Lord Nelson í höfn í Stykkishólmi
Breska seglskútan Lord Nelson lagðist við bryggju í Stykkishólmi í gærkvöldi og hélt sína leið nú í morgun. Skútan er á hringferð í kringum landið og er önnur af tveimur skútum sinnar tegundar, í eigu Jubilee Sailing Trust, sem er sérstaklega hönnuð með aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Skútan var smíðuð árið 1986 og ber, líkt og höfnin í Stykkishólmi, bláfánann stolt.
The Jubilee Sailing Trust eru góðgerðarsamtök frá Southhampton á Bretlandi. Samtökin eiga tvær stórar skútur með góðu aðgengi fyrir hreyfihamlaða. Samtökin bjóða upp á ævintýraferðir á sjó en um 2000 manns fara í ferðir á þeirra vegum á ári hverju. Um borð í Lord Nelson er nú 43 manna áhöfn, flestir óvanir siglingum. Hluti áhafnarinnar er hreyfihamlaður og fær, ásamt hinum hlutanum, tilsögn frá föstum meðlimum áhafnarinnar sem eru átta talsins.
Skútan lagði frá bryggju í Reykjavík 24. ágúst en ferðin umhverfis Ísland endar einnig þar þann 6. september, ef veður leyfir.