Fara í efni

Lekaleit í hitaveitunni í Stykkishólmi

13.06.2019
Fréttir
Þriðjudaginn 18. júní munu Veitur gera lekaleit í lokuðu kerfi hitaveitu í Stykkishólmi. Markmiðið er að auka rekstraröryggi kerfisins og tryggja sem besta nýtingu þess, öllum til hagsbóta. Leitin fer þannig fram að skaðlausu litarefni verður dælt inn á kerfið og í framhaldinu reynt að staðsetja leka og rangar tengingar. 
Ástæðan er sú að sífellt þarf að bæta vatni á kerfið og hefur hefur magnið aukist nokkuð undanfarna mánuði. Þetta skapar þrýstingslækkun í kerfinu en þegar lækkunin verður of mikil slá dælur út og ekki er hægt að afhenda heitt vatn. Hingað til hefur tekist að koma kerfinu fljótt og vel í gang aftur en sífelld áfylling fer hvorki vel með kerfið sjálft né búnað á heimilum og fyrirtækjum í bænum. Mikið magn af súrefnisríku vatni sem notað er til áfyllingar kerfisins skapar hættu á tæringu sem getur valdið töluverðu tjóni. 
Lekar í svona kerfum eru yfirleitt af tvennum toga; rangar tengingar á heimilum/fyrirtækjum og lekar úr lögnum. Lekar úr lögnum eru nokkuð stöðugir og ef um stærri leka er að ræða finnast þeir oft fljótt. Lekarnir í kerfinu nú hafa hins vegar verið þess eðlis að mikið magn lekur út úr kerfinu á stuttum tíma. Það bendir til þess að um rangar tengingar inn á kerfið sé að ræða og verður allt kapp lagt á að því að finna þær. 
Lekaleitin fer þannig fram að gult ferilefni (natríum flúoriscein) er sett í vatnið í lokaða hringrásarkerfinu. Það er skaðlaust og oft notað í grunnvatnsrannsóknum og ýmsum straumfræðirannsóknum. Samskonar lekaleit var gerð í Hveragerði fyrir skömmu og fundust þá bæði lekar úr lögnum sem og rangar tengingar hjá viðskiptavinum, oft í tengslum við heita potta eða snjóbræðslukerfi.
Ferilefnið natríum fluorescein er skaðlaust efni og er eitt algengasta ferilefnið sem er notað í grunnvatnsrannsóknum og ýmsum straumfræðirannsóknum. Efnið brotnar hratt niður í sólarljósi og þegar sýrustig er um og undir pH 5.5 en slíkar aðstæður eru algengar í jarðvegi á svæðinu. Efnið er hvorki eitrað né sérlega virkt í vatnslausn og hefur því ekki skaðleg heilsu- eða umhverfisáhrif.
Bæjarbúar eru beðnir um að láta Veitur vita ef þeir verða varir við gult vatn á heimilum sínum eða umhverfi á veitur.is/hafa-samband eða í síma 516 6000.
 
Getum við bætt efni síðunnar?