Fara í efni

Landsmót Sambands íslenskra harmonikuunnenda fer fram í Stykkishólmi dagana 30. júní til 3. júlí

07.06.2022
Fréttir

14. Landsmót Sambands íslenskra harmonikuunnenda fer fram í Stykkishólmi dagana 30. júní til 3. júlí nk. í boði Félags harmonikuunnenda í Reykjavík.

Mótið, sem verður tileinkað minningu Hafsteins Sigurðssonar harmonikuleikara og tónlistarkennara í Hólminum, verður formlega sett í íþróttahúsinu í Stykkishólmi klukkan 13:30 föstudaginn 1. júlí. Að því loknu taka við tónleikar aðildarfélaga, sem standa til 17:30. Klukkan 20:00 hefst svo dansleikur í íþróttahúsinu, sem stendur til miðnættis.

Dagskrá laugardagsins hefst með tónleikum klukkan 13:30 og er áætlað að þeim ljúki 15:30. Klukkan 16:00 fara fram sérstakir hátíðartónleikar Ástu Soffíu Þorgeirsdóttur, Kristinu Farstad Björdal og Mariusar Berglund. Stórdansleikur verður síðan í íþróttahúsinu um kvöldið frá klukkan 20:00 til 01:00 eftir miðnætti.

Aðgangseyrir með armbandi er kr. 10.000.- á alla viðburði mótsins, þrenna tónleika og tvo dansleiki.

Einnig er hægt að kaupa sig inn á staka viðburði, föstudagsdansleikur kr. 3000.-, laugardagsdansleikur kr. 4000.-. Tónleikar kr. 1500.- og hátíðartónleikar kr. 2000.-. Kynnir landsmótsins verður Hólmarinn Ellert Kristinsson.

Harmonikuunnendur hafa fengið tjaldsvæði úthlutað næst íþróttahúsinu, meðan pláss endist, en aðeins íþróttavöllurinn er á milli og greið gönguleið er að íþróttahúsinu. Sérstakt tilboð gildir fyrir harmonikkuunnendur á tjaldsvæðinu.

 
Getum við bætt efni síðunnar?