinu 2007 var Vignir viðloðandi sænska landsliðið og 2015 varð hann heimsmeistari fyrir hönd Svíþjóðar í slaktaumatölti, hann var jafnframt hluti af liðinu á síðasta heimsmeistaramóti.

Á ferli sínum náði Vignir framúrskarandi árangri sem hestaíþróttamaður og ræktandi. Á vef Eiðfaxa má lesa minningarorð sem Lárus Ástmar Hannesson skrifaði um Vigni. 

Vignir lætur eftir sig eiginkonu, þrjá drengi og tvö stjúpbörn.

Allir sem áhuga hafa á að minnast Vignis eru velkomnir.

Vignir Jónasson, mynd: Svenska Islandshästforbundet.
Getum við bætt efni síðunnar?