Fara í efni

Málþing um menningarstefnu Vesturlands í Vatnasafni

10.05.2023
Fréttir
Menningarstefna Vesturlands var formlega samþykkt í byrjun árs 2021 og er hún í gildi til 2024. Er stefnan áhersluverkefni Sóknaráætlunnar Vesturlands. Að stefnunni komu fulltrúar níu sveitarfélaga á Vesturlandi auk fjögurra aðila starfandi í menningartengdum atvinnugreinum í landshlutanum. Stefnan er endurskoðun eldri menningarstefnu Vesturlands, en að þessu sinni var gerð að megináherslu að efla menningartengdar atvinnugreinar auk þess sem sérstök áhersla var lögð á menningu innflytjenda á Vesturlandi.
 
Nú er starfstími stefnunnar um það bil hálfnaður og þá er tilefni að staldra við og taka stöðu mála. Er það gert með því að blása til málþings um Menningarstefnu Vesturlands með yfirskriftinni hver sé staðan. Farið verður yfir þær aðgerðir sem settar voru fram í stefnunni og mælikvarðar skoðaðir og velt vöngum hvernig opinberar stefnur séu almennt að gagnast í uppbyggingu menningarstarfs.
 
Þá verður haldin málstofa þar sem fjórir gestir víðsvegar af Vesturlandi koma saman í pallborð og taka stefnuna til umræðu. Viðburðurinn fer fram í Vatnasafninu í Stykkishólmi og eru allir velkomnir. Auk þess verður stefnan í beinu streymi, og verður upptakan aðgengileg eftir að viðburði lýkur.
 
Anna Melsteð, þjóðfræðingur og eigandi Anok margmiðlunar ehf í Stykkishólmi, Heiðar Mar Björnsson kvikmyndagerðarmaður, einn af stofnendum Iceland Documentary Film Festival og stofnandi Muninn kvikmyndagerðar, Nanna Guðmundsdóttir forstöðumaður Amtsbókasafnsins í Stykkishólmi og skipuleggjandi Júlíönu, hátíðar sögu og bóka og Þórunn Kjartansdóttir forstöðumaður menningarmála í Borgarbyggð.
 
Sigursteinn Sigurðsson menningarfulltrúi SSV stýrir fundi.
Streymið verður á Facebooksíðu SSV, https://www.facebook.com/ssvesturland
Getum við bætt efni síðunnar?